*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Leiðari
15. október 2021 15:03

Okkar að klúðra

Vonandi ber verkalýðshreyfingunni gæfa til að hlusta á varnaðarorð seðlabankastjóra og ganga til skynsamlegra kjarasamninga á næsta ári.

Haraldur Guðjónsson

Eitt af stærstu verkefnum sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir eru kjaraviðræður á almennum vinnumarkaði á næsta ári. Lífskjarasamningarnir, sem skrifað var undir í byrjun apríl 2019, renna sitt skeið 1. nóvember 2022. Vonandi ber samningsaðilum gæfa til að ná saman um skynsamlega kjarasamninga þar sem laun taka mið af því sem hagkerfið stendur undir.

Þó að jákvæðar fregnir berist á ýmsum sviðum efnahagslífsins eru líkur á að eftir ár verði landsframleiðsla á mann lægri en hún var þegar lífskjarasamningarnir voru undirritaðir árið 2019. Á sama tíma mun launavísitalan að líkindum hafa hækkað um 20- 25%. Svigrúmið til launahækkana í mörgum greinum verður því líklega ekki sérlega mikið. Hætt er við að verulegar launahækkanir á þeim tímapunkti muni leiða af sér gengislækkun, verðbólgu og hærri stýrivexti.

Miðað við hve illa gekk að ná saman í síðustu kjaralotu hafa margir áhyggjur af því hvernig muni ganga að semja eftir ár. Árið 2019 var það fall Wow air sem neyddi aðila til að ná samningum eftir verkfallahrinu sem beint var gegn ferðaþjónustunni. „Niðurstaðan í þessum viðræðum er ekki fullnaðarsigur heldur vopnahléslína milli stéttar verkafólks og stéttar auðmagnseigenda. Baráttan milli þeirra heldur áfram,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, við það tilefni. Í lífskjarasamningunum var samið um krónutöluhækkanir og sérstök áhersla á að hækka lægstu laun.

Lægstu laun hækka að lágmarki um 30% á samningstímanum upp í 363 þúsund krónur á mánuði. Því til viðbótar réðst ríkisstjórnin í skattkerfisbreytingar með það að markmiði að auka ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu um 10 þúsund krónur á mánuði. Þá er sú sérkennilega staða uppi að þrátt fyrir sögulegan samdrátt árið 2020 eru líkur á að hagvaxtarákvæði samninganna virkist vegna áranna 2021 og 2022. Hagvöxtur áranna 2021 og 2022 getur samanlagt skilað allt að 26 þúsund króna viðbótarlaunahækkun á mánuði jafnvel þótt landsframleiðsla kunni að vera lægri en við upphaf samningstímans.

Fyrirtæki eru augljóslega í afar misjafnri stöðu til að takast á við launahækkanir. Mörg fyrirtæki sem fyrir standa höllum fæti eftir faraldurinn í mannaflsfrekum þjónustugreinum á borð við ferðaþjónustu og veitingageiranum munu að líkindum eiga erfitt með að ráða við launahækkanirnar.

Því var ánægjulegur en óvæntur samhljómur í viðtölum við Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, á Bylgjunni á þriðjudaginn og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra í Morgunblaðinu á miðvikudaginn. Þeir töluðu báðir fyrir því að horfa þyrfti á aðra þætti en launaliðinn í komandi kjaraviðræðum. Meiri háttar uppbygging íbúðarhúsnæðis, sér í lagi hagkvæmra íbúða, væri þar efst á dagskrá. Slíkt væri líklegt til að skila launþegum meiru en launahækkanir án innistæðu. Miðað við spár mun framboð á íbúðamarkaði ekki halda í við eftirspurn næstu misserin. Bent hefur verið á það margoft á undanförnum árum að auka þarf lóðaframboð og einfalda skipulags- og leyfisveitingaferli við húsbyggingar. Ásgeir og Ragnar minntust báðir í þessu samhengi á byggingu Breiðholtsins sem samið var um samhliða kjarasamningum á sjöunda áratugnum.

Ásgeir hefur gefið það út að hækki laun umfram svigrúm muni Seðlabankinn þurfa að hækka stýrivexti meira en ella. Stýrivaxtalækkanir í faraldrinum hafa mildað höggið en að sama skapi ýtt undir verðhækkanir á fasteignamarkaði. Það hefur komið misjafnlega við fólk eftir því í hvaða stöðu það er. Eigið fé fasteignaeigenda hefur aukist og greiðslubyrði lántaka lækkað um tugi þúsunda. Þá stuðlaði lækkun stýrivaxta einnig að lægra leiguverði. Launahækkanir umfram svigrúm munu að líkindum að miklu leyti renna í að standa undir hærri afborgunum lána eða hærri húsaleigu.

Árið 2017 sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að hann teldi íslenska kjarasamningslíkanið vera ónýtt. „Hver getur mótmælt þessu þegar hver höndin er uppi á móti annarri, nær engin samvinna til staðar og skipulagið tilviljanakennt og breytilegt frá einum kjaraviðræðum til þeirra næstu. Þetta er stærsti einstaki veikleiki íslenskra efnahagsmála um þessar mundir,“ sagði Bjarni.

Lítið hefur í raun breyst síðan. Kjaraviðræður einkennast enn í miklum mæli af viðræðum við fámenna hópa sem semja hver í sínu horni. Í þessu samhengi má benda á að á hinum agnarsmáa íslenska vinnumarkaði voru gerðir 320 kjarasamningar á árunum 2019 til 2021. Þá er ekkert sem stöðvar verkalýðshreyfinguna í að knýja atvinnurekendur til samninga langt umfram það sem hagkerfið ræður við beiti það verkfallsvopninu af nægjanlegum krafti— eins og Íslendingar þekkja því miður allt of vel. Þessa umgjörð þarf að laga þótt ekki bendi margt til þess að það breytist í bráð.

Mörg jákvæð teikn eru á lofti í íslensku efnahagslífi nú um stundir. Það er að miklu leyti í okkar höndum að klúðra þeirri stöðu. Eitt af því væru óskynsamlegir kjarasamningar. Vonandi ber verkalýðshreyfingunni gæfa til að hlusta á varnaðarorð seðlabankastjóra og ganga til skynsamlegra samninga sem skila raunverulegum kjarabótum fyrir launþega.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.