Óðinn fjallaði um orkumál í Viðskiptablaðinu á fimmtudag. Hann bendir á að helstu sérfræðingar séu löngu farnir að vara við skorti, bæði á rafmagni og heitu vatni. Og miðað við orkuskiptaspá Orkustofnunar er ekkert sem bendir til að orkuskiptin, sem þó er búið að binda í lög verði að veruleika.

Hér er stutt brot úr Óðni en áskrifendur geta lesið Óðinn í fullri lengd hér.

... en eru fullkomlega óraunhæf

Í dag nota landsmenn um milljón tonn af olíu árlega til að keyra bíla, sigla skipum og fljúga flugvélum. Efnahagur Íslendinga og þar með lífskjör almennings eru algjörlega háð þessari orku.

Í ljósi þessa hljóta fleiri en Óðinn að hafa lyft brúnum þegar Orkustofnun birti svokallaða orkuskiptaspá nýverið. Stofnunin gerir ráð fyrir því að árið 2040, sama ár og fullt kolefnishlutleysi á að nást, verði 600 þúsund tonnum af olíu brennt hérlendis.

Orkustofnun hefur líklega ekki enn fengið nýjasta eintak lagasafnsins eða stjórnarsáttmálann inn um lúguna hjá sér enda þjáist stofnunin af mikilli vanfjármögnun. Að eigin sögn.

Engin orkuskipti í vændum hér

Orkustofnun gerir vissulega ráð fyrir að til ársins 2040 dragi úr olíunotkun um 40% en þess í stað verði ráðist í aðgerðir í þágu orkuskipta. Hvaða aðgerðir þá?

Jú, að raforkuframleiðsla verði aukin um heilar 1,8 terawattstundir og þar af fari 1,2 terawattstundir í orkuskipti. Þetta er minna en 10% aukning raforkuframleiðslu. Þetta er allt saman þvert á orð ráðherra orku- og loftslagsmála.

Til samanburðar hafa helstu sérfræðingar í orkumálum áætlað að auka þurfi raforkuframleiðslu um 16 terawattstundir vegna orkuskipta og enn meira eigi hagvaxtarspár að ganga eftir. Meira að segja Landvernd áætlar að 15,5 terawattstundir þurfi í verkefnið. Orkuskiptin munu ekki nást, fara mjög hægt af stað og einungis klárast á fólksbílum að sögn Orkustofnunar.

Hvernig á svo að fara í orkuskipti í millilandaflugi? Nú, ef það gerist yfir höfuð, með því að kaupa og flytja inn rafeldsneyti enda ekki gert ráð fyrir neinni slíkri framleiðslu hérlendis.

***

Hverjum á að trúa?

Þessi tíðindi skipta máli þar sem lögum samkvæmt er það Orkustofnun sem gerir langtímaáætlanir um raforkubúskap þjóðarinnar og er auk þess helsti ráðgjafi stjórnvalda um orkuöflun og -nýtingu.

Þar að auki ræður stofnunin ríkjum þegar kemur að leyfisveitingum varðandi orkuvinnslu og uppbyggingu flutningskerfisins. Sú ráðgjöf mun byggja á raforkuspá.

Landsvirkjun lagði inn umsókn um virkjanaleyfi Hvammsvirkjunar 11. júní á síðasta ári. Þau stórtíðindi bárust nýlega að Orkustofnun afgreiddi leyfið. Það tók eitt og hálft ár. Þetta kallar orkumálastjóri vandaða stjórnsýslu! Óðni þykja þetta ekki góð skilaboð um framhaldið.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út í fimmtudaginn, 15. desember 2022.