Sveinn Ingi­berg Magnús­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá héraðssak­sókn­ara, sagði á upplýsingafundi lögreglunnar í síðustu viku, eftir að tveir menn höfðu verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna gruns um undirbúning hryðjuverka, að verið væri að kanna hvort að mennirnir tengist erlendum öfgasamtökum.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri bætti um betur í viðtali við Stöð 2 þar sem hún lét m.a. eftirfarandi orð falla: „Við ætlum ekki að breyta hættumatinu á þessari stundu, þannig að það er enn metin lítil áhætta. En, það sem er að gerast í Evrópu er að það er vaxandi hægri öfgahyggja.“

Þetta hafa fjölmiðlar og vinstrimenn svo hlaupið áfram með og reynt að tengja annarlegar hvatir meintra hryðjuverkamanna við hægripólitík, en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er ekkert í málinu sem bent gæti til þess að mennirnir eða áform þeirra hafi nokkuð með hægripólitík að gera. Ummæli forsvarsmanna lögreglunnar sem láta að öðru liggja hljóta því að vera afar ámælisverð. Íslenska stjórnmálasenan hefur blessunarlega verið að mestu laus við ofbeldisverknað og það er galið að ætla að gera ofbeldismál pólitískt að ósekju.

Vinstrimenn og vinstrifjölmiðlar taka þessari upplýsingaóreiðu í boði lögreglunnar fagnandi, enda hafa þeir alltaf átt erfitt með að horfast í augu við að það er saga sósíalismans sem er blóði drifin, ekki frjálshyggjunnar. Þeir rembast eins og rjúpa við staur við að tengja nýnasistana í Norrænu mótstöðuhreyfingunni - hér á Íslandi eru það samtökin Norðurvígi - við hægri stefnu, þrátt fyrir að hreyfingin sjálf skilgreini sig sem þjóðernissósíalista. Ef það á að raða þessum rasistum og ofbeldismönnum á pólitískan ás gætu vinstrimenn því þurft að líta sér nær. Útlendingahatur og ofbeldi á ekkert skylt við stefnu um aukið einstaklingsfrelsi, minni ríkisafskipti, frjálsan markað, o.s.frv. Þessi öfgasamtök grundvalla óhróður sinn á félagshyggju, t.d. því að innflytjendur séu að ganga á velferðarkerfi innlendra: „hjálpum okkar fólki fyrst“.

Þessi orðræða þeirra er þó auðvitað bara gaslýsing. Þessi hreyfing byggir ekki á öðru en fáfræði og hatri. Í stað þess að reyna að klína málstað rumpulýðsins á stjórnmálaarma væri nær að fagna því að á Íslandi sé að mestu þverpólitísk samstaða gegn rasisma og ofbeldi.

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist íViðskiptablaðinu sem kom út 29. september 2022.