Það sem einkennir íslenskt fjölmiðlalandslag um þessar mundir er ofmiðlun og endalaust framboð á dálksentimetrum.

Hér er á landi eru reknir ógrynni fjölmiðla af öllum stærðum og gerðum og njóta á þriðja tug þeirra af einhverjum ástæðum ríkisstyrkja.

Þetta gerir að verkum að fólk hefur nánast ótakmarkaða möguleika á því að koma áhugamálum sínum og hugðarefnum að í íslenskum fjölmiðlum óháð hvort þau endurspegli þann veruleika sem almenningur upplifir. Um þetta eru mörg dæmi. Þannig ættu lesendur íslenskra fjölmiðla að vera sæmilega upplýstir um þá ákvörðun Þórhildar Magnúsdóttir verkfræðings um að opna hjónaband sitt. Fjölmiðlar hafa sagt nokkuð reglulega fréttir af þeirri ákvörðun undanfarið ár þó án þess að nokkuð nýtt sé að frétta af málinu. Ekki að það væri með nokkrum hætti fréttnæmt ef svo væri, en það er annað mál.

Einnig má nefna hversu

fyrirferðarmikill Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins og oddviti flokksins í Reykjavík norður í síðustu alþingiskosningum, hefur verið í umræðunni um skattamál í kjölfar birtingar álagningarskrár og fjárlaga næsta árs.

Þannig hefur Gunnar Smári varla mátt lýsa yfir skoðunum sínum á skattamálum á samfélagsmiðlum eða í einni af fjölmörgum aðsendum greinum sínum á Vísi án þess að það verði til fréttaskrifa sama miðils um áherslur hans í þessum efnum. Þetta vætlar svo út og fyrr en varir eru blaða- og fréttamenn farnir að spyrja stjórnmálamenn sem eiga sæti á þingi hvort það eigi ekki að hækka fjármagnstekjuskatt og fyrirtækjaskatta í hæstu hæðir eins og Gunnar Smári leggur til.

Ofmiðlunin leiðir til þess að jaðarskoðanir fá byr í seglin í umræðunni. Hér er mikilvægt að hafa hugfast að Sósíalistaflokkurinn fékk ríflega átta þúsund atkvæði í síðustu alþingiskosningum eða 4,1% atkvæða.

Vissulega hefur sambærileg þróun átt sér stað í öðrum vestrænum ríkjum og í sumum tilfellum eru afleiðingarnar ískyggilegar. En ekki verður farið nánar út í þá sálma hér í þetta sinn. En rétt er að benda áhugamönnum um skoðanir Gunnars Smára á skattamálum á viðtal við hann í þjóðmálaþættinum Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudag. Kjósi menn val í þessum efnum má benda á viðtal við hann um sama mál í Íslandi í dag á Stöð 2 daginn eftir.

***

En þessi ofmiðlun á sér fleiri birtingarform og skemmtilegri. Eitt þeirra er þegar fjölmiðlar sýna einhverjum undarlegum áhugamálum einstakra hópa mun meiri athygli en flestir hefðu talið efni standa til. Þannig greindu fjölmiðlar frá því að hópur íbúa í Hlíðunum í Reykjavík ætli að senda kröfugerð með undirskriftum til Reykjavíkurborgar þar sem óskað er eftir iðandi stórborgarlífi við Lönguhlíðina sem virðist nú vera sem breiðstræti brostinna drauma. Eða eins og segir í kröfugerðinni:

„Við viljum kaffihús, veitingastaði, fisksala, bókabúðir, fleiri kjörbúðir og meira borgarlíf eins og blómstrar nú í mörgum hverfum borgarinnar. Við viljum að borgin líti til styrkleika hverfisins og hefji við okkur samtal um skipulagsbreytingar í hverfinu, og þá sérstaklega Lönguhlíð sunnan Miklubrautar.“

Til þess að vekja athygli á þessum kröfum söfnuðust um þrjátíu íbúar hverfisins saman við götuhorni við Lönguhlíðina á fimmtudag fyrir viku síðan. Segja má að þessu samstöðufundur hafi fengið óskipta athygli helstu fjölmiðla. Þannig sögðu bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið frá fundinum með ítarlegum hætti daginn eftir.

Í þeim umfjöllunum var ýmislegt áhugavert haft eftir fundarmönnum:

„Það er engin neyð hérna en fólk langar í meiri stemningu.“

„Hér var einu sinni búð á hverju horni en sú er ekki raunin nú. Þetta hefur ekki gerst á einni nóttu en það hefur gleymst í skipulaginu að verslunarrými séu verslunar- rými.“

„Langahlíð er miðjan í hverfinu og við horfum til Vesturbæjar og annarra hverfa sem hafa fengið kaffihús. Og við erum bara öfundsjúk út í þau hverfi.“

Fréttastofa Stöðvar 2 bætti um betur og var með beina útsendingu frá Lönguhlíðinni á fimmtudagskvöldið og ræddi meðal annars við Jökul Sólberg Auðunsson, einn af forsprökkum átaksins. Var innslagið það langlengsta í fréttatímanum það kvöldið og greinilegt að þar á bænum var um stórtíðindi að ræða.

***

Það að íbúar í einhverju hverfi séu óánægðir með nærumhverfi sitt sé áhugavert í sjálfu sér þá kallar það eitt og sér varla á slíka athygli fjölmiðla. Eigi að síður eru ýmislegir áhugaverðir fletir á þessu máli sem fjölmiðlarnir sem um það fjölluðu litu algjörlega fram hjá.

Í fyrsta lagi verður ekki betur séð en að íbúar í Lönguhlíð og nærliggjandi götum séu ekki á flæðiskeri staddur þegar kemur að þjónustu. Þannig er ekki nema tíu mínútna gangur úr Lönguhlíðinni niður í Skipholt þar sem Fiskbúð Fúsa er að finna auk Kjöthallarinnar, veitingastaða og annarrar þjónustu.

Vilji íbúar Lönguhlíðar tylla sér á kaffihús eða í bakarí er enn styttra að fara í Suðurver. Þar er einnig að finna kjúklingastað sem kenndur er við staðinn og sumir vilja meina að sé dýrasta djásn íslenskrar skyndibitaflóru. Auk þess verður ferðalagi frá Lönguhlíð til Kringlunnar seint lýst sem Bjarmalandsför.

Í öðru lagi eru íbúarnir að krefjast þess að borgin beiti sér fyrir því að undið verði ofan af þeirri þróun að húsnæði sem upphaflega var hannað fyrir verslun og þjónustu sé breytt í íbúðarhúsnæði. Í stuttum bíltúr um Lönguhlíðina má sjá fjögur augljós verslunarhúsnæði en rekstur er í tveimur þeirra en hinum tveimur hefur verið breytt í íbúðir. Eru íbúarnir að reyna að koma íbúum þeirra tveggja síðarnefndu úr hverfinu nú á tímum húsnæðisskorts og vilja beita valdi borgarinnar í þeim efnum.

Í þriðja lagi má velta upp spurningum um hvað borgin eigi eiginlega að gera fyrir íbúa hverfa sem vilja „meiri stemmingu“. Hefur hún eitthvert hlutverk sem áhugasamt athafnafólk getur ekki sinnt? Lék borgin til að mynda eitthvert hlutverk þegar kom að hinni skemmtilegu uppbyggingu þjónustu og verslunar í Laugalæknum svo dæmi sé tekið?

Getur verið að ástæðan fyrir því að Lönguhlíðin sé ekki verslunargata sem iðar af mannlífi sú að gnótt er af þjónustu og verslun í næsta nágrenni?

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 22. september 2022.