Nú stefnir í að ný heildarlög verði sett á Alþingi um nýtt lánaform sem kallast rafrænar skuldaviðurkenningar. Það er ánægjulegt þegar stjórnvöld standa að svo framsýnum lagabreytingum. Nýja löggjöfin mun hafa mikil áhrif til einföldunar í lánaviðskiptum og styðja við þróun rafrænna pappírslausra viðskipta og rafrænnar stjórnsýslu þeim tengdum. Með því myndast til mikið hagræði fyrir almenning, fyrirtæki, lánveitendur og hið opinbera.

Góðir hlutir gerast hægt en allt frá árinu 2016 hafa Samtök fjármálafyrirtækja bent á nauðsyn þess að opna möguleika á að veðskjöl verði að fullu rafræn til þess að fullt hagræði náist af rafrænum þinglýsingum sem urðu að veruleika fyrir nokkrum árum. Fyrsta rafræna veðskuldabréfinu var þinglýst með rafrænum hætti í lok árs 2021. Í þeim viðskiptum þurfti bankinn að varðveita skjalið á pappírsformi til þess að geta framvísað því síðar ef á þyrfti að halda t.d. vegna innheimtuaðgerða.

Nýja lánaformið, rafrænar skuldaviðurkenningar, mun hafa mjög líka eiginleika og skuldabréf og því mun fylgja sambærilegt réttarfarshagræði í viðskiptum og tíðkast með skuldabréf.  Gert er ráð fyrir að  hagræðið af notkun rafrænna skuldaviðurkenninga í stað pappírsskjala skapi hvata fyrir lánveitendur og lántaka til að nýta sér þær í stað skuldabréfalána.

Mikilvægt er að sparnaður og hagræði af rafrænum skuldaviðurkenningum náist sem fyrst.

Skuldabréf á pappír munu þó ekki leggjast alfarið af og er með nýju lögunum ekki  hróflað við hugtakinu skuldabréf og gildandi reglum um þau, sem að mestu hvíla á ólögfestum grundvelli í íslenskum rétti, að undanskildum ákvæðum tilskipunar um áritun afborgana á skuldabréf frá 9. febrúar á því herrans ári 1798.

Enginn pappír enginn penni

Munurinn á skuldabréfi og rafrænni skuldaviðurkenningu felst fyrst og fremst í því að enginn pappír og enginn penni kemur við sögu þegar um er að ræða það síðarnefnda. Skjalið er á rafrænu formi, það er undirritað af lántaka með rafrænni undirskrift og því er þinglýst með rafrænum hætti. Þar með verður ekki lengur þörf á umfangsmikilli vörslu og umsýslu skuldabréfa á pappírsformi bæði hjá einkaaðilum og opinberum aðilum. Með því skapast tækifæri til verulegs sparnaðar. Komið er í veg fyrir tvíverknað sem fylgir utanumhaldi skjala á pappír annars vegar og rafrænni skráningu sömu upplýsinga hins vegar hjá sýslumanni. Því ætti skilvirkni í viðskiptum aukast, lánaumsýsla verða einfaldari, umhverfisáhrif að minnka þar sem pappírsnotkun minnkar og ferða lántaka til lánveitenda og til þinglýsingastjóra fækkar.

Samfélagslegur ávinningur þarf líka að vera fyrir atvinnulífið

Búist er við að verulegur samfélagslegur ávinningur felist í notkun rafrænna skuldaviðurkenninga í stað lánaskjala á pappírsformi, hvort sem er fyrir lántaka, fjármálafyrirtæki, fasteignasölur og sýslumenn. Þjóðhagslegur ávinningur af rafrænum þinglýsingum einum og sér er talinn vera mikill eða að lágmarki á bilinu 1,2–1,7 milljarðar kr. á ári. Þá er ekki talinn ábatinn af því að sleppa pappírskjölum að fullu með tilliti til hraðari viðskipta, minni ferðakostnaðar, meiri skilvirkni í lánveitingum og þinglýsingum o.fl. Mikilvægt er að sparnaður og hagræði af rafrænum skuldaviðurkenningum náist sem fyrst.

Eins og frumvarpið lítur út er gert ráð fyrir að aðeins lán til neytenda verði fyrst um sinn á formi rafrænna  skuldaviðurkenninga en atvinnulífið þurfi að bíða til ársins 2026 með að geta nýtt sér þetta hagræði. Þessi takmörkun er rökstudd í athugasemdum með frumvarpinu með þeim rökum að þar sem um nýtt  lánaform sé að ræða sé nauðsynlegt að gefa öllum aðilum tíma til aðlögunar. Það er of langur biðtími fyrir fyrirtækin í landinu að mati Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs sem hafa bent á að atvinnulífið þarf að geta notið góðs af þessu nýja lánaformi sem fyrst.