*

föstudagur, 10. júlí 2020
Andrés Magnússon
9. febrúar 2020 13:43

Nýmiðlun pólitíkusa

Bretarnir Boris Johnson og Dan Hannan virðast velta fyrir sér tilgangi fjölmiðla. Stjórnmálamenn vilja ekki vera statistar.

Boris Johnson er forsætisráðherra Bretlands.

Þó að Íslendingar hafi mikið til verið lausir við drottningar, þá eigum við samt til hugtakið „drottningarviðtöl" um tiltekna gerð viðtala, þar sem einhver valdamaður (og konur eru líka menn) er tekinn í langt spariviðtal, jafnan af meiri stimamýkt en rétt væri. Þegar rætt er við stjórnmálafólk, viðskiptavesíra eða menningarpáfa er sjálfsagt að spyrja það út úr um helstu álitaefni, ganga hart á eftir svörum, jafnvel að tefla fram andstæðum sjónarmiðum til þess að fá viðbrögð á þau.

Sú gerð viðtala hefur raunar ekki verið mjög algeng á Íslandi, án þess að fjölmiðlafólk sé almennt og yfirleitt of linkulegt við viðmælendur sína. Þau hafa þó lengi sést, bæði á prenti og ljósvaka, en ekki verið ýkja algeng. Þess vegna hafa menn líka tekið eftir því síðustu ár, þegar stöku fjölmiðlamenn hafa tamið sér þann stíl og hlotið fyrir bæði lof og last. Sumum finnast þeir ágengir sem láta viðmælendurna ekki komast upp með neinn moðreyk, öðrum að þeir séu prímadonnur eða jafnvel príma dónar.

Ætli það velti ekki nokkuð á afstöðu hvers og eins til hinna ýmsu mála, sem upp koma, en hitt blasir þó við að það er ekki alveg sama hvernig þetta er gert. Í flestum tilvikum getur ísköld kurteisi og ákveðni reynst jafnvel og ákefð og atgangsharka til þess að særa fram svör við erfiðum spurningum. En ekki alltaf og það má vel tína til dæmi, þar sem viðtalandinn þurfti nánast að byrsta sig.

Þá þarf hins vegar að gæta þess að menn falli ekki í þá freistni að hafa þá aðferð að reglu. Jú, það getur orðið „gott sjónvarp" úr því, en ekki endilega jafnupplýsandi eða sanngjarnt viðtal og ella. Þá er stutt í að fréttnæmið víki fyrir skemmtanagildinu og þá er viðtalið farið að missa marks.

Ekki síst á það auðvitað við ef viðtalandinn verður svo upptekinn af því að þjarma að viðmælandanum að hann stillir sjálfum sér upp nánast sem andstæðingi eða markmiðið er frekar að hanka viðmælandann en að fá frá honum svör um efni máls. Það kann að vera freistandi, gaman jafnvel, sérstaklega ef viðtalandanum þykir hóflega til viðmælandans koma, en fjölmiðlafólk þarf að varast hégómlegar freistingar af því tagi. Hlutverk þeirra er að upplýsa almenning.

                                                                    ***

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er um margt óvenjulegur stjórnmálamaður; galgopi í aðra röndina en gáfaður, vel menntaður og íhugull í hina. Sú fjölmiðlapersóna, sem hann hefur ræktað með sér um langa hríð, er án vafa ein helsta ástæða velgengni hans á stjórnmálasviðinu, en hann á bæði auðvelt með að ná til almennings (þó skoðanir á honum séu mjög skiptar) og einnig fyrirgefast honum alls kyns gloríur, sem riðið hefðu flestum öðrum stjórnmálamönnum að fullu.

Í því samhengi er rétt að minnast þess að sjálfur var hann blaðamaður um árabil, brokkgengur en afar vinsæll penni. Sömuleiðis var hann lengi reglulegur gestur á heimilum Breta í hinum grínaktuga fréttaspurningaþætti Have I Got News for You, bæði sem keppandi og umsjónarmaður. Það er því engum blöðum að fletta um hæfileika hans á fjölmiðlasviðinu.

Hins vegar ber ekki á öðru en að hann sé orðinn leiður á fjölmiðlaatinu eða kannski öllu heldur að hann sjái ekki alveg tilganginn í því með sama hætti og áður. Sem er mörgu fjölmiðlafólki áhyggjuefni en ætti þó ekki síður að vera því umhugsunarefni.

                                                                    ***

Íslandsvinurinn Dan Hannan, sem til skamms tíma var Evrópuþingmaður, vék að þessu í grein á dögunum. Hann sagði að á síðustu viku sinni á Evrópuþinginu hefði hann veitt fjölmiðlum níu viðtöl en sjö þeirra hefðu leysts upp í reiðilestur blaðamannanna um hvað Brexit væri fjarskalega vond hugmynd, fullkomlega tilgangslaus sumsé. Þetta vakti Hannan hins vegar til umhugsunar um hver væri tilgangur fjölmiðlaviðtala.

Hann taldi að fyrir áratugi hefði svarið ekki vafist fyrir sér, hlutverk fjölmiðla væri að miðla. Í viðtölum spyrðu þeir spurninga fyrir hönd almennings sem ætti kröfu á svörum frá stjórnmálafólki og öðru forystufólki á ýmsum vettvangi. Fyrir aðeins nokkrum árum hefði stjórnmálamaður sem hafnaði viðtali við helstu sjónvarpsmiðla í raun verið að útiloka sjálfan sig frá þjóðmálaumræðu og tæplega átt framtíð fyrir sér í stjórnmálum. Þetta hefði breyst.

                                                                    ***

Það sást raunar vel í kosningabaráttunni í Bretlandi á aðventunni, þegar lið Borisar tók sjálft upp viðtöl við hann og annað efni, sem síðan var miðlar á hinum og þessum félagsmiðlum með góðum árangri, þar á meðal spurningatímar þar sem almenningur gat spurt frambjóðandann (en sjaldnast erfiðra spurninga).

Á sama tíma hafnaði hann mörgum viðtalsbeiðnum frá stóru sjónvarpsstöðvunum, þar á meðal frá ríkisútvarpinu BBC. Það sætti mikilli gagnrýni hinna talandi stétta í Lundúnum, en almenningur virtist ekkert kippa sér upp við það og taldi sig vel geta myndað sér afstöðu til frambjóðandans án aðstoðar fjórðu stéttarinnar. Eftir kosningasigurinn hefur orðið framhald á þessu.

Á Brexit-daginn stóð til að forsætisráðherrann flytti ávarp en ritstjórn ríkissjónvarpsins BBC kvaðst ekki hafa áhuga á að sýna það beint. Svo því var dælt út beint frá Downingstræti 10 inn á félagsmiðla og áhorfið þar var ekki minna, en búist hafði verið við á aðallrás BBC. Sem hlýtur að vera hrollvekjandi þar á bænum.

                                                                    ***

Hannan sagði í grein sinni að stjórnmálafólk hefði engan sérstakan áhuga á að vera statistar í fjölmiðlaviðtölum, þar sem allt snerist um viðtalandann, sniðugheit hans og hæfileika til þess að setja viðmælandann úr lagi. Ekki væri annað að sjá en að þeir tímar væru upp runnir að pólitíkusar gætu einfaldlega sniðgengið stóru miðlana, sinnt eigin miðlun eða lagt meiri rækt við lengri og ítarlegri viðtöl á Youtube eða hlaðvörpum heimsins.

                                                                    ***

Það kann vel að vera rétt athugað hjá Dan Hannan. Spurningin er þó sú hvort stjórnmálafólki verði sýnt nægilegt og nauðsynlegt aðhald með því móti? Það er mikið vafamál. Hvernig snúa má því við er umhugsunarefni fjölmiðlafólks, en þar þarf það ekki síður að líta í eigin barm en pólitíkusanna.

Stikkorð: Bretland BBC Boris Johnson Dan Hannan
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.