*

föstudagur, 13. desember 2019
Týr
18. apríl 2019 18:07

Öfgar og djúpríki

Umræðan um orkupakkann er óþarflega og illskiljanlega skautuð. Hugmyndin um íslenskt djúpríki er hæpin.

Fyrir eyríkið Ísland skiptir þriðji orkupakkinn í sjálfu sér litlu til eða frá sem stendur, þó það gæti breyst með lagningu raforkustrengs yfir hafið. Það má finna gild rök, bæði með og á móti innleiðingu hans. Þau þarf að taka til kostanna með málefnalegum og yfirveguðum hætti.

* * *

Þannig er það t.d. góð meginregla að ríkisvaldið leggi ekki lög og reglur á landslýð nema nauðsyn beri til. Eins er afar hæpið að taka íslenska ríkisstofnun og gera hana að eins konar undirstofnun Evrópusambandsins. Áhyggjur af fullveldisframsali eru svo augljóslega þess eðlis að það ber að ræða þær í alvöru. Að sama skapi felst ekki neitt framsal á orkuauðlindinni úr landi, Ísland hefur fengið ýmsar undanþágur í gegn og hefur ýmsa lagalega varnagla að auki. Raunar mætti gagnrýna að Íslendingar hafi alls ekki gengið nógu langt í frelsi og markaðsvæðingu á orkumarkaði, sem að mörgu leyti á meira skylt við Sovétríkin en ESB.

* * *

Svo er auðvitað hitt, sem sjaldnast er nefnt, en það er að innleiðingin er að miklu leyti gerð af greiðasemi við frændur okkar í Noregi, sem eru e.t.v. ekki stórkostleg rök, en alls ekki ónýt ástæða heldur.

* * *

Hið skrýtna, sorglega eiginlega, er þó hvað menn hafa lagst í djúpar skotgrafir vegna þessa máls og verið fljótir að því. Hér ræðir um ofurvenjulegt stjórnmálalegt álitaefni, sem vel á að vera hægt að ræða upphrópanalaust og ná málamiðlunum um. Samt gengur á með landráðabrigslum og ásökunum um þjóðernisöfgar, en (yfirleitt) málmetandi fólk rausar um „sjúklegar“ skoðanir andstæðinga sinna eða viðrar samsæriskenningar um íslenska „djúpríkið“! Mæra svo hófsemd sína og skynsemi en átelja hina fyrir heimsku og óþjóðhollustu. Má Ísland við frekari skautun í þjóðmálaumræðu og hvaða gagn halda menn að slík óbilgirni og ofstopi geri?

* * *

Svo er það þetta með „djúpríkið“ á Íslandi. Það er full ástæða til þess að hafa áhyggjur af 5. stéttinni, embættismannavaldinu, en ásakanir um „djúpríki“ fela í sér víðtækt og máttugt samsæri skuggastjórnenda gegn borgurunum. En er því við komandi í örríki, þar sem embættismannastéttin er fáliðuð, ekki fram úr hófi skilvirk og almennt ekki ýkja djúp?

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.