*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Óðinn
10. febrúar 2019 18:14

Ógöngur Evrusvæðisins

Eigi að ráða bót á innbyggðum göllum evrunnar verður ekki hjá því komist að gera víðtækar breytingar.

Mario Draghi, seðlabankastjóri Evrópu, lætur af störfum síðar á þessu ári. Þó honum sé þakkað að hafa bjargað evrusvæðinu frá hruni árið 2012, hefur honum ekki auðnast að koma hinum sameiginlega gjaldmiðli í var, enda varla pólitískar forsendur til þess.
european pressphoto agency

Michael Mann, hinn svokallaði sendiherra Evrópusambandsins (ESB) á Íslandi, skrifaði grein í síðasta tölublað Viðskiptablaðsins, þar sem hann gerði athugasemd við forystugrein blaðsins hinn 4. janúar, þar sem lýst hafði verið ýmsum óveðursskýjum á efnahagshimni heimsins. Þar hafði hann hnotið um setningu um að ekki mætti finna „minnsta pólitískan stuðning við það í nokkru ríki ESB, að auka fjármálalega samþættingu þess með skuldabandalagi, sameiginlegum fjármálum eða því líku“. Það þótti honum svo fjarri veruleikanum að honum væri skylt að bregðast við. Sem hann svo gerði í nokkru máli.

* * *

Óðni þóttu andbárurnar aðeins svona og svona, en í raun miklu merkilegra hverju hans ágæti mótmælti ekki. Þar stóð:

Allt frá því að fjármálakreppan skall á fyrir rúmum áratug hefur Evrópusambandið brugðist við henni með smáskammtalækningum og gegndarlausri peningaprentun (sem Bandaríkin er engan veginn saklaus af heldur). Á sama tíma hefur vöxtur í efnahagslífinu verið sáralítill og atvinnuleysi víða orðið nær óviðráðanlegt. Nú þegar hefðbundinnar niðursveiflu er að vænta í efnahagslífinu er vopnabúrið hins vegar nánast tómt eftir þrengingar undanfarinna ára. Þar kann því að fara verulega illa með aukinni félagslegri ólgu, en ekki má finna minnsta pólitískan stuðning við það í nokkru ríki ESB, að auka fjármálalega samþættingu þess með skuldabandalagi, sameiginlegum fjármálum eða því líku. Það mun kalla á mikla stjórnlist í Brussel að ráða bug á því og hún er þar af fremur skornum skammti þessa dagana.

Það segir því heilmikla og hræðilega sögu ef sendiherrann gerir aðeins umdeilanlega athugasemd við að líkur á skuldabandalagi eða sameiginlegum ríkisfjármálum séu hverfandi.

* * *

Heldur voru nú mótrök sendiherrans fáfengileg. Hann byrjaði á að rekja niðurstöður skoðanakannana Eurobarometer um vinsældir evrunnar á evrusvæðinu, sem ekki koma þessu við, og nefndi svo að 69% segðu nú að þörf væri á nánari samhæfingu efnahagsstefnu svæðisins, sem er vitaskuld afar loðin afstaða til óljósrar spurningar, en lýtur ekki sérstaklega að skuldabandalagi eða sameiginlegum ríkisfjármálum, þrátt fyrir að slíkar hugmyndir hafi reglulega verið reifaðar allt frá því að það kreppti að árið 2008.

* * *

Næst nefndi sendiherrann pólitískan stuðning leiðtoga ESB-ríkjanna, og færði sérstaklega í tal draumsýn Emmanuels Macron Frakklandsforseta um sameiginlega fjárhagsáætlun fyrir evrusvæðið, sem Angela Merkel Þýskalandskanslari hefði tekið undir. Engu er líkara en að það hafi fullkomlega farið fram hjá sendiherranum að fyrirætlanir Macrons, sem um margt eru mjög skynsamlegar, hlutu engar undirtektir.

* * *

Raunar voru svör frú Merkel (í Aachen í maí sl.) við þessari áskorun hans svo stuttaraleg þegar kom að málefnum evrusvæðisins að þau gengu móðgun næst þó orðin væru kurteisleg. Síðan hefur enn gengið á pólitískt kapítal Macrons eftir að umbætur hans í vinnumarkaðsmálum og skattamálum í Frakklandi runnu út í sandinn og gulstakkar gerðu sig breiða á búluvörðum Parísarborgar. Vonir hans um að fá Þjóðverja með sér í bandalag um ríkisfjármál eru að engu orðnar.

* * *

Þjóðverjar eru vissulega hlynntir umbótum á evrusvæðinu, hver er það svo sem ekki? En þeir vilja ekki koma á sameiginlegum ríkisfjármálum á evrusvæðinu, sem þá grunar (nær örugglega með réttu) að yrði millifærslubandalag, þar sem skattfé Þjóðverja yrði til þess að niðurgreiða skattbyrði og útgjöld í öðrum ríkjum svæðisins. Hvað þá að skuldabandalag komi þar til greina. Við slíkt er mikil andstaða í Þýskalandi og Merkel er þess vel meðvituð að sérhvert skref í þá átt yrði vatn á myllu þjóðernispópúlistanna í AfD. Á því er þó ekki síður stjórnskipulegur annmarki, því stjórnarskrá Þýskalands sníður ríkisvaldinu mjög þröngan stakk í þeim efnum og hinn valdamikli stjórnlagadómstóll landsins hefur verið mjög einarður í vörn þeirra ákvæða. Gegn vilja Þjóðverja mun ekkert þokast áfram í þessa veru.

* * *

Eigi að ráða bót á innbyggðum göllum evrunnar verður ekki hjá því komist að gera víðtækar breytingar á eðli myntsamstarfsins, ríkisfjármálum aðildarríkjanna og skuldaklafa þeirra, sem þau bera nú í mjög mismiklum mæli, en evran sjálf eykur nú frekar það ójafnvægi en hitt og heldur hinum fátækari ríkjum í efnahagslegri úlfakreppu.

* * *

Allt þetta hefur mönnum verið kunnugt um undanfarinn áratug og ýmsar tillögur og ráðagerðir verið settar fram í þeim efnum. Hin sorglega staðreynd er sú, að þrátt fyrir mikið orðagjálfur, nefndafundi og skýrslugerð allt frá því að fjármálakerfi Evrópu riðaði til falls árið 2008, að þá stendur ESB og evrusvæðið engu nær skuldabandalagi en þá. Heilum áratug síðar hefur sáralítið miðað áfram og þó það megi tína til ýmsar tæknilegar ástæður fyrir því, þá er það skortur á pólitískum vilja og pólitískum forsendum, sem mestu um veldur.

* * *

Jafnvel Bankasamband Evrópu, sem hafist var handa við að koma á laggirnar í upphafi árs 2012, er enn óklárað mál þó þar séu núningsfletirnir ekki margir, sá helsti sameiginlegt innstæðutryggingakerfi. Þar hafa menn sagt aðeins vanta herslumuninn í tvö ár, en nú hefur þeim hnykk verið slegið á frest fram til hausts hið minnsta. Og það þrátt fyrir að Ítalía stefni hraðbyri í kollsteypu sem Bankasambandið gæti breytt miklu um og mögulega komið í veg fyrir að breiddist út um álfuna. Ef það væri til.

* * *

Það eru litlar líkur til þess að þetta breytist í bráð. Ráðagerðir um innstæðutryggingar, neyðarsjóði til bankabjörgunar (evrópskir bankar eru enn margir í kröggum), skuldabréfaútgáfu Seðlabanka Evrópu og margvíslegar umbótaáætlanir aðrar kosta nefnilega og það er þröngt í búi um alla Evrópu. Um þær hefur engin pólitísk samstaða verið og ástandið fremur versnað að því leytinu með aukinni skautun í stjórnmálum. Og hún hefur ekki aðeins átt sér stað í stöku jaðarríki ESB, heldur sjáum við merki hennar í kosningum í kjarnaríkjum sambandsins á borð við Frakkland, Þýskaland, Austurríki og Ítalíu. Þar bætir örugglega ekki úr skák að Evrópusamstarfið sjálft hefur orðið mun eldfimara mál í stjórnmálum aðildarríkjanna en menn hafa áður átt að venjast.

* * *

Yfirlýsingar eftir leiðtogafund ESB-ríkja í desember síðastliðnum voru ekki til þess fallnar að auka tiltrúna á framhaldið. Þar var farið afar almennum orðum um nauðsyn þess að styrkja myntsamstarfið, en aðaláherslan lögð á að auka vægi evrunnar sem alþjóðlegrar myntar. Líkt og sjá má á skýringarmyndinni hér að neðan er tiltrú hins alþjóðlega fjármálakerfis ekki sérstaklega mikil.

* * *

Óðinn er ekki einn um ugg yfir framtíð Evrusvæðisins. Í tilefni af 20 ára afmæli evrunnar hafa fræðimenn við London School of Economics (Mark Copelovitch, Jeffry Frieden og Stefanie Walter) tekið saman rannsóknir á myntsamstarfinu og í formálanum er ekki töluð nein tæpitunga. Þar er rakið hvernig það hafi leitt til „alvarlegustu efnahagskreppu í sögu Evrópusambandsins,“ sagt að hún hafi valdið „meiri varanlegum skaða“ á stórum svæðum Evrópu en Kreppan mikla á 4. áratugnum, hún hafi att ríkjum evrusvæðisins saman í átökum um stefnu, völd og ávinning og þannig eitrað pólitískt samstarf og ógnað Evrópusamrunanum.

* * *

Samt bólar ekkert á raunverulegum breytingum til þess að koma evrunni á réttan kjöl og jafnvægi milli ríkja evrusvæðisins. Allar tilraunir til þess hafa verið afar takmarkaðar og fálmkenndar, til þess eins fallnar að koma í veg fyrir hrun evrunnar, en án þess að ráða bug á þeim göllum myntsamstarfsins sem hafa grafið undan því og efnahag aðildarríkjanna frá upphafi með skelfilegum afleiðingum. „Það er ljóst að núverandi ástand getur ekki varað að eilífu ef evran á að lifa af til langframa,“ segja LSE-menn. Óðinn tekur undir það og tíminn verður af æ skornari skammti.

Óðinn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.