*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Davíð Þorláksson
4. janúar 2018 11:39

Niðursveifla í 24 ár

Skortur á leiðtogaefnum í Sjálfstæðisflokknum í borginni væri hægt að leysa með loforði um að borgarstjóri yrði ráðinn.

Haraldur Jónasson

Það dylst engum að það er kreppa hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík og hefur verið í 24 ár. Í kosningunum 1962–1990 var meðalfylgi flokksins 51%. Á því tímabili var hann alltaf nema einu sinni með hreinan meirihluta en hefur aldrei verið síðan. Í kosningunum 1994–2006 var meðalfylgið 44% en eftir hrun, í kosningunum 2010 og 2014, var meðalfylgið 30%. 

Grasrót flokksins í Reykjavík hefur verið sundurtætt af innanflokksátökum og hefur því ekki verið í stakk búin til að taka á vandanum. Stjórnir í innra starfinu eru ekki mannaðar út frá hæfni og áhuga heldur eru þær kosnar í smölunum eða valdaðar af fótgönguliðum kjörinna fulltrúa til að standa vörð um hagsmuni þeirra. 

Þegar þetta er skrifað eru rúmir fjórir mánuðir síðan ákveðið var að halda leiðtogaprófkjör. Hefðbundin prófkjör hafa ekki skilað nægjanlega fjölbreyttum listum. Enn hefur enginn stigið fram sem er líklegur til að breyta stöðunni. Ólíkt öðrum sveitarfélögum þá eru sveitarstjórnarmenn í Reykjavík í fullu starfi og fá greiddar um 630.000 í grunnlaun fyrir það. Framboð þýðir að fólk verður oftast að segja upp fyrra starfi sínu. 

Framboð í leiðtogaprófkjörinu er engin trygging fyrir öruggu sæti og 1. sætið er engin trygging fyrir borgarstjórastólnum. Það þarf því engan að undra að það virðist ekki vera eftirspurn eftir þeim sem eru í framboði og ekki framboð af þeim sem eftirspurn er eftir. Það er því spurning hvort Sjálfstæðisflokkurinn verði ekki að horfast í augu við þessa staðreynd og taka þá ákvörðun að oddviti verði ekki borgarstjóraefni. Þess í stað lofi flokkurinn að auglýst verði eftir borgarstjóra ef flokkurinn verði í meirihluta. Sú aðferð væri betur til þess fallin að ráða hæfan borgarstjóra.

Höfundur er forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs SA.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.