*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Leiðari
16. febrúar 2013 11:10

Öflugt atvinnulíf

Það ætti að vera samstaða með atvinnulífinu en ekki gegn því eins og raunin hefur verið síðastliðin fjögur ár.

Viðskiptablaðið hefur haldið því fram að það ætti að vera keppikefli þeirra, sem vilja beita sér í stjórnmálum næstu fjögur árin, að mæta kröfu um meiri samstöðu við uppbyggingu íslensks efnahagslífs. Það ætti að vera samstaða með atvinnulífinu en ekki gegn því eins og raunin hefur verið síðastliðin fjögur ár. Hagsmunir almennings og atvinnulífs fara saman þótt vinstri menn telji sig taka stöðu með almenningi þegar þeir þrengja að athafnafólki og þeim sem byggja upp og reka fyrirtæki.

Á sama tíma og verðmætasköpun dregst saman eru skuldir hins opinbera auknar og óútfylltir tékkar sendir komandi kynslóðum sem enn hafa ekki kosningarétt. Fólki er svo talin trú um að þetta sé ábyrg stefna í ríkisfjármálum. „Allt öryggisnetið byggist á því að efnahagur ríkisins sé í lagi, netið er ekki eitthvað sem Guð gefur ykkur, það er búið til á Alþingi. Hvernig sem allt gengur verður að borga fyrir það,“ sagði Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, í samtali við Morgunblaðið í einni heimsókn sinni hingað til lands eftir hrun. Og verðmætasköpun landsins er haldið uppi innan einkageirans en ekki hins opinbera. Hlutverk ríkisins er að skapa stöðugleika, trausta stofnanaumgjörð og standa vörð um eignarréttinn en ekki veikja hann eins og núverandi ríkisstjórn hefur reynt.

Annar norrænn stjórnmálamaður, sem norræna velferðarstjórnin ætti að hlusta á, flutti ræðu á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs í gær. Í máli Esko Aho, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands, kom fram að stjórn hans hefði lækkað skatta eins mikið og mögulegt var og þurrkað út allar undantekningar frá skattgreiðslum og frádrætti eftir finnsku fjárkreppuna 1991. Þingmenn hefðu haft af því áhyggjur að skatttekjur ríkisins myndu minnka í kjölfarið. Reynslan hefði hins vegar verið allt önnur og skatttekjur ríkisins af fyrirtækjum tæplega þrefaldast innan tíðar. „Þessi breyting bjargaði finnska velferðarkerfinu,“ fullyrti Aho.

Þetta eru athyglisverðar ábendingar frá reyndum stjórnmálamönnum landa sem við lítum oft til. Það eru nefnilega tölfræðilegar vísbendingar um að íslenska ríkisstjórnin hafi þrengt svo að athafnafólki með vitlausum ákvörðunum, fjandskap og hringlandahætti að það sé farið að bitna alvarlega á fjölskyldum í landinu.

Samtök atvinnulífsins benda á á heimasíðu sinni að landsframleiðsla hafi fallið umtalsvert á hinum Norðurlöndunum á skömmum tíma eftir hrun og náð botni árið 2009. Ári síðar hefði botninum verið náð hér á landi.Sé miðað við þriðja ársfjórðung 2012 vanti mest upp á að Ísland nái sömu stöðu og fyrir hrun.

Í lífskjararannsókn Alþýðusambands Íslands, sem sagt er frá í Viðskiptablaðinu, kemur fram að launastaða hjóna og sambýlisfólks á Íslandi hefur á síðustu árum versnað miðað við hin Norðurlöndin. Samanburður á ólíkum hópum fólks leiðir í ljós að ráðstöfunartekjur Íslendinga eru í öllum tilvikum lægri en hjá nágrannalöndunum.

Í dálkinum Óðni í Viðskiptablaðinu er kannað hvernig Íslandi hefur reitt af í samanburði við önnur lönd sem hafa gengið í gegnum gjaldmiðla- og bankakreppu eins og Finnland og Asíuríkin árið 1997. Raungengið lækkaði næstmest á Íslandi. Verðbólgan hefur verið óhagstæðust á eftir Indónesíu og landsframleiðsla dregist mest saman fyrir utan Finnland. Haldi áfram sem horfir, samkvæmt spá Seðlabankans fyrir hagvöxt á næsta ári, verður samdrátturinn meiri en var hjá Finnunum.

Þessar staðreyndir sýna fram á að það verður engin velferð án öflugs atvinnulífs. Vonandi næst samstaða um það í næstu ríkisstjórn.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.