*

sunnudagur, 23. janúar 2022
Týr
21. júlí 2017 15:43

Ölæði

Bæði Fríhöfnin og ÁTVR eru í ríkiseigu og reknar á ábyrgð fjármálaráðherra. Sem er eina sýnilega ástæðan fyrir því að þær komast upp með það sem öðrum er meinað.

Haraldur Guðjónsson

Áfengisauglýsingar eru bannaðar á Íslandi eins og allir vita. Nema auðvitað í miðlum sem þykja á einhvern hátt nægilega útlenskir, Guardian en ekki Grapevine, Fríhafnarblaðinu en ekki Fréttablaðinu. Prentfrelsið er virt, en þó aðallega að vettugi ef íslenskur fjölmiðill vill vera með kynningu á vinsælli neysluvöru vilji svo til að hún sé áfeng. Vei því brugghúsi sem reynir að koma öli sínu á framfæri með því að auglýsa létta útgáfu sama mjaðar, árvökulir laganna verðir sjá við slíkum vörumerkjabrellum. Aftur á móti þykir ekkert að því að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) kynni sig undir hinu öllu vinsamlegra vörumerki Vínbúðinni. Enn síður er fundið að því að Vínbúðin haldi úti vef með auglýsingum á víni, vínráðgjöf og öðru sem telja má hvetjandi til áfengisneyslu.

★ ★ ★

Bæði Fríhöfnin og ÁTVR eru í ríkiseigu og reknar á ábyrgð fjármálaráðherra. Sem er eina sýnilega ástæðan fyrir því að þær komast upp með það sem öðrum er meinað.

★ ★ ★

Tilefni þessarar upprifjunar er furðuleg 13 milljóna króna auglýsingaherferð á vegum ÁTVR, sem stjórnendur halda fram að sé beint til starfsfólks fyrirtækisins, áminning um mikilvægi þess að biðja viðskiptavini um skilríki. Hjá ÁTVR starfa um 150 manns og er kostnaðurinn því liðlega 80 þúsund kall á kjaft. Fyrir þann pening mætti ráða góðan óperusöngvara til þess að fara hjólandi heim til hvers einasta starfsmanns ÁTVR, afhenda magnumflösku af Moët & Chandon, syngja fyrir hann áskorun um að tékka alltaf á teininu og gefa árskort í Bláa lónið.

★ ★ ★

Þetta bruðl og sóun ríkisfyrirtækisins er óþolandi. Og auðvitað snýst hún ekki um að vanda um við kassafólkið, heldur er þetta illa dulbúin ímyndarauglýsing einokunarfyrirtækis. Samt er það hjóm eitt hjá hinu, sem nýverið kom í ljós, að vöruverð í ÁTVR er a.m.k. 20% of hátt miðað við það sem býðst í Costco.

★ ★ ★

Af um það bil 30 milljarða króna veltu nemur það um 6 milljarða króna tapi samfélagsins. Eða svo það sé orðað eilítið öðru vísi, þá er áfengisgjaldið 6 milljörðum króna of lágt. Í umræðu um tilhögun áfengisverslunar í landinu hefur oftsinnis komið fram, að lýðheilsufræðingar telja núverandi verð á áfengi hið eina rétta til að sporna við óhóflegri neyslu þess. Af Costco-samanburðinum blasir við unnt væri að hækka áfengisgjaldið um 6 milljarða ef verslun með áfengi yrði gefin frjáls, án þess að verð til neytenda breyttist um eina krónu. Væru þá ekki allir ánægðir?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.