*

laugardagur, 25. september 2021
Týr
7. júní 2020 09:08

Óaldalýður í Bandaríkjunum

Því verður ekki trúað að de Blasio, Trump og Biden sé hið besta sem bandarísk stjórnmál hafa að bjóða.

Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna fyrir hartnær fjórum árum síðan.
EPA

Það ríkir víða óöld í Bandaríkjunum þessa dagana, þó það séu óneitanlega nokkrar ýkjur að landið sé á barmi borgarastyrjaldar eins og sumir hafa viljað halda fram. Mótmæli vegna morðs lögregluþjóns á blökkumanninum George Floyd í Minneapolis hafa víða leyst upp í óeirðir og gripdeildir, þar sem lögregla hefur ýmist verið gagnrýnd fyrir að taka á móti af allt of mikilli hörku eða aðgerðaleysi.

                                                                                        ***

Saga kynþáttasamskipta í Bandaríkjunum er ófögur, raunar hryllileg um margt. Það væru samt sem áður mistök að líta svo á að ekki hefði neitt áunnist í jafnréttisbaráttunni á undanförnum áratugum. Jú, þar finnast enn rasistar (eins og víðar, Ísland ekki undanskilið), en það er fráleitt að tala um að þar sé kerfislæg kynþáttamismunun.

Það á ekki heldur við í lögreglunni, en í flestum þeirra borga, sem óeirðirnar hafa blossað upp, eru minnihlutahópar í meirihluta lögregluliðsins. En það eru enn óleyst margvísleg félagsleg vandamál, sem leggjast mjög eftir kynþáttum, svo það ónákvæma orð sé notað.

                                                                                        ***

Það verður ekki leyst með pennastriki, heldur tíð og tíma. En annað má leysa með pennastriki, ekki síst hvað varðar réttvísina. Tvískinnungur í baráttunni við fíkniefni og óvægnir fangelsisdómar, játningakúgun saksóknara, hernaðarvæðing lögreglu, skaðleysi lögregluþjóna vegna mistaka í starfi, áhrif verkalýðsfélaga þeirra til þess að halda ofbeldismönnum í starfi o.s.frv. eru allt hlutir sem má laga.

                                                                                        ***

En til þess þarf pólitíska forystu og hún er því miður af skornum skammti vestra, hvort sem litið er til lánlausrar liðleskju eins og Bill de Blasio, borgarstjóra New York, eða fávita og fauta eins og Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem sérhæfir sig í að hella olíu á eld.

Líkur hafa raunar aukist á því að hann tapi kosningunum í haust, en Bandaríkin verða litlu betur sett með Joe Biden í hans stað, hugmyndasnauðan maskínupólitíkus, sem er fátt gott að segja um annað en honum er farið að förlast sakir aldurs. Því verður ekki trúað að slíkur óaldalýður sé hið besta sem bandarísk stjórnmál hafa að bjóða.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.