Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir sagði skimanir á landamærum og raðgreiningu til skoðunar í samtali við Stöð 2 í vikunni.

Tilefnið mun vera tilslakanir á sóttvarnatakmörkunum í Kína. Sagði sóttvarnalæknir stöðuna þar óljósa vegna minni upplýsinga um fjölda smita, innlagna og veikinda.

Því séu áhyggjur af ástandinu þar og að það geti haft áhrif í Evrópu. Þá séu áhyggjur af veikindum kínverskra ferðalanga séu þeir ekki vel bólusettir.

***

Nú veit Týr ekki hver staðan er í Kína, en hann þykist hafa ágætis hugmynd um stöðuna hér á Íslandi. Hér eru meira og minna allir með nefrennsli og hóstandi upp grágrænum slímkögglum í um það bil sjöunda skipti í vetur að meðaltali, en enginn fer í skimun.

Meira en ár er síðan langstærstur hluti þjóðarinnar lét bólusetja sig síðast, sem þýðir að virkni bóluefnisins er væntanlega sama og engin, auk þess sem þá var bólusett við lönguútdauðu afbrigði veirunnar, sem hefur lítið að segja gagnvart núverandi afbrigðum.

Í ljósi þessa er erfitt að ímynda sér að þær örfáu kínversku hræður sem skila sér hingað til lands verði baggi á íslensku heilbrigðiskerfi umfram aðra. Sá baggi sem hvílir á íslensku heilbrigðiskerfi í dag, og raunar heilbrigðiskerfum um heim allan, er að ofsafengnar sóttvarnartakmarkanir yfir lengri tíma hafa laskað ónæmiskerfi fólks, sem leiðir til þess að fólk veikist oftar og meir en áður af hefðbundnum umgangspestunum sem fólk fann varla fyrir hér áður.

***

Fátt er þó orðið jafn laskað eftir fárið og virðing hins opinbera fyrir borgaralegum réttindum fólksins sem fjármagnar það.

Hættuleg fordæmi hafa verið sett, þar sem auðveldara en áður virðist að grípa til takmarkana á frelsi fólks. Húðlatir embættismenn hafa fattað að það eru þeir sem ráða för, ekki kjörnir fulltrúar, og það er þeim miklu þægilegra að takmarka fólk en að vinna vinnuna sína og sníða kerfið að fólkinu.

Í stað þess að moka er vegum lokað, í stað þess að sópa götur er fólk beðið um að vinna heima og í stað þess að auka afkastagetu heilbrigðiskerfisins setjum við tilgangslausar takmarkanir á Kínverja. Þetta er nýja normið.

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.