*

mánudagur, 24. júní 2019
Huginn og muninn
28. apríl 2018 10:31

Ofmat eða vanmat?

Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum er klofinn í tvennt og óvissa ríkir um pólitíska framtíð Elliða.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Haraldur Guðjónsson

Í Vestmannaeyjum er komin upp áhugaverð staða. Niðurstöður nýrrar könnunar Fréttablaðsins eru þær að Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 41,2% og klofningsframboðið Fyrir Heimaey, með Írisi Róbertsdóttur í broddi fylkingar, með 31,9%. Samtals mælast þessir tveir flokkar nú með 73,2% en kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins árið 2015 var 73,1%. Sjálfstæðisflokkurinn er því klofinn í tvennt í Eyjum.

Ástæðu klofningsins má rekja til þess að stór hluti Sjálfstæðismanna í Eyjum vildi að fram færi prófkjör og Íris Róbertsdóttir, oddviti Fyrir Heimaey, mjög svo hvött til þess að bjóða sig fram gegn Elliða í 1. sætið. Elliða og bandamönnum hans hugnaðist hins vegar ekki prófkjörsslagur og töldu oddvitastöðu hans í hættu í opnu prófkjöri. Úr varð að tillaga um prófkjör var með naumindum felld af stuðningsmönnum Elliða í kosningu fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Eyjum. Í kjölfarið var reynt að miðla málum á þá leið að Íris fengi annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins og bandamaður hennar fengi einnig það fjórða. Sú umleitan vakti ekki lukku meðal Elliða og bandamanna hans sem tóku það ekki í mál, enda hefðu þeir þurft að gefa eftir sín sæti á listanum.

Útlit er fyrir að Elliði og bandamenn hafi gert afdrifarík mistök því ef niðurstöður kosninganna eins og könnunin gefur til kynna mun listinn Fyrir Heimaey halda á öllum spilunum við myndun meirihluta. Svo virðist sem Elliði hafi stórlega ofmetið sjálfan sig eða vanmetið Írisi sem á mikið persónufylgi í Eyjum.

Í stærra samhengi er þróunin áhyggjuefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn því nú berast einnig fregnir af klofningsframboði í Norðurþingi. Auk þess að stutt er síðan Viðreisnarfólk klauf sig út úr Sjálfstæðisflokknum í landsmálunum og enn styttra síðan Sjálfstæðismenn fóru að dúkka upp á framboðslistum Miðflokksins. Það er því ekki að undra að margir Sjálfstæðismenn spyrji sig að því hvort forystan hafi yfirhöfuð einhvern áhuga á að halda flokknum saman?   

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is