*

miðvikudagur, 3. júní 2020
Huginn og muninn
19. apríl 2020 10:02

Ódýr gagnrýni

Hagfræðingur og fyrrverandi þingmaður bendir á áhugaverða lausn en hún er að gera ekki neitt.

Þór Saari sat á þingi fyrir Borgarahreyfinguna og Hreyfinguna á árunum 2009 til 2013.
Haraldur Guðjónsson

Þór Saari, hagfræðingur og fyrrverandi þingmaður, skrifaði grein í Morgunblaðið í vikunni undir fyrirsögninni „Kaupthinking“ ríkisstjórnarinnar. Fyrirsögnin er áhugaverð enda bæði vísun í slagorð Kaupþings sáluga og titil bókar Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra og eins af eigendum Kjarnans. Í greininni gagnrýnir Þór brúarlánin, kostnað ríkisins vegna fyrirhugaðrar auglýsingaherferð fyrir ferðaþjónustuna í landinu og hlutabótaleiðina. Því skal haldið til haga að hrafnarnir eru alls ekki þeirrar skoðunar að aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu hafnar yfir gagnrýni en þeim leiðast hins vegar þegar fyrrverandi þingmenn gagnrýna án þess að benda á raunhæfar lausnir. Það er ódýr leið.

Hvað hlutabótaleiðina varðar þá bendir Þór reyndar á „lausn“ en hún er sú að gera ekki neitt. „Yfirvofandi efnahagslegt samdráttarskeið, jafnvel kreppa, er fordæmalaust, en það hefur líka verið raunin með önnur slík skeið í sögunni. Þess vegna urðu til kerfi uppsagnarfresta og atvinnuleysisbóta og eftir atvikum skilvirk gjaldþrotalöggjöf. Slíkt fyrirkomulag er þaulreynt, skilvirkt og gagnsætt og ber að nota óbreytt …“ Með öðrum orðum þá er tillaga Þórs sú að láta ábyrgðasjóð launa og atvinnuleysistryggingasjóð taka skellinn – skattgreiðendur. Þetta er furðulegur málflutningur, sérstaklega í ljósi þess að aðgerðirnar nutu víðtæks stuðnings verkalýðshreyfingarinnar enda fyrst og síðast litið á þær sem stuðning við launþega en ekki fyrirtækin.

Hvað kostar það þjóðfélagið að fara þá leið sem Þór leggur til? Hvað kostar það þjóðfélagið ef stór hluti þeirra sem missa vinnuna festist í bótakerfinu? Þór gerir enga tilraun til að leggja mat á það í greininni. Er það miður og reyndar líka mótsagnarkennt því í upphafi greinarinnar segir hann að eftir „nokkra yfirlegu“ virðist sem ríkisstjórnin og Alþingi séu lögst í vegferð sem ekki sé vitað hvað muni kosta.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.