Nýverið féll úrskurður hjá Yfirskattanefnd sem felur í sér að úthlutun eigna til hluthafa í kjölfar félagsslita myndar ekki skattskyldar tekjur í hendi félagsins. Í huga einhverra er þetta vart fréttnæmt en í stuttu máli má segja að um tímamóta úrskurð sé að ræða þar sem viðtekin túlkun og framkvæmd Skattsins var hrakin. Í framhaldinu verða slit fyrirtækja sem liður í almennri endurskipulagningu  mun ákjósanlegri leið en áður, það er nema lagabreyting verði keyrð í gegn sem of oft vill verða þegar mál falla hinu opinbera í óhag. En þetta mál varðar ekki bara framtíðina því jafnvel er tilefni fyrir skattaðila sem hafa ekki andmælt túlkun Skattsins í endurskipulagningum fortíðar að meta stöðu sína og möguleika á endurupptöku álagningar.

Áður en forsagan verður rakin þá er vert að hafa í huga að skattaréttur er umfangsmikið réttarsvið og mynda lög um tekjuskatt nr. 90/2003 hryggjarstykki íslenskrar skattframkvæmdar. Þrátt fyrir að tekjuskattslögin séu ítarleg er þeim ekki ætlað að vera kasúísk eða atviksbundin. Það kemur í hlut skattyfirvalda og dómstóla að túlka lögin og móta skattframkvæmd sem byggð er á fullnægjandi lagaheimildum. Dýnamíkin er jafnan með þeim hætti að Skatturinn leggur mat sitt á túlkun lagaákvæða í verki og myndar þannig drög að skattframkvæmd sem skattaðilinn getur leitast við að hnekkja með atbeina yfirskattanefndar eða dómstóla.

Skattyfirvöld hafa lengi byggt á því að hagnaðaraukning innan félags verði ekki færð í hendur hluthafa nema að undangenginni skattlagningu innan félagsins. Hefur þannig verið litið á úthlutun eigna við slit sem sölu með tilheyrandi skattlagningu söluhagnaðar. Er það til viðbótar við þá skattlagningu sem kann að virkjast í hendi hluthafa við móttöku teknanna. Svo tekið sé einfalt dæmi kann eign félags að aukast að verðmætum á rekstrartíma félags og sé hún seld er söluhagnaður skattlagður áður en söluandvirðinu er ráðstafað til hluthafa, t.d. í formi arðgreiðslna. Er slík meðferð teknanna eðlileg í ljósi þess að tekjuskattslögin mæla bæði fyrir um skattlagningu söluhagnaðar félaga sem og skattlagningu arðgreiðslna í hendi hluthafa.

Spyrnt á móti túlkun Skattsins

Tekjuskattslögin eru þó ekki jafn afdráttarlaus þegar eignum er ráðstafað til hluthafa án sölu. Skatturinn hefur byggt á því að eignum sem ráðstafað er til hluthafa með arðgreiðslu, við slit eða við hlutafjárlækkun, án undanfarinnar sölu, skuli skattlagðar hjá félagi líkt og seldar hefðu verið. Slík túlkun leiðir í raun til tvísköttunar þar sem brúttó tekjustofn eigna er þar með skattlagður hjá bæði félaginu og hluthafanum. Einstök sérákvæði finnast í tekjuskattslögum um að líta beri á lögmæta ráðstöfun eigna sem sölu í skattalegu tilliti, svo sem í tilfelli milliríkjasamruna og -skiptingar. Sambærilegar sérreglur giltu jafnframt áður um ráðstöfun eigna við félagsslit eða við hlutafjárlækkun en lagaheimildin var afnumin skömmu fyrir aldamót.

Ráðstöfun eigna, hvort heldur við slit eða lækkun hlutafjár, ber að skattleggja með sambærilegum hætti og arðgreiðslu, að því marki sem verðmæti ráðstafaðra eigna eru umfram kaupverð þess eignarhluta sem um ræðir. Bein lagákvæði eru einskorðuð við skattalega meðferð teknanna í hendi hluthafa og hefur Skatturinn hvað varðar skattlagningu innan félagsins vísað til „almennra ákvæða tekjuskattslaga" er taka til skattlagningar söluhagnaðar af atvinnurekstrareignum. Óinnleystur hagnaður af virðisaukningu eigna verði því skattlagður innan félagsins áður en eignum er ráðstafað til hluthafa. Þar sem ekkert gagngjald fæst við slíka ráðstöfun er erfitt að fallast á að hægt sé að túlka ráðstöfunina á þann veg að um sölu á eignum sé að ræða. Þrátt fyrir að yfirskattanefnd hafi með úrskurði nr. 368/2005 hnykkt á því að úthlutun eigna við slit teljist ekki sala í skattalegu tilliti virðist Skatturinn hafa viðhaldið fyrri framkvæmd.

Nýlega ákváðu skattaðilar að spyrna á móti þeirri túlkun en með úrskurði yfirskattanefndar nr. 69/2019 var því slegið föstu að ekki komi til skattlagningar óinnleysts hagnaðar af eignum sem ráðstafað er til hluthafa í kjölfar hlutafjárlækkunar. Sömu röksemdir eiga réttu lagi við um félagsslit en í kjölfar úrskurðarins hefur Skatturinn þó hafnað því að víkja frá fyrri túlkun. Það var svo núna í mars að yfirskattanefnd staðfesti með úrskurði nr. 42/2022 að úthlutun eigna til hluthafa í kjölfar félagsslita myndi ekki skattskyldan söluhagnað í hendi einkahlutafélags. Niðurstaðan er til marks um að framkvæmd skattyfirvalda skorti lagastoð en leiða má líkur að því að skattlagning „innleysts hagnaðar" við ráðstöfun eigna hafi um árabil viðgengist án lagaheimildar.

Úrskurðurinn er í senn áminning til skattaðila um að láta reyna á óhagfellda túlkun skattyfirvalda en ástæða kann að vera til að skoða hvort skattyfirvöld séu almennt að seilast of langt við túlkun skattalaga og mótun skattframkvæmdar.

Höfundur er lögmaður hjá Deloitte Legal.