*

þriðjudagur, 21. janúar 2020
Leiðari
19. maí 2017 09:59

Nýr veruleiki

Hugsanlega þykir stjórnendum Seðlabankans besta mál að peningastefnunefndin fái einhvers konar véfréttarímynd en skortur á gegnsæi er bagalegt fyrir almenning og markaðsaðila.

Aðsend mynd

Það segir sína sögu að þegar Seðlabanki Íslands lækkar loksins viðmiðunarvexti sína um 0,25 prósentustig þá virðist það hafa komið mörgum á óvart. Þegar rýnt er í hagtölur er í raun erfitt að sjá hvernig Seðlabankanum hefði verið stætt á að halda vöxtum óbreyttum, verðbólga er undir viðmiðunarmörkum bankans og er búin að vera það um langt skeið. Vaxtamunurinn við útlönd er gríðarlegur og erlent fjármagn flæðir inn í landið, einkum í vösum ferðamanna.

Því eru stóru fréttirnar í raun þær að Seðlabankinn hafi ekki fyrir löngu verið búinn að lækka vexti, en það gerðist síðast í desember í fyrra.

Hreyfingar á hlutabréfa- og skuldabréfamörkuðum í gær sýna að almennt hafi menn ekki þorað að gera ráð fyrir vaxtalækkun. Að minnsta kosti var ekki búið að verðleggja hana inn í gengi verðbréfa. Hlutabréf hækkuðu í verði og ávöxtunarkrafa, einkum á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum, lækkaði verulega.

Þetta undirstrikar þann skort á gagnsæi sem einkennir vinnubrögð peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands. Þegar menn reyna að spá fyrir um þróun stýrivaxta er ekki lengur nóg að horfa á hagtölur og finna svar við þeirri spurningu hvort svigrúm sé til vaxtalækkunar eða -hækkunar eftir því hver staðan er hverju sinni. Menn þurfa einnig að geta sér til um það hvað peningastefnunefndin sjálf mun gera og hún hefur sýnt það síðustu misseri og ár að hún horfir öðrum augum á þessar sömu hagtölur.

Hugsanlega þykir stjórnendum Seðlabankans þetta bara vera hið besta mál. Að peningastefnunefndin fái einhvers konar véfréttarímynd. En fyrir almenning og markaðsaðila er þetta bagalegt. Hvað stjórnar vaxtaákvörðunum peningastefnunefndar ef ekki hagtölurnar?

Ekki var síður áhugavert að sjá það á kynningarfundi vegna vaxtaákvörðunarinnar að hagfræðingar Seðlabankans líta svo á að jafnvægisraungengi hafi hækkað. Endurspeglaði þetta það sem sagði í yfirlýsingu peningastefnunefndar: „Seðlabankinn hefur dregið úr inngripum á gjaldeyrismarkaði í ljósi rúmrar forðastöðu enda er gengishækkunin talin endurspegla undirliggjandi efnahagsþróun.“

Það vantar hins vegar að þessi hugsun sé tekin til enda. Ef jafnvægisraungengi hefur hækkað ættu jafnvægisraunvextir einnig að hafa breyst. Þetta virðist peningastefnunefnd ekki hafa meðtekið – alltént er þess ekki að finna merki í yfirlýsingunni.

Efnahagslegur raunveruleiki á Íslandi er í dag allt annar og heilbrigðari en hann var á árunum fyrir fall bankanna. Hagvöxtur er ekki drifinn áfram af skuldsetningu eða óhóflegri einkaneyslu og gjaldeyrisjöfnuður við útlönd er jákvæður. Þetta eru allt aðrar aðstæður en þær sem meðlimir peningastefnunefndar ólust upp við og þekkja.

Það er eðlilegt að Seðlabankinn vilji flýta sér hægt, en það hlýtur þó að koma að því að þessi nýi raunveruleiki fái að endurspeglast í líkönum bankans og að hann hafi áhrif á ákvarðanir peningastefnunefndar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.