*

mánudagur, 18. janúar 2021
Týr
23. desember 2019 10:04

Óhæfa hæfnisnefndar

„Það kom óvæntur jólaglaðningur frá leynivinum Týs í hæfisnefnd dómara.“

Haraldur Guðjónsson

Það kom óvæntur jólaglaðningur frá leynivinum Týs í hæfisnefnd dómara. Hún komst að þeirri niðurstöðu um árið að úr hópi 32 hæfra umsækjenda í Landsrétt, kæmist einn og aðeins einn 15 manna hópur til greina. Eru möguleikarnir þó yfir 1 milljarður. Við blasir að þar fór nefndin langt út fyrir mörk eðlilegra vinnubragða. Og laganna líka.

* * *

Hún gerði það ekki einu sinni skammlaust á eigin mælikvarða, því meira að segja Excel-skjalið góða var vitlaust og samanlagðir matsþættir 105%! Forsendurnar þó enn vitlausari, handahófskenndari ef ekki beinlínis uppskáldaðar, þegar sumir útvaldir fengu 10 í einkunn fyrir þætti sem þeir höfðu enga reynslu af. Í þessu lagerbókhaldi yfir mannkosti umsækjenda skildu aðeins 0,025% milli 15. og 16. manns, minna milli annarra, svo allir sjá að er niðurstaðan var í besta falli markleysa.

* * *

Nú hefur hæfisnefndin öllum að óvörum snúið við blaðinu. Í umsögn um lysthafendur í Hæstarétt, hafa umsækjendur skoppað upp og niður listann frá Landsréttarmatinu fyrir tveimur árum. Þrír Landsréttardómarar eru metnir hæfastir til að fá lausa embættið í Hæstarétti, en þó að mjög miklu munaði á hæfni þessara manna í Excel-skjalinu góða og engar breytingar á högum þeirra síðan, þá segir nefndin nú að „samanburður á verðleikum þeirra [sé] flókinn og að þeir hafi á löngum ferli getið sér góðs orðspors hvert á sínu sviði svo ekki verði með góðu móti greint þar á milli". Játar með öðrum orðum að fyrri störf hennar hafi verið tóm steypa.

* * *

Af skipuninni í Landsrétt hlutust af málaferli og dómar féllu á þeirri forsendu að álit hæfisnefndarinnar væri nánast fullkomið og að ráðherra hefði ekki átt að víkja frá því. Nú er komið í ljós að sú forsenda var röng. Þegar það bætist við efasemdir um hæfi allra þeirra fimm dómara sem dæmdu í málinu (vegna tengsla við málsaðila), á sá dómur bara að standa?

* * *

Meira skiptir þó að öll dómsstigin hér á landi hafa hafnað því að hrófla við skipuninni í Landsrétt. Framkvæmdavaldið, Alþingi og réttarkerfið allt standa því að baki dómurum við Landsrétt. En þessi kúvending hæfisnefndarinnar og fordæming á fyrri vinnubrögðum beinir athyglinni að sjálfstæðum stjórnsýslunefndum sem starfa án minnstu ábyrgðar þrátt fyrir að hafa tekið sér völd í blóra við bæði lög og góða stjórnsýslu. Eða geta þau bara hagað vinnubrögðunum eftir því sem vindurinn blæs þann daginn? Eða vinur hvers sækir um þann daginn?

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.