*

sunnudagur, 23. janúar 2022
Týr
27. febrúar 2017 12:35

„Óeðlilegt“ hjónaband

Þeir sem á tyllidögum segjast aðhyllast aukið frelsi nenna sjaldnast að berjast gegn litlum málum sem þessum og því þrengist iðulega ramminn sem markar frelsi einstaklingsins.

Haraldur Guðjónsson

Á meðan margir bölsótast yfir löngum fríum þingmanna, t.d. um jól og sumar, fagnar Týr því alltaf þegar þingið fer í frí. Því meira sem þingið er í fríi, því minni líkur eru á því að þingmenn leggi nýjar álögur á landsmenn eða hefti frelsi þeirra með öðrum hætti. Gott dæmi um undarleg mál sem stjórnmálamenn gera sig upptekna við er þingsályktunartillaga sem nýlega var lögð fram af þingmönnum Vinstri grænna og Pírata. Tillagan felst í því að Alþingi feli dómsmálaráðherra að breyta lögum með þeim hætti að prestum eða forstöðumönnum trúfélaga verði óheimilt að gefa fólk saman í hjónaband og gefa börnum nöfn. Vinstri flokkarnir tveir vilja að borgaralegum embættismönnum verði einum heimilt að framkvæmda slíka gjörninga.

***

Í greinargerð með tillögunni segir að markmið hennar sé að koma festu á það hvernig standa skuli að hjónavígslum og nafngiftum hér á landi. Vinstri flokkarnir líta m.ö.o. svo á að sjái ríkið ekki um hlutina sé engin festa til staðar. Þá segir jafnframt þrátt fyrir að sögulegar ástæður séu fyrir því að þessi störf hafi verið á verksviði presta þjóðkirkjunnar, fríkirkjusafnaða og í seinni tíð forystufólks annarra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga, sé slík tilhögun engan veginn sjálfsögð, þar sem um löggerning er að ræða sem „óeðlilegt er að sé falinn sjálfstæðum félagasamtökum“.

***

Það er ekkert „óeðlilegt“ við það að prestar eða forstöðumenn í fríkirkjusöfnuðum og skráðum trúfélögum hafi heimild til að skíra og gifta. Það eina sem er óeðlilegt í þessu máli er að vinstri flokkarnir tveir vilja þvinga nýgift hjón á skrifstofu sýslumanns til að fá hjónabandið lögskráð. Svona öllu jafna er í raun algjör óþarfi að hafa tvær athafnir fyrir sama hjónaband. Það er heldur ekkert „óeðlilegt“ við það að einkaaðilum (þ.e. öðrum en ríkisstarfsmönnum) sé falið að framkvæma löggjörning sem þennan. Ekki frekar en að einkaaðilum er heimilt að skoða bíla og hleypa þeim út á göturnar.

***

Þetta er ekki stærsta málið á Alþingi þessa dagana, en það eru einmitt slík mál sem vilja svo oft laumast í gegn. Þeir sem á tyllidögum segjast aðhyllast aukið frelsi nenna sjaldnast að berjast gegn litlum málum sem þessum og því þrengist iðulega ramminn sem markar frelsi einstaklingsins. Skömm þeirra er mikil.

Stikkorð: Týr tillaga hjónaband Trúmál
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.