*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Gréta María Grétarsdótti
7. nóvember 2020 13:38

Ofurhetjur

Gréta María Grétarsdóttir skrifar um hugrekki, ofurhetjur og íslenska framkvæmdastjóra.

epa

Undanfarna mánuði þegar framboð af afþreyingu fyrir fjölskyldur hefur ekki verið jafn mikið og áður hefur oft verið erfitt að finna eitthvað fyrir alla fjölskylduna að gera saman. Það hefur líka áhrif að unglingurinn á heimilinu nennir ekki alltaf að taka þátt í því sem foreldrarnir ákveða og því hljómaði það ágætlega að horfa saman á Marvel myndirnar í tímaröð.

Ég hafði farið í bíó með strákunum mínum á síðustu tvær myndirnar sem voru bara nokkuð góðar ásamt því að hafa séð einhverjar eldri myndir. Við ákváðum því (án þess að ég vissi hvað myndirnar eru margar!) að leggja upp í Marvel maraþon.

Síðustu mánuði höfum við því öll beðið spennt eftir næstu helgi þar sem við fylgjumst með ofurhetjunum takast á við hin ýmsu illmenni af ólíkum heimum. Fjörugar umræður hafa skapast um hvaða ofurkröftum væri best að búa yfir og af hverju. Skemmtileg umræða kom til að mynda upp í gönguferð um daginn með yngri stráknum mínum þar sem hann spurði mig hvaða ofurhetja ég vildi vera.

Ég bað hann að rifja upp með mér ofurhetjurnar, krafta þeirra og kosti. Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég vildi vera Captain Marvel. Bæði er hún kona og með bestu kraftana að mínu mati og auk þess hjálpar hún öllum, ekki bara á jörðinni heldur í öllum geimnum. Sjálfur hallaðist hann að Black Panther sem ég skildi vel enda báðir einstök ljúfmenni, þó svo að það hafi ekki endilega verið eiginleikinn sem hann var sjálfur að horfa í.

Myndirnar hafa svo sannarlega staðið fyrir sínu en það sem gerði Marvel upplifunina ennþá skemmtilegri, var að á sama tíma og við byrjuðum að horfa á myndirnar byrjaði ég að lesa bókina „The Ride of a Lifetime“, eftir Robert Iger, fyrrverandi forstjóra Disney. Bókin er frábær, hvort sem er fyrir þá sem hafa áhuga á leiðtogahlutverkinu eða sameiningum fyrirtækja. Í bókinni er meðal annars farið yfir kaup Disney á Pixar, Marvel og Star Wars og fjallað um hversu mikilvægt er að fyrirtæki geti haldið áfram að vaxa og dafna undir nýju eignarhaldi.

Eins er fjallað um hugrekki og mikilvægi þess að taka ákvarðanir byggðar á hugrekki en ekki ótta eins og oft vill verða. Ástæðan er að óttinn við breytingar gerir það að verkum að haldið er í það gamla og úrelda og þannig reynt að verja gömul módel sem eigi ekki möguleika á því að lifa af þær breytingar sem eru í farvatninu.

Mér varð hugsað til hugrekkisins eftir gönguferðina með stráknum mínu og ef Robert Iger hefði ekki haft hugrekki til að breyta hlutunum þá hefði ég mögulega aldrei átt þetta skemmtilega samtal við strákinn minn né fengið að upplifa fjölbreytnina í Marvel heiminum. Robert gerði sér grein fyrir því við kaupin á Marvel að mikilvægt væri að leggja mat á hvers virði Marvel heimurinn væri í framtíðinni með þeim ofurhetjum sem áttu eftir að verða til. Hann gerði sér líka grein fyrir því að nauðsynlegt væri að auka fjölbreytni í ofurhetjuhópnum (sem þýðir í raun að vera með annað en hvíta karla í aðalhlutverkum).

Í bókinni ræðir Robert helstu hindranirnar sem voru fyrir því að auka fjölbreytnina og helstu rök þeirra Marvel starfsmanna sem voru mótfallnir breytingum, sem voru að „kvenkyns ofurhetjur slá aldrei í gegn í kvikmyndahúsum“ og „alþjóðlegir áhorfendur vilja ekki svartar ofurhetjur“.

Robert tók því ákvörðun, ákvörðun byggða á hugrekki, því hann var ekki hræddur við þær breytingar sem ljóst var að væru óumflýjanlegar. Hann ætlaði að auka fjölbreytnina og bað þá sem voru mótfallnir að vinsamlegast hætta að setja upp hindranir.

Bæði Captain Marvel og Black Panther voru myndir sem Robert ákvað að framleiða til að auka fjölbreytileika og til að gera langa sögu stutta þá hafa báðar myndirnar notið mikillar velgengni. Þær hafa svo sannarlega slegið í gegn í kvikmyndahúsum um allan heim og Black Panther hefur einnig haft gríðarleg félagsleg áhrif.

En hvað þurfti til að auka fjölbreytni? Það var ekki flókið, það var ákvörðun.

Síðustu vikur hafa verið fréttir af því hversu lítil fjölbreytni er í stjórnendastöðum í íslensku viðskiptalífi og samkvæmt tölum Creditinfo hallar verulega á konur sem eru einungis 13% framkvæmdastjóra Framúrskarandi fyrirtækja. Í kjölfarið kemur svo oft spurningin (og sérstaklega í kvennahópum), hvað er hægt að gera til að breyta þessu?

Svarið er einfalt, tökum ákvörðun um að auka fjölbreytni, fjölgum konum í forstjórastólum og framkvæmdastjórastöðum. Biðjum þá sem taka ákvarðanir byggðar á ótta að vinsamlegast hætta að setja ímyndaðar hindranir í veginn.

Breytingarnar eru í farvatninu eins og í ofurhetjuheiminum, spurningin er, hverjir taka ákvörðun byggða á ótta og vilja halda í úreld módel? Eða hverjir munu hafa hugrekki til að breyta leiknum?

Höfundur er verkfræðingur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.