*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Leiðari
1. september 2016 13:33

Nóg pláss á miðjunni

Það er slæmt fyrir lýðræðið ef stjórnarandstaðan er ónýt og ekki raunhæfur kostur í kjörklefanum, þar er tækifæri fyrir Viðreisn.

Haraldur Guðjónsson

Nú styttist í alþingiskosningar, eins og fréttir og þjóðmálaumræða eru farin að bera vott um, en skoðanakannanir benda til þess að línur séu að skýrast ögn í þeim efnum. Ýmislegt bendir til þess að gríðarleg fylgisaukning pírata á liðnum mánuðum hafi að einhverju leyti byggst á óánægju með aðra flokka og stjórnmálin almennt, margir hafi lagt atkvæðinu sínu þar, svona án þess að vera búnir að gera fyllilega upp hug sinn. Nú blasir hins vegar alvara lífsins við í kjörklefanum og næstu vikur verða vafalaust spennandi og afdrifaríkar.

Fleira kemur þó til. Að undanförnu hafa píratar verið að velja á lista hjá sér og þar hefur tvennt vakið mesta athygli. Í fyrsta lagi hefur þátttakan verið í dræmasta lagi, ekki síst þegar haft er í huga hvað píratar leggja mikla áherslu á þátttökulýðræði og gagnsæi, en eins hefur framkvæmdin ekki reynst hnökralaus.

Í öðru lagi er eftirtektarvert hversu afdráttarlaus vinstrislagsíðan er orðin á þessu nýja pólitíska afli, sem hefur gefið sig út fyrir að standa utan við hinn hefðbundna hægri-vinstri ás stjórnmálanna. Það er enginn hörgull á vinstriflokkum í landinu, svo það mun vafalaust hafa áhrif á kosningabaráttuna og hvernig pírötum mun miða í henni.

Ef litið er til miðjunnar vekur athygli að þrátt fyrir að hinum nýja flokki Viðreisn hafi nýverið bæst öflugur liðsauki er hann áfram á sama róli og áður hvað fylgið áhrærir. Eins er hann ekki að sækja það til Sjálfstæðisflokksins, þvert á væntingar margra. Á hinn bóginn er eftirtektarvert að Þorsteinn Víglundsson, farsæll framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sem vill vera í forystu Viðreisnar, lýsir sjálfum sér sem hægrikrata. Það kann að gefa vísbendingu um hvar Viðreisn mun finna sér stað í hinu pólitíska litrófi, því hún þarf að finna sér önnur stefnumál en Evrópuhugsjónina, sem lítil eftirspurn er eftir þessi misserin.

Það beinir svo sjónum manna að brunarústum Samfylkingarinnar, sem virðist ekki eiga auðveldar með að finna sér frambjóðendur en fylgi. Það er nokkur kaldhæðni örlaganna, að það skyldi vera Samfylkingin sem eyðilagði Evrópumálin í íslenskum stjórnmálum, en þar liggur líka ein höfuðástæða hruns hennar, ásamt Icesave og almennu lánleysi hinnar norrænu velferðarstjórnar.

Þegar sú nafngift er rifjuð upp vaknar hins vegar hin augljósa spurning hvernig það megi vera að á Íslandi, einu Norðurlandanna, skuli ekki vera stór og öflugur jafnaðarmannaflokkur. Mikil er ábyrgð Jóhönnu Sigurðardóttur.

Viðskiptablaðið boðar ekki jafnaðarstefnuna, öðru nær, en það harmar að svo almenn lífsviðhorf, bæði lýðræðisleg og borgaraleg, skuli ekki eiga sér viðunandi málsvara í stjórnmálum. Það er slæmt fyrir kjósendur og það er slæmt fyrir lýðræðið ef stjórnarandstaðan er ónýt og ekki raunhæfur kostur í kjörklefanum. Þar kann hins vegar að vera tækifæri fyrir Viðreisn. Hún þarf ekki að finna sér marga góða krata til þess að geta sett upp rós í hnappagatið og breitt úr sér á miðjunni undir fyrirheiti um frelsi, jafnrétti og bræðralag.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.