*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Brynjar Níelsson
27. mars 2020 08:18

Nú eru góð ráð dýr

Í kjölfar bankahrunsins 2008 voru gerð þau mistök að eyða mestri orkunni í að troða nýrri stjórnarskrá ofan í kokið á þjóðinni.

Haraldur Guðjónsson

Nú um stundir gengur veira um heimsbyggðina sem lamar atvinnulífið tímabundið og hefur þar af leiðandi mikil áhrif á afkomu okkar, mismikil þó. Fullyrða má að við siglum inn í alvöru efnahagslega kreppu. Við þessar fordæmalausu aðstæður gildir ekki hið fornkveðna að hver sé sjálfum sér næstur. Þegar atvinnulífið lamast þurfum við að standa saman og bregðast við eftir mætti til tryggja afkomu alls almennings eins og kostur er og hjálpa fyrirtækjunum gegnum þennan háa skafl. Í því felast hagsmunir samfélagsins. Ríkisstjórnin hefur lagt fram lagafrumvörp fyrir þingið til að ná þeim markmiðum. Í þeim felast umfangsmiklar aðgerðir til að takmarka tekjutap fólks og gert er ráð fyrir fyrirgreiðslu til fyrirtækja til að halda sæmilegu atvinnustigi og til að tryggja að þau verði áfram samkeppnishæf þegar þessu ástandi lýkur. Allt snýst þetta jú um að verja störfin og tryggja hag okkar til framtíðar.

Þessi verkefni eru bæði flókin og vandasöm. Tillögur ríkisstjórnarinnar lofa góðu en eins og við mátti búast brugðust einstakir stjórnmálamenn við með yfirboðum – þeir sömu og venjulega. Vissulega má vel vera að gera þurfi meira og sumt öðruvísi og því þarf reglulega að endurmeta stöðuna eins og ríkisstjórnin hefur boðað. Nú reynir á stjórnmálamenn við erfiðar aðstæður. Mikið mæðir á fjármála- og efnahagsráðherra eðli málsins samkvæmt, sem hefur tekið þetta lítt öfundsverða verkefni meira og minna í fangið. Þingnefndir vinna nú baki brotnu við að gera frumvörpin enn betri þótt fjarlægð milli manna sé meiri en venjulega.

Mistökin í bankahruninu

Í kjölfar bankahrunsins 2008 voru gerð þau mistök að eyða mestri orkunni í að troða nýrri stjórnarskrá ofan í kokið á þjóðinni og reyna að þvinga hana um leið inn í Evrópusambandið. Einhvern veginn tókst að telja mörgum trú um að það hrun hefði eitthvað með stjórnarskrána að gera og að leiðin út úr kreppunni væri að Ísland gengi í Evrópusambandið. Sem betur fer mistókst sú vegferð en leiða má að því líkum að hún hafi tafið endurreisn efnahagslífsins um einhver misseri. Vonandi erum við flest sammála um að þessi veira hafi ekkert með stjórnarskrána að gera. Hin svokallaða nýja stjórnarskrá væri síður en svo hjálpleg við núverandi aðstæður. Einnig má ætla að innganga í Evrópusambandið hjálpi okkur ekkert. Á þeim bæ gildir augljóslega hið fornkveðna að hver sé sjálfum sér næstur þegar á reynir. Nú er heldur ekki tími fyrir þá, sem hvorki þurfa að hafa áhyggjur af því að missa starfið né lækka í launum, að fara í verkföll til að knýja fram meiri hækkun en lífskjarasamningarnir frá í fyrra mæla fyrir um. Við núverandi aðstæður er skynsamlegast að slá fyrirhuguðum launahækkunum á frest.

Kreppur eru að mörgu leyti lærdómsríkar, þótt þær geti leikið marga grátt. Forsenda þess að komast út úr kreppu er að staða ríkissjóðs sé sterk þegar ósköpin skella á. Því var það mikil gæfa að ráðist var í að greiða hratt niður skuldir ríkisins þegar betur áraði eftir bankahrunið og skila fjárlögum hallalausum ár eftir ár. Þrátt fyrir verulega aukin útgjöld á öllum sviðum síðustu ár var engu að síður uppi rík krafa um miklu meiri útgjöld ríkisins. Annar lærdómur sem við getum dregið af kreppu sem þessari er að öflugt atvinnulíf er hagur okkar allra. Því er nauðsynlegt á hverjum tíma að draga ekki svo úr samkeppnishæfni atvinnulífsins með óhóflegum sköttum og gjöldum að fyrirtækin séu síður í stakk búin að mæta áföllum.

Samstaða með atvinnulífinu

Við stjórnmálamenn erum oft fúsir að samþykkja frumvörp um auknar álögur og kvaðir á atvinnulífið, án þess að velta fyrir okkur afleiðingum þess. Þá gleymast þau algildu sannindi, að sterk staða fyrirtækja er ekki á kostnað almennings, eins og lýðskrumarar vilja vera láta, og að forsenda velferðar er öflugt atvinnulíf. Við þurfum að sýna samstöðu með atvinnulífinu – ekki gegn því. Það er ekki sérhagsmunagæsla að vilja lækka álögur og kvaðir á atvinnulífið til að gera það öflugra og samkeppnishæfara. Þvert á móti eru það almannahagsmunir og það er kominn tími til að allir stjórnmálamenn átti sig á því.

Mest er um vert að við vitum að árangur næst ef við stöndum saman og sýnum ábyrgð. Aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar, sem felst í gjaldfresti og útgjöldum úr sameiginlegum sjóðum, er ætlaður þeim sem þurfa en ekki þeim sem standa betur að vígi. Mikilvægt er að enginn nýti sér þessar fordæmalausu aðstæður til að hagnast óeðlilega. Þá væri fyrirtak að þeir, sem þrífast á því að tala allt og alla niður, geri stutt hlé á þeirri iðju og tali jafnvel kjark í fólk svona til tilbreytingar.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.