*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Berta Daníelsdóttir
15. júlí 2019 10:02

Ný tækifæri í markaðs- og sölumálum?

Áhugaverð tækifæri geta verið að skapast í ímyndarog markaðsmálum íslensks fisks.

Haraldur Guðjónsson

Áhugaverð tækifæri geta verið að skapast í ímyndarog markaðsmálum íslensks fisks. Tæknifyrirtækin í vinnslu og veiðum hafa opnað dyr fyrir meiri upplýsingar til neytenda og val fyrir neytendur á þeim vörum sem keyptar eru. Aukin umræða á sér einnig stað um markaðsog sölumál innan sjávarútvegsins. Loks eru erlendir neytendur sjávarafurða orðnir langþreyttir á svikavörum og sækja meira í vottaðar afurðir eins og þær íslensku. En þrátt fyrir ný tækifæri og að sama skapi stærri ógnir, hreyfast markaðsmál íslenskra sjávarafurða almennt afar hægt.

Merki eru um að meiri slagkraftur sé að verða í umræðunni um hvernig auka megi markaðssetningu á íslenskum fiski. Íslenskur sjávarútvegur hreyfist í smáum skrefum í átt að aukinni beinni markaðssókn gagnvart erlendum neytendum. Kannski er ein ástæða þess velgengni nágranna okkar í Noregi með markaðssetningu þeirra vöru- eða upprunamerkja á fiski. Má þar meðal annars nefna markaðssetningu Norðmanna á „Skrei“ sem er heitið yfir ferskan þorsk frá Noregi.

Í skýrslu Alþjóðabankans sem nefnist „Fish To 2030“ (2013) er sagt að sjávarafurðir geti spilað stórt hlutverk í fæðuöflun jarðarbúa á næstu áratugum. Áætlað er að þeir fiskmarkaðir, sem íslensk fyrirtæki hafa helst selt inn á, Evrópa og Bandaríkin, vaxi mun hægar en markaðir í Asíu. Kína er talið vera það land sem muni hafa mest vaxandi áhrif á  fiskmarkaði, bæði sem fiskveiði- og eldisþjóð en líka sem sífellt stærri neytendahópur. Áætlað er að mestur vöxtur verði í eldi á tilapíu í heiminum og framleiðslan verði um 7,3 milljónir tonna í kringum 2030. Tilapía getur orðið í vaxandi mæli helsta samkeppnisvara íslenska þorsksins á komandi árum og áratugum. Áskoranir í markaðs- og sölumálum íslensks fisks eru því ærnar í framtíðinni. Bæði þarf að herja á nýja og hraðvaxandi markaði og auka þarf upplýsingar um gæði og uppruna íslenska fisksins.

Aukin meðvitund neytenda

Erlendir neytendur eru orðnir mun meðvitaðri en áður um eða alla veganna hafa þeir meiri áhyggjur af uppruna fisks. Ástæðan er augljós. Í athugun Ocean stofnunarinnar í Bandaríkjunum kom í ljós að 58% sjávarafurða, sem athugaðar voru af stofnunni og sem eru seldar vítt og breitt um Bandaríkin, reyndust vera rangt merktar eða innihéldu aðra vöru en fram kom á í vörulýsingum á pakkningum. Nýverið birtist frétt í Fiskifréttum um að frönsk sjónvarpsstöð hefði afhjúpað svikastarfsemi þar sem norskur þorskur, sem fluttur hafði verið til Kína, var sprautaður með ýmsum efnum og fluttur aftur til Evrópu. Varðandi gæði fisks og rekjanleika hafa Íslendingar tækifæri til að vera í fararbroddi og auka tiltrú neytenda á íslenskum fiski. En önnur lönd munu fylgja í kjölfarið. Seafood Business for Ocean Stewardship, sem er samstarfsvettvangur tíu stærstu sjávarútvegsfyrirtækja heims, hefur nýverið ákveðið að stuðla að umtalsverðum umbótum varðandi rekjanleika svo bæta megi ímynd alþjóðlegs sjávarútvegs. Fréttir sem berast af margháttaðri svikastarfsemi í alþjóðlegum sjávarútvegi í tengslum við uppruna fisks, sjálfbærni veiða ofl. eru áhyggjuefni en um leið þurfum við að skynja betur þau tækifæri sem felast í sterkri stöðu okkar á ýmsum þeim sviðum þar sem hallar á í öðrum sjávarútvegslöndum.

Íslensk tækni hjálpar

Ýmis tækni- og frumkvöðlafyrirtæki, bæði ný og þau sem eldri eru, kunna að gera íslenskum sjávarútvegi og í raun öllum matvælaiðnaðinum á Íslandi, auðveldar um vik að taka stærri skref með hugsanlega minni tilkostnaði í því að færa sig nær erlendum neytendum. Þekktust eru líklega tæknifyrirtækin í flakavinnslu. Með nýrri tækni þessara fyrirtækja geta neytendur í raun talað beint við vinnslubúnaðinn hjá vinnslufyrirtækjunum, valið sér þá hluta af fiskinum sem þeir óska, stærð bita o.s.frv. Þá gera tæknifyrirtækin neytendum einnig kleift að treysta betur á gæði vörunnar en með nýjum kæli- og pökkunaraðferðum hefur hillutími fisksins aukist til muna. Þessa tækni á enn eftir að nýta til fulls í sölu- og markaðsmálum. Ýmis ný frumkvöðlafyrirtæki eru síðan að bæta við þessa þróun. Þar eru meðal annars fyrirtæki sem bjóða tækni sem getur auðveldað fólki að vita nákvæmlega um uppruna vörunnar (hvaða bátur veiddi fiskinn og hvar) og tryggja að fólk fái nákvæmlega þá vöru sem það óskaði eftir (bálkakeðjutækni). Þá eru einnig að koma fram ný sölu- og markaðsfyrirtæki sem nýta samfélagsmiðla og ný markaðstæki og eiga þannig meira beint samtal við neytendur. Hér má nefna fyrirtæki á borð við Niceland sem hefur lagt mikið í markaðssetningu á ímynd íslensks fisks á sínum markaðssvæðum og upplýst neytendur um uppruna fisksins með QR-kóðum.

Í lauslegri athugun á því hvernig hægt er að kaupa fisk á netinu virðist staða íslenska fisksins nokkuð sterk í samanburði við ýmsar nágrannaþjóðir. Þetta má meðal annars sjá á Amazon Fresh sem er matvælavefur Amazon.  Klasinn hefur ekki skoðað hvort um íslenskan fisk sé ávallt að ræða sem merktur er ýmsum vörumerkjum en hér er gert ráð fyrir að merki eins og Icelandic og Samband of Iceland séu að bjóða íslenska vöru. Mun fleiri minni vefsíður virðast þó vera að selja fisk  frá m.a. Alaska, Noregi og Nýja Sjálandi en frá Íslandi. Íslenskar síður með beinsölu á ferskum eða frosnum fiski eru ekki áberandi.

Nýtum tækifærin

 En hvers vegna hreyfast hlutirnir jafn hægt í markaðssetningu erlendis í landi sem oft er þekkt fyrir ofsalegar og hraðar umbreytingar til nútímahorfs á mörgum sviðum? Ein helsta ástæða þess er ugglaust skortur á samstarfi fyrirtækja í markaðsmálum. Nú lítur út fyrir að samstarf fyrirtækja í sjávarútvegi innan SFS í samstarfi við Íslandsstofu verði eflt á sviði markaðsmála en það verður fróðlegt að fylgjast með verkefni SFS „Pride of Iceland“ sem snýst um bætta ímynd íslenska þorsksins.

Enn mætti þó fjölga hvötum til að auka samstarf fyrirtækja. Árangur samstarfs fyrirtækja í tækniþróun og sölu búnaðar í tengslum við sjávarútveg hefur verið ágætt dæmi um góðan árangur. Þar hafa styrkir frá Tækniþróunarsjóði Rannís haft jákvæð áhrif en sjóðurinn hefur stutt ýmis verkefni þar sem sýnt hefur verið fram á víðtækt samstarf fyrirtækja og stofnana í þróun búnaðar.

Með því að virkja alla keðju tækninýjunga og aukinn þunga frá útgerðum á markaðsmál, kann vel að vera að Íslendingar geti komið á mun skilvirkara sambandi við erlenda neytendur en þjóðir, sem komnar eru skemmra á veg í þróun á gæðaafurðum, en setja mun meiri fjármuni í beinar auglýsingar og markaðssetningu. Þetta tækifæri ber að nýta.

Höfundur er framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.