*

laugardagur, 29. janúar 2022
Huginn og muninn
28. júní 2021 09:42

Oddvitinn og lagaskyldan

Nýr oddviti Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi er ekki himinlifandi með að Creditinfo sinni því sem lög áskilja.

Ómar Óskarsson

Nýverið varð grein í Skessuhorni, því mæta héraðsblaði Vesturlands, á vegi hrafnanna. Þar var rætt við Bjarna Jónsson, nýjan oddvita Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi – að vísu án þess að nafn hans komi fram en auðvelt var að greina persónuupplýsingar hlutaðeigandi á myndinni sem fylgir greininni – um bréf sem fjögurra ára sonur hans fékk frá Creditinfo.

Þar er syninum tilkynnt að hann sé að óbreyttu á leið á lista yfir einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. „Hvílík áhætta, segi ég nú bara. Mér finnt að Creditinfo gæti gert eitthvað þarflegra en standa í svona rugli,“ hefur Skessuhorn eftir Bjarna.

Hrafnarnir vilja benda Bjarna á að þetta er Creditinfo lögskylt að gera. Þó er ekki loku fyrir það skotið að þingmaðurinn verðandi hafi nokkuð brenglaða mynd af lagaskyldu eftir stjórnarformennsku hjá Íslandspósti ohf.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.