*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Jóhannes Þór Skúlason
1. apríl 2021 13:42

Nokkrar staðreyndir um litakóðakerfi

Það er mikilvægt að gagnrýni á sóttvarnarráðstafanir byggi á staðreyndum en ekki lítt rökstuddum sleggjudómum.

Kristinn Magnússon

Mikil umræða stendur þessa dagana um svokallað litakóðakerfi sem ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að skuli taka gildi á landamærum þann 1. maí næstkomandi. Að sjálfsögðu eru skiptar skoðanir á þeirri ákvörðun. Málefnaleg gagnrýni er enda hornsteinn lýðræðisins.

En þar er líka rétt að staldra við. Það er nefnilega mikilvægt að gagnrýnin sé þá málefnaleg, byggð á staðreyndum og gögnum en ekki lítt rökstuddum sleggjudómum, eins og hefur því miður borið furðu oft á síðustu vikur. Steininn tók úr á dögunum þegar nýrri bylgju covidsmita var kennt um „tilslakanir á landamærum“ sem ferðaþjónustan hefði „krafist í krafti hagsmuna sinna“. Ekkert í þessari fullyrðingu er rétt, en þó flaug hún athugasemdalítið um netheima og birtist jafn gagnrýnilítið á síðum ýmissa fjölmiðla. Það er því full ástæða til að fara yfir nokkrar staðreyndir máls um þetta litakóðakerfi. Frá 19. ágúst 2020 hafa sóttvarnaaðgerðir á landamærum Íslands bara verið hertar. Nær allir sem til landsins koma þurfa að sæta tvöfaldri skimun og fimm daga sóttkví. Í febrúar var enn hert á þannig að nú þarf líka að framvísa neikvæðu PCR prófi þegar stigið er upp í flugvél til Íslands. Frá 1. apríl munu allir sem koma frá eldrauðum svæðum (skv. litakóða Sóttvarnarstofnunar Evrópu) verða skikkaðir í farsóttarhús.

Hvar er þá þessi „slökun á landamærunum” sem hin illa ferðaþjónusta á að hafa heimtað og fengið? Svarið er hvergi. Það hefur ekki verið slakað á neinu. Eða heldur fólk í alvöru að það felist einhverjir hagsmunir ferðaþjónustunnar í þessu sem hér hefur verið talið upp?

Ákvörðun ríkisstjórna er tekin á grundvelli gagna

Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að þótt embættismenn í undirstofnun heilbrigðisráðuneytisins hamist nú í fjölmiðlum dag hvern við að grafa opinberlega undan tilkynntri ákvörðun ríkisstjórnarinnar (sem í sjálfu sér er stórfurðuleg staða og ólíklegt að embættismenn annarra stofnana kæmust upp með slíkt athugasemdalaust) var ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að taka upp litakóðakerfið frá 1. maí ekki byggð á neinni geðþóttaákvörðun. Til grundvallar henni liggur ítarleg og fagleg skýrsla (sem var birt þann 15. janúar og fjölmiðlar ættu mögulega að kynna sér) þar sem meðal annars voru vegin og metin margs konar gögn sem koma málinu við.

Þar kemur meðal annars fram að gögn úr landamæraskimunum gefa skýrt til kynna að fólk sem kemur hingað sem ferðamenn frá svæðum þar sem smit eru ekki útbreidd er mjög ólíklegt til að vera smitað. Í skýrslunni segir að greiningin bendi til þess að, líkt og sóttvarnalæknir hefur bent á frá upphafi faraldursins, stafar umtalsvert meiri smithætta af komufarþegum sem hafa samfélagsleg tengsl á Íslandi (heimkomufarþegum) en af þeim sem koma hingað sem ferðamenn. Það er því ekki bara ferðaþjónustan sem er að benda á þetta í hagsmunapoti sínu eins og nú er vinsælt að halda fram í misvitrum fésbókarstatusum heldur eru þetta staðreyndir byggðar á gögnum almannavarna og Landlæknisembættisins.

Lítil áhætta á innanlandssmitum metin af aðferðinni

Að lokum má benda á tvennt varðandi þá aðferð sem taka á upp í sóttvörnum gagnvart grænum og appelsínugulum löndum í litakóðakerfinu eftir 1. maí.

Í fyrsta lagi er flokkun í áhættusvæði – litakóðaflokkun – þegar í gildi í á landamærum Íslands í dag, (það vill bara svo til að Grænland er eina græna landið). Reglur gagnvart grænum löndum verða því hertar 1. maí frá því sem nú er, enda þurfa ferðamenn frá lágáhættusvæðum eins og þau eru skilgreind í dag hvorki að framvísa prófum, undirgangast skimun né sæta sóttkví. Frá 1. maí þurfa þeir að framvísa PCR prófi og fara í skimun á landamærum. Í öðru lagi er í árangursmati á mismunandi sóttvarnaaðgerðum á landamærum Íslands eftir Thor Aspelund o.fl. – okkar helsta gagnavísindamann varðandi faraldurinn – sem HÍ gaf út í mars 2021 – lagt mat á árangur fjögurra mismunandi aðferða við sóttvarnir á landamærum. Þar var lagt mat á þrjá þætti: a) Fjölda smitaðra ferðamanna sem sleppa í gegnum sóttvarnaeftirlit, b) fjölda ferðamanna í sóttvarnahúsi, c) fjölda innanlandssmita í kjölfar smitaðra ferðamanna.

Í niðurstöðum árangursmatsins kemur fram að aðferðin sem taka á gildi fyrir græn og appelsínugul ríki frá 1. maí nk. (PCR prófs krafist frá heimalandi ferðamanns og landamæraskimun) komi nánast jafn vel út og sú aðgerð sem kemur best út í árangursmatinu, þ.e. að hún valdi nánast jafn fáum innanlandssmitum og besta aðferðin. Þetta er það sem gögnin segja. Staðreyndirnar skrökva ekki. Það hefðu margir gott af því að kynna sér þessa dagana, hvort sem það eru virkir í athugasemdum eða fjölmiðlamenn sem bera ábyrgð á miðlun upplýsinga til almennings.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.