*

þriðjudagur, 1. desember 2020
Björn Brynjúlfur
22. maí 2020 15:10

Óheppna kynslóðin

Þeir sem útskrifast í kreppu mælast tekjulægri en aðrir að minnsta kosti fimm árum og allt að áratug síðar.

Haraldur Guðjónsson

Útskriftarnemar háskólanna í ár eru einstaklega óheppnir. Kennsla var felld niður eða færð á netið og útskriftarveislur verða ekki haldnar. Og ekki batnar ástandið þegar komið er út á vinnumarkaðinn. Atvinnuleysi hefur aldrei verið meira og stór hluti nemenda hefur ekki fundið sér vinnu.

Þessi skortur á atvinnutækifærum verður að öllum líkindum enn til staðar á næsta ári. Margir hafa hætt við að ráða til sín nýútskrifað fólk á þessu ári og því næsta, samkvæmt könnunum meðal vinnuveitenda.

Til að bæta gráu ofan á svart hafa þeir sem útskrifast núna fáa möguleika til að brúa bilið þar til hlutirnir batna. Ferðabönn þýða að ekki er í boði að taka hlé til að ferðast um heiminn og slæm staða veitinga- og ferðaþjónustugeiranna þýðir að þar bjóðast fá störf til að byggja upp reynslu þar til önnur tækifæri bjóðast.

Af sögunni að dæma mun þessi slæma byrjun á starfsferlinum fylgja nýútskrifuðu fólki í mörg ár. Þeir sem útskrifast í kreppu mælast tekjulægri en aðrir að minnsta kosti fimm árum og allt að áratug síðar.

Það hljómar þversagnakennt að kórónuveiran, sem leggst þyngst á eldra fólk, hafi þessar afleiðingar. Sóttvarnaraðgerðirnar hafa hins vegar sérstaklega slæm áhrif á yngra fólk sem birtast í færri tækifærum á mikilvægustu árum starfsferilsins.

Hluti af því að vinna gegn núverandi kreppu ætti að vera að hjálpa þeim sem eru að byrja á vinnumarkaði að fá tækifæri til að sanna sig. Það er ekki einungis gott fyrir samfélagið heldur einnig fyrirtækin. Fyrirtæki með bjartar langtímahorfur geta því séð sér leik á borði núna. Samkeppni um hæft fólk hefur sjaldan verið minni og þau sem fá tækifæri á þessum tímapunkti verða því þakklát.

Höfundur er hagfræðingur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.