Í Viðskiptablaðinu á fimmtudag fjallaði Óðinn um misheppnað tilraunaverkefni ríkisins við að stytta vinnutíma ríkisstarfsmanna.

Síðan þá hafa verið sagðar fréttir af því að einhverjar ríkisstofnanir hafi gefið starfsmönnum frí milli jóla og nýárs. Það er því ekki aðeins ríkisútgjöldin sem eru stjórnlaus, eins og Óðinn hefur fjallað ítarlega um, heldur einnig starfsmannamál ríkisins.

Hér er stutt brot úr Óðni en áskrifendur geta lesið Óðinn í fullri lengd hér.

Stjórnlausir ríkisstarfsmenn, fjölgun þeirra og yfirtaka Stundarinnar

KPMG ráðgjöf birti á dögunum greiningu fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Í henni var lagt mat á stöðu innleiðingar Betri vinnutíma en það hugtak varð til í flestum kjarasamningum ríkisins sem voru undirritaðir veturinn 2019-2020.

Þar var kveðið á um heimild, ekki skyldu, til að til að gera breytingar á skipulagi vinnutíma og stytta vinnuvikuna í allt að 36 virkar vinnustundir á viku, þó í sumum samningum hafi aðferðarfræðin til dæmis verið önnur hjá vaktavinnufólki. Litið var á samkomulagið sem tilraunaverkefni þar sem mat yrði lagt á áhrif breytinganna fyrir lok samningstímans.

Forsendur Betri vinnutíma voru að laun eða launakostnaður stofnana breytist ekki, starfsemi raskaðist ekki og að opinber þjónusta yrði af sömu eða betri gæðum en áður.

Meginmarkmið breytinganna var að stuðla að umbótum í starfsemi ríkisstofnana, bæta vinnustaðamenningu og auka samræmingu vinnu og einkalífs án þess að draga úr skilvirkni og gæðum þjónustu.

Í greiningu KPMG var ekki framkvæmd kostnaðargreining eða kostnaðarmat heldur aðeins horft var til markmiða við mat á mögulegum ávinningi. Það er miður því kostnaðurinn skiptir vitanlega verulegu máli við mat á því hvernig til tókst.

***

77% stofnana fóru strax í hámarks vinnutímastyttingu

Þrátt fyrir að stjórnendum ríkisstofnana hafi verið ráðlagt að fara hægt í sakirnar og innleiða styttingu vinnuvikunnar í skrefum samhliða umbótum í rekstri og þjónustu innleiddu 77% stofnana hámarks vinnutímastyttingu strax í fyrsta skrefi. Alls skoðaði KPMG 28 stofnanir og tvö ráðuneyti.

Samkvæmt greiningunni var útfærsla á vinnutíma að mestu í höndum starfsfólks stofnana sem vann tillögur í nefndum á sínum vinnustað. Starfsfólkið kaus að lokum um útfærslu og meginniðurstaðan var að starfsfólkið vildi styttri vinnutíma.

Þetta kemur líklega ekki nokkru mannsbarni á óvart.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út fimmtudaginn 22. desember 2022.