*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Leiðari
28. september 2019 18:03

Nú er mál að linni

Refsistefnan liggur til grundvallar fíkniefnalöggjöfinni hér á landi og ef menn taka mið af staðreyndum þá blasir við að endurskoðun laganna þolir enga bið.

Ungir fíklar eru glæpamenn skv. fíkniefnalöggjöf Íslands og þurfa að fóta sig í fólskulegu neðanjarðarhagkerfi.
Haraldur Guðjónsson

Ólögleg fíkniefni og skelfilegar afleiðingar fíkniefnaneyslu hafa verið áberandi í umræðunni upp á síðkastið. Mikilvægi þess að koma í veg fyrir þær hræðilegu þjáningar sem þrífast í heimi ólöglegra fíkniefna er auðvitað kjarninn í öllum þeim fréttum, viðtölum og blaðagreinum sem birst hafa um málið að undanförnu. Þetta er líka markmiðið sem á að vera að leiðarljósi þegar fíkniefni og fíkn eru til umræðu. Þjáningin er staðreynd og veruleiki sem við getum ekki horft upp á aðgerðarlaust. 

Allir þeir einstaklingar sem að undanförnu hafa deilt sögu sinni úr fíkniefnaheiminum í fjölmiðlum eiga þakkir skildar fyrir upplýsa okkur um þessa þjáningu. Sömuleiðis þeir sem hafa gefið vinnu sína og tíma í baráttuna gegn fíkniefnavánni, safnað peningum eða gefið til styrktar samtökum sem helguð eru baráttunni. 

Það sem er þó sláandi við fjölmiðlaumræðuna undanfarið er að hvergi er spurt hvort baráttan hafi skilað árangri. Sömuleiðis eru engar hugmyndir lagðar fram um stefnubreytingar eða nýja nálgun á vandann. Þetta er áhyggjuefni af tveimur sökum. Í fyrsta lagi vegna þess að gögnin og rannsóknir – staðreyndir málsins – segja sömu sögu: Árangurinn er enginn og það sem verra er minni en enginn. Váin hefur magnast og þjáningin með. Í öðru lagi vegna þess að niðurstöður rannsókna um ólíkar stefnur þjóðríkja í málaflokknum eru skýr: Refsistefnan er gjaldþrota og svo slæm að margir telja að meiri þjáning hljótist af stefnunni en fíkniefnunum sjálfum.  

Refsistefnan liggur til grundvallar fíkniefnalöggjöf okkar hér á landi og ef menn taka mið af staðreyndum þá blasir við að endurskoðun þessara laga þolir enga bið. Gott fyrsta skref í þá átt væri að horfa þangað þar sem stefnan hefur skilað raunverulegum og mælanlegum árangri. Skýrasta dæmið sem við höfum til samanburðar er frá Portúgal. 

Fíkniefnavandinn í Portúgal var hvergi meiri í Evrópu á tíunda áratugnum. Heróínneytendur voru á bilinu 50-100 þúsund talsins og hlutfall HIV-smitaðra sprautusjúklinga var það hæsta í álfunni. Vandinn var kominn á það stig árið 1999 að stjórnvöld sáu sig nauðbeygð til að taka fíkniefnalöggjöf sína til gagngerra endurskoðunar. Eftir tveggja ára vinnu leit ný löggjöf dagsins ljós árið 2001 og ólíkt íslensku stefnunni var markmiðið í Portúgal ekki að takmarka aðgengi að fíkniefnum og refsing var ekki tækið til að ná markmiðinu. Markmið nýju laganna var að minnka skaða og draga úr þjáningu. Í stað refsinga og útilokunar var áhersla lögð á meðferðarúrræði og aðstoð við fíkla. 

Árangurinn lét ekki á sér standa. Útbreiðsla HIV-veirunnar og annarra smitsjúkdóma tengda sprautufíkn minnkaði um 90%. Árið 2012 voru þrjú dauðsföll vegna fíkniefna á hverja milljón íbúa en sama ár var meðaltalið í Evrópusambandinu sautján dauðsföll á hverja milljón íbúa. Fíkniefnaneysla ungmenna (13-15 ára) minnkaði og meðalaldur fíkniefnaneytenda lengdist umtalsvert. Hér á landi hefur neysla ungmenna aftur á móti aukist og dauðsföllum fjölgað verulega. 

Umræða um endurskoðun fíkniefnalöggjafarinnar er erfið því eins og svo oft í málum sem vekja upp heitar tilfinningar, er því stillt upp sem vali á milli tveggja afarkosta; Annaðhvort ertu með eða á móti fíkniefnum. Slíkur málatilbúningur er aldrei til bóta en í tilfelli fíkniefnaumræðunnar er afleiðingin sér í lagi alvarleg. 

Í stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum (2013) er talað um samfélag sem einkennist af heilbrigðu umhverfi. Á meðan núverandi löggjöf er látin standa óhögguð þá lokar íslenskt samfélag á unga fíkla, skilgreinir þá sem glæpamenn og gerir þeim að fóta sig í neðanjarðarhagkerfi þar sem milljarðar króna skipta um hendur árlega. Umhverfi þar sem ofbeldi ríkir en ekki lög og siðferði. Umhverfi þar sem þýfi og vændi eru gildir gjaldmiðlar og mansal viðgengst. Umhverfi þar sem fólk tapar mennskunni. Umhverfi þjáningar sem við getum ekki horft lengur upp á aðgerðarlaust. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.