*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Örn Arnarson
22. nóvember 2021 07:05

Óðni nuddað í Namibíu á degi einhleypra

Mikið fjör hefur verið hjá Fjölmiðlanefnd sem sektaði RÚV nýverið um sömu upphæð og stærsta fjölmiðil Kópavogs.

Seint í október var tilkynnt um að Fishcor og Namgomar-málin svokölluðu í Namibíu hefðu verið sameinuð í eitt sakamál. Þvert á það sem fullyrt var í íslenskum fjölmiðlum í febrúar er enginn Íslendingur meðal sakborninga í þessu sakamáli og ekki heldur félög sem lúta stjórn Íslendinga.

Nú hefur fréttaflutningur af þessum málum sem tengjast Fishcor og Nangomar verið fyrirferðarmikill á árinu og hefur Ríkisútvarpið ásamt Kjarnanum og Stundinni verið leiðandi í þeim efnum. Eins og fyrr segir var fullyrt í febrúar að þrír Íslendingar hefðu verið ákærðir af saksóknara í Namibíu og voru þeir í flestum tilfellum nafngreindir. Hafa þessar fullyrðingar svo verið endurteknar í miðlum eins og RÚV í tengslum við umfjöllun um þessi málaferli. Að vísu fór að bera á því um síðir að einstaka miðlar fóru að átta sig á því að saksóknari Namibíu hefði hugsanlega áhuga á að kæra einhverja Íslendinga í málinu sem er eðli málsins allt annað mál en að gefa út ákæru.

Það sem vekur jafnframt athygli við fréttaflutning af þessu máli er að RÚV taldi ekkert fréttnæmt við þær breytingar sem urðu á málarekstrinum í Namibíu fyrir nokkrum vikum. Þrátt fyrir að flestir aðrir miðlar hafi sagt frá sameiningu tveggja ofangreindra mála í eitt og að enginn Íslendingur væri ákærður í málinu þagði RÚV um málið. Á sama tíma standa fyrri fréttir RÚV um málið óhaggaðar á vef ríkismiðilsins - þeirra á meðal fréttin frá því í febrúar þar sem fullyrt er að þrír nafngreindir Íslendingar hefðu verið ákærðir í málinu. Þessir sem eru saklausir uns sekt er sönnuð og óákærðir uns ákæra er gefin út á hendur þeim.

Það er ákaflega forvitnilegt hvernig flestir miðlar voru ófeimnir við að kynna ákærur á þessum þremur mönnum á sínum tíma án þess að setja minnsta fyrirvara við þær fullyrðingar.

Þar kann ókunnugleiki að hafa ráðið einhverju en auðvitað er ekki hægt að útiloka að alvarleg og aðfinnsluverð sjónarmið hafi ráðið um það för.

Þarna er það þó ekki síður sú staðreynd að viðkomandi miðlar gerðu engan veginn hið sama úr málinu þegar í ljós kom að mennirnir voru ekki ákærðir. Og fréttirnar hafa ekki verið sérstaklega leiðréttar eins og efni er til hjá vönduðum og hlutlausum fréttamiðlum.

* * *

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins á miðvikudag í þar síðustu viku var að finna forvitnilega frétt um ævintýri Lúðvíks Bergvinssonar héraðsdómslögmanns og sérstaks kunnáttumanns. Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hafði komist að þeirri niðurstöðu að Lúðvík ætti ekki rétt til bóta úr málskostnaðartryggingu fjölskyldutryggingar sinnar, en lögmaðurinn vildi að tryggingafélag hans greiddi honum bætur vegna kostnaðar sem hann varð fyrir vegna málareksturs hans gegn Viðskiptablaðinu, líkt og það snerti heimilishaldið sérstaklega.

Fram kemur í fréttinni að málaferli Lúðvíks og Viðskiptablaðsins mætti rekja til skrifa blaðsins „en nafnlaus pistill Óðins í blaðinu fjallaði um störf hans sem óháðs kunnáttumanns vegna kaupa N1 á Festi. Krafðist Lúðvík þess að tiltekin ummæli sem birtust í Viðskiptablaðinu á árinu 2020 yrðu dæmd dauð og ómerk." Við þetta má bæta að héraðsdómur sýknaði bæði ritstjóra Viðskiptablaðsins og Myllusetur, útgáfufélag Viðskiptablaðsins. Lúðvík áfrýjaði þeirri niðurstöðu til Landsréttar, þar sem málið hefur enn ekki verið tekið fyrir.

Þetta er ágætt tilefni til að rifja upp nokkrar staðreyndir um fasta dálka í fjölmiðlum. Það er ákaflega hvimleitt þegar því er haldið fram að þeir séu farvegur skrifa sem enginn vill gangast við. Þvert á móti. Um er að ræða skrif sem eru á ábyrgð ritstjóra og eru birt á þeirri forsendu. Í gegnum tíðina hefur fjöldi slíkra dálka birst í íslenskum blöðum og í flestum tilfellum er um skemmtilega viðbót við fjölbreytta fjölmiðlaflóru. Þetta vita allir aðdáendur ása og fiðurfénaðar á þeirra vegum sem eru áberandi á síðum þessa blaðs.

Yfirleitt eru það þeir sem svíður undan skrifum í slíkum dálkum sem ganga lengst í að tortryggja framsetningu efnisins. En það breytir engu um að full ábyrgð er borin á slíkum skrifum.

* * *

Stjórnendur bresk-hollenska fyrirtækisins Royal Dutch Shell kynntu í síðustu viku að þeir hygðust færa höfuðstöðvar félagsins frá Haag til London og gangast loks við því að það er hvorki hollenskt né konunglegt.

Þetta er vissulega stórfrétt úr heimi viðskipta og fjallaði Fréttablaðið um málið á þriðjudaginn. Í fréttaskýringunni, sem er skrifuð af Birni Þorlákssyni, er rætt við þá Edward Huijbens, fyrrverandi varaformann Vinstri grænna og Stefán Gíslason sem titlaður er umhverfisstjórnunarsérfræðingur. Báðir eru sammála um að fyrirtækið sé að nýta sér Brexit til þess að losna undan reglum Evrópusambandsins um losun og umhverfisnefnd. Er haft eftir þeim fyrrnefnda að Brexit sé „sérleið fyrir umhverfissóða".

Fátt í fréttaskýringu Fréttablaðsins kallast á við það sem fram kemur í umfjöllun erlendra stórblaða um flutninginn. Eins og fram kemur í fréttaskýringum blaða á borð við Financial Times og Wall Street Journal - sem eru ekki sérrit fyrir umhverfissóða - þá eru ástæðurnar meðal annars að finna í breyttum áherslum félagsins vegna kröfunnar um minnkandi losun kolefnaeldsneytis. Átök hafa þannig verið í hluthafahópnum um hvernig félagið lagi sig að breyttu umhverfi. Þar sem hækkun á heimsmarkaðsverði á olíu réttlætir ekki lengur að félagið fjárfesti í frekari vinnslu jarðefnaeldsneytis krefjast hluthafar að stærri hlutur greiðist í arð en áður. Vegna ólíks regluumhverfis er svigrúm til endurkaupa á hlutabréfum meira hjá félögum sem eru skráð á Bretlandseyjum en á meginlandinu og að sama skapi er skattalegt umhverfi arðgreiðslna hagfelldara.

* * *

Formannskjör í Kennarasambandi Íslands fór fram á dögunum. Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Seljaskóla, var kosinn formaður. Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, sem laut í lægra haldi í kosningunni, skrifaði pistil sem flestir fjölmiðlar tóku upp eftir að úrslitin lágu fyrir. Það sem þótti fréttnæmast við skrifin er að Hanna fullyrti í pistlinum að með kjörinu hefði stærsta kvennastétt landsins hafnað konum í kjöri til formanns enn og aftur. Enginn af þeim fjölmiðlum sem fjölluðu um skrif Hönnu dró fram þá staðreynd að tvær konur voru í framboði og fengu þær samtals um helming greiddra atkvæða. Þó svo að þátttakendur í kosningunni hefðu hafnað ákveðinni konu er fráleitt að túlka úrslitin sem svo að þeir hafi hafnað konum yfir höfuð.

* * *

Mikill kraftur er í starfi Fjölmiðlanefndar um þessar mundir. Starfsmannafélag Fjölmiðlanefndar var skráð hjá fyrirtækjaskrá en sem kunnugt er starfa fimm manns hjá nefndinni. Þá sagði Morgunblaðið frá ákvörðun nefndarinnar um að sekta Ríkisútvarpið um 500.000 krónur þar sem það hafi brotið gegn fjölmiðlalögum með birtingu auglýsinga á undan barnaefni. Er sektin jafn há þeirri sem Fjölmiðlanefnd lagði á Dr. Football, stærsta fjölmiðil Kópavogs, á dögunum.

* * *

Á fimmtudaginn fyrir rúmri viku var dagur einhleypra haldinn hátíðlegur en rétt er að geta þess að til skamms tíma var 11. nóvember fyrst og fremst þekktur sem vopnahlésdagurinn. Það er önnur saga.

Á þessum degi bjóða sum fyrirtæki viðskiptavinum hagstæð tilboð á vöru sinni og er fátt nema gott um það að segja. Að óathuguðu máli hefði maður haldið að flestir fagni hagstæðum tilboðum í aðdraganda jóla - ekki síst á tímum hækkandi verðlags. En hins vegar beindist fjölmiðlaumfjöllun fyrst og fremst að neysluhyggju og loftslagsmálum í tengslum við þennan dag. Þannig mátti lesa viðtal við sérfræðing hjá Umhverfisstofnun í Fréttablaðinu í aðdragandanum um dag einhleypra. Þar varaði hann einhleypa við að fylla tómarúmið í lífi sínu með neysluvöru og brýndi fyrir fólki að ef það ætlaði að kaupa sér eitthvað á þessum degi þá ætti það að borga fyrir nudd!

Það verður spennandi hvort fjölmiðlar muni í ríkari mæli leita eftir leiðsögn millistjórnenda og sérfræðinga í ríkisstofnunum um hvernig fólk eigi að haga sínu daglega lífi í leik og starfi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.