Á dögunum skrifaði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra stutta hugleiðingu í Fréttablaðið um efnahagsmál. Segir að vel hafi gengið á undanförnum árum, en framundan sé aðlögun „…að breyttum horfum í hagkerfinu […] Við þurfum að skapa ný störf, sækja fram og halda verðmætasköpun í landinu áfram. Til þess þarf frumkvæði, bjartsýni og kraft.“ Undir þetta má taka og athafnir verða að fylgja orðum. Þegar horft er yfir sviðið og gaumgæft hvar möguleikarnir gætu legið er hið minnsta tvennt sem hægt er að koma auga á í fljótu bragði.

Hið fyrra er fiskeldi. Útflutningur á afurðum frá fiskeldi á fyrstu fjórum mánuðum ársins nemur um 8,6 milljörðum króna. Sem hlutfall af heildar útflutningsverðmæti sjávarafurða frá Íslandi eru þetta ríflega 10% og hlutfallið hefur aldrei mælst hærra. Fari svo fram sem horfir getur verðmæti útfluttra afurða frá fiskeldi numið um 25 milljörðum króna í ár. Það eru góð tíðindi þegar fréttir berast af kólnun hagkerfisins.

Hið síðara er stóraukinn útflutningur á íslensku hug- og handverki tæknifyrirtækja sem tengjast sjávarútvegi. Samkvæmt greiningu Sjávarklasans var velta þessara fyrirtækja um 42 milljarðar króna í fyrra. Þá er aðeins sú velta tekin með í reikninginn sem tengist sjávarútvegi og fiskeldi.

Það þarf „…frumkvæði, bjartsýni og kraft…“, líkt og fjármálaráðherra komst að orði, til þess að standa í rekstri fyrirtækja, einkum fyrirtækja sem eru að ná fótfestu hér á landi. Fiskeldisfyrirtækin eru að gera slíkt um þessar mundir og því ber að fagna. Núverandi áskoranir sem hagkerfið stendur frammi fyrir færir okkur heim sanninn um það að nauðsynlegt er að fjölga stoðum útflutnings, því þannig forðumst við best kollsteypur.