Forvitni og fróðleiksfýsn er alger forsenda þess að menn geti náð árangri í blaðamennsku. Það skiptir engu hvað þeir eru flinkir að skrifa eða búa yfir góðri frásagnargáfu, til þess að eiga erindi á fréttamiðla þurfa þeir að hafa eitthvað fréttnæmt að segja áður en snilligáfa á öðrum sviðum kemur að gagni eða hefur eitthvað að segja.

Það er stundum talað um að menn hafi fréttanef og víst er um það, að maður hefur kynnst því hjá sumum kollegum að þeir geta nánast fundið á sér ef einhverja frétt er að finna, spyrja viðmælendur út úr, hringja hringinn í heimildarmenn og finna fréttina.

Öðrum er þetta ekki gefið, sjá jafnvel ekki fréttina fyrir framan nefið á þeim. Ekkifréttanefið sem sagt. En stundum virðist manni sem það sé fyrst og fremst óforvitni og áhugaleysi sem ræður. Eins og menn séu bara að fylla sína dálksentimetra, masa upp í mínúturnar sem þeim er ætlað að fylla.

Það er auðvelt að temja sér hæfilega forvitni við vinnslu frétta, sé manni hún ekki eðlislæg. Jafnvel þannig að menn hafi sérstaka aðferð við, líkt og er kennd í blaðamannaskólum um heim allan.

Í því samhengi er blaða- og fréttamönnum engin vörn í að segja þessa fréttina eða hina ekki nógu áhugaverða. Sé hún óáhugaverð á einfaldlega ekki að segja hana. En góður blaðamaður getur vel spurt þeirra spurninga sem þarf til þess að komast að einhverju áhugaverðu um flesta hluti. Ekki svo að skilja að það standi allt undir stórfréttum, enda eru ekki allar fréttir stórar. En þessar litlu eru líka fréttir ef menn kunna sitt fag.

***

Þess vegna er alltaf verra að heyra eða sjá fréttir í fjölmiðlum, sem augljóslega ná máli vegna efnis og umfangs, en verða ekki sú frétt sem vera ætti sakir óforvitni.

Gott dæmi um þetta tengist ítarlegum fregnum, sem sagðar hafa verið af sorgarsögu United Silicon undanfarna daga. Þannig voru ýmsir fletir málsins reifaðir, en ekkert kom fram í fréttum dagsins um hvort nýtt félag utan um United Silicon myndi njóta sömu skattaívlinunar og orkusamninga, sem hin gjaldþrota kennitala gerði, og mikið hefur verið rætt um í margvíslegu samhengi.

Í seinni fréttum Ríkissjónvarpsins í fyrrakvöld vaknaði þó von um að eitthvað heyrðist af því, en þá var leitað svara hjá Landsvirkjun um málið. Svarið var hins vegar aðeins það að orkan yrði seld áfram, annaðhvort til nýs félags eða til annarra, þar sem mikil eftirspurn væri eftir orku. Já er það virkilega? Og þetta lét RÚV bara gott heita.

Þetta er raunar alltof algengt (og á ekkert frekar við RÚV en aðra miðla) og tengist e.t.v. ókunnugleika um efni fréttanna, en stundum óhóflegri virðingu fyrir viðmælendum. Ekkert sem holl forvitni á ekki að geta læknað.

***

Stundum veltir maður þó fyrir sér hvort aðeins er um óforvitni að ræða. Í liðinni viku var þannig sögð sú frétt á Vísi að lögregluþjónar í Reykjavík og Akureyri hefðu lokað þremur verslunum The Viking. Það var gert að beiðni tollstjóra vegna vanskila á vörslusköttum, en The Viking er örkeðja svonefndra lundabúða, sem gera út á smekklausa ferðamenn.

Svo var rætt við eiganda The Viking, sem sagðist vera „alveg rólegur“ vegna þessa en verið væri „að vinna úr málinu“. Það er gott að hann skuli vera svo rór, en jafnframt ljóst að tollstjóri gengur ekki svo hart fram fyrr en í fulla hnefana.

Hitt má heita skrýtið, að ekki var dregið fram að eigandinn er sambýlismaður Elsu Hrafnhildar Yeoman, sem er varaforseti borgarstjórnar og formaður menningar- og ferðamálaráðs. Ekki svo að skilja að málið þurfi að varða hana beint, en þarna er samt sem áður ljóslega fréttnæmur flötur.

Menn hafa sagt fréttir af stjórnmálamönnum vegna viðskiptaævintýra fjarskyldara fólks en þetta. Hversu lengi þarf að bíða þess að Stundin eða DV góli: „Lokun tollstjóra skekur meirihlutann“?

***

Fyrst komið er á þær slóðir verður ekki vikist undan því að fjalla um eina undarlegustu og vandræðalegustu frétt vikunnar, sem einnig mátti lesa á Vísi:

Blaðamaður handtekinn með 162 kíló af stolnu nautakjöti

Þessi fyrirsögn var auðvitað óvanaleg og með aðdráttarafl, en það er þó fyrst þegar maður fer að lesa málsvörnina, sem gamanið tekur að kárna.

Fyrst var sagt frá málinu í október síðastliðnum, en þá höfðu þrír karlmenn verið handteknir vegna stórfellds þjófnaðar á tollfrjálsum varningi frá flugþjónustufyrirtæki á Keflavíkurflugvelli. Tveir mannanna, sem báðir voru starfsmenn hjá fyrirtækinu, hefðu viðurkennt þjófnaðinn og sá þriðji viðurkennt að hafa aðstoðað við að koma þýfinu í verð.

Frétt Vísis nú, sem Jakob Bjarnar skrifaði, greindi frá því að þessi þriðji væri Atli Már Gylfason blaðamaður, sem auðvitað er frétt, hvernig sem á er litið, og í raun með ólíkindum að hún hafi ekki komið fram áður.

Nú geta menn alveg velt því fyrir sér hvað þeir helst vildu draga fram í því þegar blaðamaður Stundarinnar er staðinn að verki við sölu þýfis og ber fyrir sig óvitahátt, segist hafa grunað að ketið væri smygl, en ekki stolið!

Málið verður enn skrýtnara, þegar Atli Már segist hafa selt steikurnar ritstjórum, lögregluþjónum og blaðamönnum. Engum dytti í hug að bera óforvitni upp á Jakob Bjarnar, en af hverju í dauðanum hringdi hann ekki — eða nokkur blaðamaður annar — í Jón Trausta Reynisson, ritstjóra Stundarinnar, og spurði hvort hann hafi keypt kjöt af Atla Má og hvernig það hefði smakkast?!

***

Önnur frétt af vettvangi borgarstjórnar. Eyjan segir einstaklega myglaða frétt af Facebook í gær að Sara Elísa Óskarsson, varaþingmaður Pírata, hafi ekki vandað Eyþóri Arnalds, frambjóðanda í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins, kveðjurnar á Pírataspjallinu og vænt hann um siðblindu vegna þess að hann er ekki sömu skoðunar og hún um borgarlínuna! Slík siðaprédikun frá stjórnanda Jæjahópsins alræmda er auðvitað svolítið spes, en frétt Eyjunnar er enn einkennilegri, með langri tilvitnun í Læknablaðið um siðblindu. — Á hvaða leið er Eyjan?