*

fimmtudagur, 28. janúar 2021
Andrés Magnússon
20. júlí 2020 07:46

Ókeypis fréttir kosta

„Það er örugglega ekki minna að frétta nú en var fyrir 40 árum, þegar út komu sjö dagblöð í landinu“

Haraldur Guðjónsson

Hér var síðast fundið að því hve lítið væri í fréttum í helstu fjölmiðlum, en tilefnið var Fréttablaðið fyrri þriðjudag. Í því voru alls fjórar fréttasíður að forsíðunni meðtalinni, liðlega 8% af 48 síðum. Fyrir utan þýddar fréttir og umskrifaðar fréttatilkynningar voru þar aðeins fimm eiginlegar og frumunnar innlendar fréttir.

Svo menn haldi ekki að þetta hafi verið helber hending er rétt að skoða þriðjudagsblaðið í þessari viku líka. Þar voru fréttasíðurnar einnig aðeins fjórar (10% af 40 síðum) og fréttirnar einungis þrettán ef ríflega er talið. Þar af voru tvær forsíðutilvísanir á fréttir inni í blaði (önnur á sportsíðu), ein sjálfstæð fréttamynd að utan, þrjár erlendar fréttir, tvær byggðar á fréttatilkynningum og ein endursögn á frétt RÚV. Í blaðinu voru því aðeins fjórar eiginlegar frumfréttir. Það gæti nú varla verið minna.

                                                                     ***

Ofangreint er ekki tínt til Fréttablaðinu til sérstaks hnjóðs. Þetta er einna rólegasti tími ársins í fréttaflutningi, margir í sumarleyfum, útbreiðsla Fréttablaðsins — líkt og prentmiðla víðast hvar — hefur dregist saman undanfarin ár og seglin á ritstjórninni rifuð.

Svo má auðvitað líka benda á hitt, að Fréttablaðið var þegar best lét fyrir 12-15 árum óvenjuefnismikið fríblað. Það mátti að einhverju leyti þakka metnaði og meðgjöf þáverandi eigenda þess í bóluhagkerfi útrásar og lánsfjárgnóttar, en jafnframt naut það mjög digurra auglýsingasamninga við fyrirtæki, sem tengdust eigendunum. Á sinn hátt má segja að það sé nú loksins að verða líkara fríblöðum (metróblöðum) í öðrum löndum, efnisrýr umgjörð um auglýsingar — beinar sem óbeinar.

Á því má þó nefna eina undantekningu, sem er Markaðurinn, viðskiptakálfur Fréttablaðsins á miðvikudögum, sem birtir jafnan helmingi fleiri fréttir en móðurskipið og allt frumfréttir, skúbbar oft og innheldur prýðilegar fréttaskýringar. Kannski Fréttablaðið ætti fremur að vera fylgirit Markaðarins en öfugt!

Að öllu gamni slepptu hlýtur þetta að vera útgefendum og ritstjóra Fréttablaðsins umhugsunarefni. Hverju bætir Fréttablaðið við fréttaflutning í landinu? Hvert er erindi þess við lesendur?

                                                                     ***

Þessi fréttaþurrð fjölmiðla er áhyggjuefni. Fréttablaðið, sem kemur út fimm daga í viku, segir ekki fleiri fréttir en raun ber vitni, en sérhæfðu vikublöðin (og systurblöðin) Viðskiptablaðið og Fiskifréttir flytja samtals ámóta margar frumfréttir í viku hverri. DV og Mannlíf (komi það aftur út) segja ekki fréttir svo heitið geti. Stundin segir vissulega ýmsar fréttir og hefur markað sér eigin bás þó hún sé ekki í þessu daglega fréttaharki og má kannski fremur kalla tímarit þó hún sé gefin út í dagblaðsbroti.

Segja má að Morgunblaðið eitt standi undir nafni sem daglegur og almennur fréttamiðill á prenti, með urmul fjölbreyttra frétta.

                                                                     ***

Því til viðbótar eru auðvitað ljósvakamiðlarnir. Þeir hafa raunar einnig nokkuð dregið úr fréttaframleiðslu á liðnum árum, en engan veginn í sama mæli og prentmiðlarnir í heild. Hins vegar segja þeir mun færri fréttir, formið býður ekki annað þar sem tíminn er af skornum skammti á ljósvakanum.

Það breytir ekki hinu, að bæði Ríkisútvarpið og Sýn (Bylgjan og Stöð 2) spinna mikið hinn daglega fréttaþráð og tekst ágætlega upp við það, hvor fréttastofan á sinn hátt, en þær hafa ólíkan tón, fréttamat og efnistök. Það er ástæðulaust að gera upp á milli þeirra, það er mikið smekksatriði, en óhætt að segja að þær bæti hvor aðra mikið upp. Fjölmiðlarýnir vill a.m.k. hlusta og horfa á aðalfréttatíma beggja til þess að hafa sæmilega yfirsýn um hvað er að gerast í landinu.

Vísir og mbl.is eru einu vefmiðlarnir, sem eitthvað kveður að í almennum frumfréttaflutningi. Fréttavefur Ríkisútvarpsins er að vísu vel lesinn, en þar er nánast einvörðungu að finna uppsuður á fréttum úr útvarpi eða sjónvarpi, svo þar er ólíku saman að jafna. Vísir og mbl.is birta vissulega mestallt efni systurmiðla sinna, en þar er samt sem áður áherslan á eigið efni, svo tala má um sjálfstæða fjölmiðla þó þeir dragi vissulega dám af sínum hefðbundnu systurmiðlum.

Aðrir vefmiðlar eiga miklu minna ef nokkurt framlag til eiginlegs, almenns fréttaflutnings, þar sem sagðar eru frumfréttir, sem miðillinn sjálfur aflaði og sagði. Þar er meginstofninn fréttatilkynningar eða endursagnir af fréttum annarra miðla, svo þeir bæta sáralitlu fréttakyns við. Undantekning á því eru héraðsfréttamiðlar (sumir alveg fyrirtaksfréttamiðlar), nú eða sérhæfðir vefir um fótbolta, hestamennsku eða ámóta.

                                                                     ***

Það er örugglega ekki minna að frétta nú en var fyrir 40 árum, þegar út komu sjö dagblöð í landinu (Alþýðublaðið, Dagblaðið, Dagur, Morgunblaðið, Tíminn, Vísir og Þjóðviljinn), auk ótal héraðsfréttablaða. Þá voru 227 þúsund manns í landinu, en eru nú 364 þúsund. Því verður ekki heldur trúað að fréttaþorsti almennings eða þörf fyrir áreiðanlegar fréttir sé minni nú en þá, hvað þá nauðsyn þess að valdhöfum eða valdaöflum sé veitt aðhald hafi minnkað.

Samt hefur fjölmiðlum fækkað ákaflega og reksturinn ákaflega bágborinn mitt í neysluveislunni. Sjálfsagt má rekja það til ótal þátta, en fjölmiðlarýnir leyfir sér að setja fram þá tilgátu að hér sem annars staðar hafi það veikt fréttamiðlunina ákaflega og hugsanlega varanlega þegar almenningi gafst kostur á „ókeypis“ fréttum. Kostnaðurinn við fréttir Ríkisútvarpsins var frá upphafi lítt sýnilegur neytendum og Stöð 2 átti ekki annan kost en að hafa fréttir sínar ólæstar, Fríblaðið Fréttablaðið hóf göngu sína 2001 og Blaðið/24 stundir 2005, en um svipað leyti hösluðu netmiðlar sér völl, nær allir notendum að kostnaðarlausu.

Vandinn er sá að það sem er mönnum ókeypis er þeim þá einatt einskis virði. Sem takmarkar tekjumöguleikana og þar með útgjöldin, svo áður en varir er uppistaðan umpottaðar fréttatilkynningar og skrum í bland við stolnar slebbafréttir og endursagnir á frumfréttum annarra miðla, hinna raunverulegu fréttamiðla. En það grefur undan frumfréttamiðlunum líka, sem þar eru í samkeppni við froðumiðla, sem aukin heldur notfæra sér efni þeirra, og margir leggja það sjálfsagt allt að jöfnu og láta sér „ókeypis“ fréttalíki duga.

Það er eitthvað sem hlýtur að þurfa að horfa til þegar rætt er um rekstrarumhverfi fjölmiðla, styrkjakerfi og þess háttar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.