Jóhann Hauksson upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar gerði athugasemdir við pistil Týs þar sem fjallað var um fyrirhuguð kaup á nýjum ráðherrabílum.

* * *

Staðreyndirnar eru þessar. Ríkisstjórnin fól undirstofnun fjármálaráðuneytisins að endurnýja ráðherrabíla. Útboð fór fram og gerður var samningur til þriggja ára við nokkur bílaumboð. Útboðið verður ekki skilið á annan veg en að til standi að endurnýja ráðherrabíla.

* * *

Fróðlegt væri að sjá hvaða bílategundir voru valdar í útboðinu. Gæti upplýsingafulltrúinn upplýst um það fyrst Ríkiskaup vilja ekki gera það?

* * *

Upplýsingafulltrúinn hélt því að bílafloti ráðherranna sé orðinn gamall. Er ekki rétt munað hjá Tý að elsti bíllinn í bílaflota ráðherra er einmitt bíll forsætisráðherra. Sá bíll var tekinn í notkun áramótin 2004/2005 og er því 7 ára og 3 mánaða. Bíllinn er að af gerðinni BMW 730 Li; lengd gerð af flaggskipi þýska bílaframleiðandans.

* * *

BMW bifreiðin tók við af Audi A8 sem tekinn var í notkun í september 1996 og seldur í lok árs 2004. Audi bifreiðin var því seld þegar hún var rúmlega 8 ára, tæpu ári eldri en núverandi bifreið forsætisráðherra. Á sama tíma hefur meðalaldur bílaflota landsmanna hækkað mikið og er orðinn 12 ár.

* * *

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir varð fyrst ráðherra afþakkaði hún ráðherrabíl og ók um á eigin bíl án bílstjóra. Ríkið greiddi reyndar fyrir rekstrarkostnað bílsins utan afskrifta.

* * *

Með þessu vildi alþýðukonan Jóhanna væntanlega deila kjörum með fólkinu í landinu. Í dag ekur hún um á lúxusbíl af bestu gerð og hefur látið gera samning um endurnýjun á honum. Þrátt fyrir þá staðreynd að bíllinn sé 5 árum yngri en meðal Íslendingurinn þarf að sætta sig við. Margir velta fyrir sér hvað hefur breyst. Eru kjör almennings orðin það bágborin að forsætisráðherra vilji einfaldlega ekki deila þeim?

* * *

Það er rétt hjá upplýsingafulltrúanum að ferli málsins er allt saman óskaplega faglegt. En það breytir engu um að ákvörðun ríkisstjórnar Jóhönnu um endurnýjun bílanna er vitlaus. Viðkvæmni upplýsingafulltrúans og aðstoðarmanns forsætisráðherra við umfjöllun um ráðherrabíla skýrist auðvitað af því að ráðherra hefur orðið ber að tvískinnungi.

* * *

Jóhann Hauksson skrifar á blogsíðu sinni að trúverðugleiki sé fjöregg alvöru fréttamiðla. Vonandi hefur hann haft það að leiðarljósi á öllum miðlum sem hann hefur starfað.