*

mánudagur, 25. október 2021
Týr
26. júlí 2020 14:05

Ofstopi og öfgar, libbar og verkó

Týr veltir vöngum yfir sjálfstæði stjórnar LIVE eftir ummæli Ragnar Þórs, formanns VR, að sniðganga Icelandair í komandi hlutafjárútboði.

Ragnar Þór Ingólfsson er formaður VR.
Haraldur Guðjónsson

Það hefur ekki lítið gengið á í kringum vandræði Icelandair, enda af nógu að taka. Ekki þó kannski síst í kringum samninga við flugfreyjur, þar sem óhætt er að segja að sitt sýndist hverjum og engin tæpitunga töluð. En eitt er það, sem fólk skrafar yfir kaffibolla, og annað hvernig forystufólk í verkalýðshreyfingu lætur. Það á að vera ábyrgt bæði í orðum og gjörðum, enda valdafólk, aðilar á vinnumarkaði, með hagsmuni ótal heimila í höndum sér.

                                                                        ***

Týr gæti notað allan þennan dálk til þess að finna að ofstopanum í Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, en þess þarf ekki. Hún varð — eins og svo oft áður — sjálfri sér til mestrar skammar með orðum sínum.

                                                                        ***

Nú má margt setja út á Icelandair og stjórn þess. Ekki aðeins síðustu vikur, heldur síðustu ár ef því er að skipta. En þegar það gerist að öfgafyllstu verkalýðsforingjar landsins stíga fram af þessu tilefni og hafa í hótunum við Icelandair í nafni lífeyrissjóðanna, þá er eitthvað skelfilegt að.

                                                                        ***

Síðan var samið við flugfreyjur og þá segist Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, að hann vilji draga til baka fyrri yfirlýsingu um sniðgöngu hlutafjárútboðs Icelandair, en svo enginn geti vænt hann um sáttfýsi eða eftirgjöf, þá væri það krafa hans að stjórn Icelandair yrði látin fjúka.

                                                                        ***

Ætli félögum í Lífeyrissjóði verzlunarmanna (LIVE) finnist gaman að vera leiksoppar formanns VR með þessum hætti? Ætli þeir séu sáttir við að hann myndist við að nota ævisparnað þeirra í þeim skollaleik?

                                                                        ***

Í stað þess að það gangi á með slíkum ólíkindayfirlýsingum verkalýðsleiðtoga fram og til baka, þá væri nær að stjórn lífeyrissjóðsins gæfi út yfirlýsingu sem tæki af öll tvímæli um að hún taki ekki við slíkum fyrirskipunum utan úr bæ. Og gott betur, því fjármálaeftirlit Seðlabankans hlýtur að taka til skoðunar að stjórnir lífeyrissjóð — ólíkt því sem gerist hjá öðrum fjármálastofnunum — séu að vasast í einstökum viðskiptaákvörðunum. Hvað þá ef markmiðin eru einhver önnur en varðveisla og vöxtur eigna sjóðfélaganna.

Stikkorð: Ragnar Þór Ingólfsson Þór
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.