*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Örn Arnarson
15. nóvember 2021 07:05

Nú verða sagðar fréttir af Covid

Fjölmiðlar hafa ekki reynt að útskýra með heildstæðum hætti af hverju staða Landspítalans er jafn veikburða og raun ber vitni.

Sóttvarnayfirvöld hafa sent frá sér býsna skýr skilaboð um það sem ræður viðbrögðum þeirra við framgang faraldursins, en það er staðan á Landspítalanum. Þannig hefur Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir beinlínis látið hafa það eftir sér að hann hafi ekki upp á neitt annað að bjóða ef Landspítalinn ræður ekki við álagið sem hlýst af fjölgun smita. Í ljósi þess var furðulegt að fylgjast með veirufréttum á þriðjudag fyrir viku. Þá lögðu margir miðlar ofuráherslu á að segja frá fjölda smita í stað þess að fjalla um stöðuna á Landspítalanum.

Reyndar verður að segjast að ofuráhersla íslenskra fjölmiðla á að segja frá fjöldatölum þegar kemur að þróun smita frá degi til dags vekur upp margvíslegar spurningar. Hefur það eitthvert fréttagildi að leggja ofuráherslu í fréttaflutningi að segja að smitin hafi verið nokkru fleiri frá einum degi til annars þegar allir vita að faraldurinn er í sókn?

Aðalfréttin í hádegisfréttatímum Ríkisútvarpsins og Vísis á þriðjudag fjallaði þannig um að metfjöldi smitaðra hefði greinst á mánudag eða 168. Var þar með slegið met frá því á fimmtudaginn í síðustu viku. Í frétt RÚV var klifað á þessari tölu og fjallað um fjöldasmit á landsbyggðinni en engu orði minnst á stöðuna á Landspítalanum. Í fréttum Vísis kom aftur á móti fram í viðtali við sóttvarnalækni að þrátt fyrir fjölda smita væri álagið ekki að aukast á Landspítalanum og hefði sjúklingum með Covid á spítalanum fækkað á undanförnum dögum. Tók hann einnig fram að þeir sem væru að greinast með veiruna um þessar mundir væru yngra fólk og þeir sem eru bólusettir í þeim hópi hafi ekki orðið mikið veikir af veirunni.

Ljóst er að þessi þáttur málsins - það er að segja hversu margir veikjast alvarlega og þurfa hjálp á sjúkrahúsi - hefur mesta fréttagildið næstu vikurnar þegar kemur að framgangi faraldursins og vonandi fara fjölmiðlar í vaxandi mæli að einbeita sér að honum þegar kemur að fréttaflutningi af Covid-veirunni hér á landi.

* * *

Á þessum vettvangi fyrir viku var bent á að hvorki sóttvarnayfirvöldum né stjórnendum Landspítalans hefði tekist með fullnægjandi hætti að útskýra hvers vegna þurfi að grípa til víðtækra samkomutakmarkana og sóttvarnaaðgerða ef sjúklingum með Covid fjölgi umfram það sem nú er. Fjölmiðlar hafa ekki heldur gert tilraunir til þess að útskýra með heildstæðum hætti af hverju staða Landspítalans er jafn veikburða og raun ber vitni.

Í þessu samhengi má benda á að nýverið birtist frétt á RÚV sem fjallaði stöðuna í færeyska heilbrigðiskerfinu vegna faraldursins. Eins og lesa má þá getum við Íslendingar greinilega lært sitthvað af frændum vorum:

„Stjórnendur sjúkrahúsanna í Færeyjum telja sig ráða við útbreiðslu kórónuveirunnar og mögulega fjölgun sjúklinga. Nú liggja átta inni með COVID-19. Fyrir nokkrum dögum var sú tala komin upp í ellefu en komið hefur á daginn að það fólk þurfti ekki allt sérstaka umönnun vegna COVID. Fólkið var á sjúkrahúsi vegna annarra veikinda og því talið sem covid-sjúklingar. Færeyska ríkisútvarpið hefur eftir Tummas í Garði, rekstrarstjóra sjúkrahúsanna, að enn ráði þau vel við stöðuna þrátt fyrir að sjúklingar séu fleiri en vænst var. Covid-deild sjúkrahússins í Þórshöfn getur tekið við átta sjúklingum og Tummas segir að með góðu skipulagi sé hægt að bæta við fleiri ef þess gerist þörf."

* * *

Einnig var á þessum vettvangi í síðustu viku fjallað um að málsmetandi fólk furði sig á þeirri staðreynd að Landspítalinn virðist hafa geta staðist það álag sem fylgdi svínaflensunni og meðal annars tekið á móti fleiri sjúklingum á gjörgæsludeild og legudeild. Talsmenn heilbrigðiskerfisins mótmæltu þessum samanburði með að benda á að um gjörólíka sjúkdóma væri að ræða og samanburðurinn þar af leiðandi marklaus.

Gott og vel. Eigi að síður sést að mikið hefur breyst í íslensku heilbrigðiskerfi síðasta áratug. Sjúkrahúsrýmum hefur fækkað um 21% frá 2007. Á sama tíma hefur landsmönnum fjölgað um 20% (61 þúsund manns). Árið 2019 komu um 2,3 milljónir ferðamanna á ári sem eru um fimm daga í landinu að meðaltali. Það samsvarar því að um 30 þúsund ferðamenn séu í landinu að staðaldri. Þessi tala hefur 4-5 faldast frá 2007 (voru 458 þúsund). Eldri en 66 ára hefur fjölgað um 50% úr 30 í 45 þús. á þessu tímabili.

Frá 2007 hafa framlög til sjúkrahúsa hækkað úr 46,7 ma.kr. í 112,1 ma.kr. og á sama tíma hefur launavísitala hækkað um 129% og neysluverðsvísitala um 124%. Svo virðist sem stór hluti af auknum framlögum til sjúkrahúsanna hafi runnið til þess að hækka laun lækna langt umfram laun annarra og langt umfram laun lækna í nágrannalöndunum. Í kjölfarið hefur vinnuframlag lækna minnkað samanborið við það sem kemur fram í skýrslum ráðgjafarfyrirtækisins Boston Consulting.

* * *

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, voru gestir Einars Þorsteinssonar í Kastljósi Ríkisútvarpsins á mánudagskvöld fyrir viku. Tilefni viðtalsins var að sjálfsögðu aukinn fjöldi smita vegna Covid-veirunnar hér á landi og annars staðar á undanförnum vikum. En sem kunnugt er voru sóttvarnaaðgerðir hertar að nýju til að stemma stigu við fjölgun smita og koma í veg fyrir að álagið á Landspítalanum verði óviðráðanlegt. Stef sem ætti að hljóma kunnuglega í eyrum flestra.

Í þættinum spurði Einar þá Þórólf og Víði út í aðgerðirnar á landamærunum. Eins og flestir vita lagði sóttvarnalæknir það nýverið til að núverandi kvaðir á þá sem ferðast til landsins yrðu framlengdar. Ekkert ríki á Evrópska efnahagssvæðinu er með jafn harðar sóttvarnaaðgerðir á landamærunum og Ísland. Skiptir í því samhengi mestu um að bólusettir ferðamenn þurfa að sýna fram á niðurstöðu hraðprófs til viðbótar við bólusetningarskírteini áður en þeir stíga upp í flugvél til landsins. Bólusetningarskírteinið eitt og sér dugar í öðrum Evrópulöndum eins og allir Íslendingar sem hafa verið á faraldsfæti í haust vita.

Eins og Samtök ferðaþjónustunnar og fleiri hafa bent á þá hefur þetta fyrirkomulag haft verulega neikvæðar efnahagslegar afleiðingar. Þessar umframkröfur sem eru gerðar til þeirra sem ferðast til landsins í samanburði við önnur Evrópuríki hafa nú þegar leitt til samdráttar á framboði erlendra flugfélaga og ferðaskrifstofa á ferðum til Íslands. Samtök ferðaþjónustunnar meta að efnahagsleg áhrif þessa fyrirkomulags séu að minnsta kosti 26 milljarða króna tap á útflutningstekjum þjóðarbúsins.

Þetta er mikill fórnarkostnaður og eðli málsins samkvæmt spurði þáttastjórnandi Kastljóssins Þórólf og Víði út í þetta mál. Svör þeirra voru rýr í roðinu. Sóttvarnalæknir sagði það ekki rétt að önnur Evrópuríki gerðu ekki almennt kröfu um að bólusettir ferðamenn sýndu neikvætt próf áður en þeir leggja land undir fót og vísaði af einhverjum ástæðum til Bandaríkjanna í þeim efnum en stjórnvöld vestanhafs opnuðu fyrir ferðalag Evrópubúa í vikunni. Og efnislega sagði yfirlögregluþjónn almannavarna að íslensk stjórnvöld færu þessa leið af því að þau gætu það.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, hefur á samfélagsmiðlum bent á að ekkert í minnisblaði sóttvarnalæknis rökstyðji áframhaldandi aukakröfur á bólusetta erlenda ferðamenn án tengsla við samfélagið hér á landi. Framkvæmdastjórinn bendir svo á að sóttvarnalæknir hafi sjálfur bent á að samfélagssmitin sem hófust hér í haust hafi öll verið rakin til Íslendinga og fólks með tengsl við samfélagið sem var að koma frá útlöndum.

Á Facebook-síðu sinni skrifar svo Jóhannes Þór:

„Það er á ábyrgð stjórnvalda að ákvarðanir um ferðatakmarkanir sem hafa bein efnahagsleg áhrif séu teknar á grundvelli þess að stjórnvöld vegi og meti bæði sóttvarnaleg rök og efnahagsleg rök. Ég lýsi því eftir efnahagslegum forsendum ákvörðunar ríkisstjórnarinnar fyrir þessari ákvörðun um framlengingu á óbreyttum landamæratakmörkunum til 15. janúar. Ferðaþjónustuaðilar, og samfélagið allt sem nú verður af mikilvægum tekjum vegna þessarar ákvörðunar, á heimtingu á því að þær forsendur séu gerðar opinberar."

Eins og Kastljósviðtalið sýnir er lítil ástæða til þess að spyrja sóttvarnalækni út í þessar efnahagslegu forsendur og fátt á því að græða. En það er umhugsunarefni af hverju fjölmiðlar hafi ekki gengið eftir svörum við þessum spurningum hjá ráðamönnum ríkisstjórnarinnar.

* * *

Í Fréttablaðinu á laugardag fyrir rúmri viku mátti lesa frétt eftir Björn Þorláksson um að Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar, væri komin í fjölmiðlafrí ásamt Viðari Þorsteinssyni sem var framkvæmdastjóri stéttarfélagsins meðan Sólveig réð þar ríkjum. Sama dag birti Kjarninn svo ítarlegt viðtal við Sólveigu um málefni Eflingar og daginn eftir var hún gestur Egils Helgasonar í Silfrinu á RÚV þar sem hún ræddi sömu mál.

* * *

Morgunblaðið sagði frá því á mánudag að hin alþjóðlegu ostaverðlaun hefðu verið veitt á dögunum. Verðlaunaafhendingin var hluti af mikilli ostahátíð sem haldin er í Oviedo á Spáni. Besti osturinn þetta árið þótti vera spænski geitaosturinn Olavidio sem er framleiddur af litlu fyrirtæki sem heitir Quesos y Besos. Nú er mikið fjallað um mat og drykk í íslenskum fjölmiðlum. Þrátt fyrir það hafa engar fregnir borist af því hvort Mjólkursamsalan hyggist selja eftirlíkingu af verðlaunaostinum undir nafninu Ólafsfirðingur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.