*

fimmtudagur, 28. janúar 2021
Huginn og muninn
28. júní 2020 11:01

Óhlýðni Þórs beinir ljósi á tímaskekkju

Borgaraleg óhlýðni Þórs á Akureyri vakti kátínu hrafnanna vegna tvöfeldni sem felst í auglýsingabanni.

Hafliði Breiðfjörð

Löggjafinn hefur löngum staðið í þeirri trú að bílfarmar af börnum muni verða vítislogum og fíknar að bráð ef heimilt verður að auglýsa áfengi, tóbak eða veðmál hvers kyns hér á landi. Það hefur hins vegar engin áhrif á sömu bílfarma að vera minntur á skilríkin, taka þátt í veðmálum til að styrkja íþróttastarf eða að sjá slíkar auglýsingar á veraldarvefnum.

Að mati hrafnanna mætti auðveldlega færa fyrir því rök að þarna sé tímaskekkja á ferð og mögulega tilefni til að endurskoða regluverkið. Borgaraleg óhlýðni leikmanna og þjálfara knattspyrnuliðs Þór á Akureyri, sem mættu með derhúfur merktar Coolbet í viðtöl eftir leik í Lengjudeildinni, vöktu því vissa kátínu.

Eftir að fjallað var um málið bakkaði félagið hins vegar og baðst afsökunar á athæfinu. Þá urðu hrafnarnir daprir. Nærtækara hefði verið að taka málið á kassann og fara með það alla leið til að koma umræðu um málið á almennilegt skrið. Ella er betra að sitja heima en að fara af stað.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Coolbet Þór Akureyri
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.