*

miðvikudagur, 3. júní 2020
Leiðari
31. ágúst 2018 13:03

Nútíma verðlagsráð

Þegar stjórnendur úr viðskiptalífinu kvarta ítrekað yfir framgöngu eftirlitsstofnana þarf það ekki alltaf að þýða að þessar stofnanir séu að standa sína plikt.

Haraldur Guðjónsson

Eftirlitsstofnanir eru ekki óskeikular, síður en svo. Á síðustu tveimur vikum hefur Viðskiptblaðið birt viðtöl við Eggert Þór Kristófersson, forstjóra N1, og Orra Hauksson, forstjóra Símans. Það vekur óneitanlega athygli að í báðum þessum viðtölum eyða þeir miklu púðri í að tala annars vegar um Samkeppniseftirlitið og hins vegar um Póst- og fjarskiptastofnun.

Fyrir tveimur vikum sagði Eggert Þór að þótt hann hefði skilning á hlutverki Samkeppniseftirlitsins hefði samruninn við Festi sýnt að stofnunin væri ósveigjanleg og sýndi lítið frumkvæði. Forsvarsmenn N1 hefðu fengið litlar leiðbeiningar, sem á endanum hefði leitt til þess að málið hefði tekið alltof langan tíma. Þá benti hann á að fyrir skráð félag væri svona lagað afar slæmt. Bara það eitt að þurfa að draga samrunatilkynningu til baka og senda hana aftur hefði áhrif á hlutabréfaverð.

„Fyrir nokkrum árum kom íslenskur starfsmaður samkeppniseftirlitsins í Svíþjóð á ráðstefnu þar sem hún fór yfir það að stofnunin í Stokkhólmi hefði meiri leiðbeiningarskyldu. Þá þyrfti eftirlitið að láta vita hvaða vandkvæði þeir sæju við það ef þú segðir þitt fyrirtæki hyggjast kaupa annað,“ sagði Eggert Þór í viðtalinu. Samkeppniseftirlitið á Íslandi á að draga lærdóm af þessu.

Í blaðinu í dag er viðtal við Orra Hauksson, forstjóra Símans. Eyðir hann töluverðum tíma í að ræða um Póst- og fjarskiptastofnun (PFS).

„Að okkar mati hefur PFS bitið svolítið í sig og hefur meðal annars skrifað í úrskurðum sínum, að hlutverk stofnunarinnar sé að minnka markaðshlutdeild Símasamstæðunnar. Þetta hlutverk kemur hvergi fram í lögum og er því ansi furðulegt að okkar mati að þeir telji þetta vera eitt af hlutverkum sínum. Eins sérstakt og það er þá er PFS í rauninni með þessu að vinna að því að flytja viðskiptavini á milli fyrirtækja í þágu hluthafahóps samkeppnisaðila okkar á kostnað hluthafa Símans.

Ef þetta væri að eiga sér stað árið 1998 þegar Síminn var ríkisfyrirtæki og nánast með einokunarstöðu á markaðnum, þá myndi maður hafa samúð með að þetta væri eitt af hlutverkum þeirra. En núna er árið 2018 og við erum samkvæmt PFS þriðja stærsta farsímafyrirtæki á Íslandi. Þeir telja sig þrátt fyrir það hafa því hlutverki að gegna að minnka hlutdeild okkar.“

Samkeppniseftirlitið hefur um hríð átt í einhverjum furðulegum deilum við ISAVIA. Fyrir skömmu birti eftirlitið bráðbirgðaúrskurð, þar sem ISAVIA var bannað að taka gjald af rútufyrirtækjum fyrir afnot af svokölluðum ytri stæðum við flugstöðina. Þetta hljómar ekkert svo galið í fyrstu en þegar málið er skoðað nánar kemur í ljós að þetta var illa ígrunduð ákvörðun, því hún bitnar mjög harkalega á þriðja aðila. Í þessu tilfelli eru það tvö rútufyrirtæki, sem eftir að hafa orðið hlutskörpust í útboði, borga háar fjárhæðir fyrir afnot af innri stæðum.

Þegar þessi tvö fyrirtæki tóku þátt í útboðinu gerðu þau ráð fyrir því að gjald yrði innheimt af ytri stæðunum ellegar hefðu þau væntanlega ekki tekið þátt í útboðinu því miklu skynsamlegra hefði verið að fá afnot af ytri stæðum, borga ISAVIA ekkert og geta þar með boðið lægra fjargjald.

Viðskiptablaðið er ekki hlynnt opinberri innheimtu af þessu tagi en í þessu máli gerðu starfsmenn Samkeppniseftirlitsins sér augljóslega enga grein fyrir því hvaða afleiðingar þessar ákvarðanir höfðu á markaðinn. Samkeppniseftirlitið hefur í þessu máli hegðað sér eins og gamaldags verðlagsráð. Þess ber að geta að ISAVIA kærði bráðabirgðaúrskurðinn til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Samkeppniseftirlitið fór fram á það að kærunni yrði vísað frá en nefndin var á öðru máli. Kröfu Samkeppniseftirlitsins var hafnað, sem hlýtur að vera mikið áfall fyrir eftirlitið.

Þegar stjórnendur úr viðskiptalífinu kvarta ítrekað yfir framgöngu eftirlitsstofnana þarf það ekki alltaf að þýða að þessar stofnanir séu að standa sína plikt. Á bak við þessar stofnanir er starfsfólk sem gerir mistök eins og aðrir. Vandamálið er að mistök starfsmanna eftirlitsstofnana geta verið gríðarlega afdrifarík. Þess vegna verður að gera ríka kröfu til þess að þeir vandi til verka og setji sig vel inn í þau mál sem þeir fjalla um. Sú er því miður ekki alltaf raunin.afdrifarík. Þess vegna verður að gera ríka kröfu til þess að þeir vandi til verka og setji sig vel inn í þau mál sem þeir fjalla um. Sú er því miður ekki alltaf raunin.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.