*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Óðinn
28. janúar 2020 14:33

Ólgan í Íran

Ólíkindatólið Trump átti erfitt með að horfa framhjá ögrunum Írana, en hann, líkt og Obama, hefur lítinn áhuga á heimshlutanum.

Mótmælendur gegn klerkastjórninni í Íran.
epa

Ólgan í Íran kom flestum í opna skjöldu, en vart er liðin nema vika síðan fjölmiðlar og álitsgjafar töluðu opinskaátt um að þriðja heimsstyrjöldin kynni að vera í aðsigi vegna átaka Bandaríkjamanna og Írana. Auðvitað var það of mikið sagt, en hitt er alveg rétt að þar hefði getað farið miklu verr og þar getur enn allt farið í bál og brand með ófyrirsjáanlegum afleiðingum, þó ósennilegt verði að teljast að heimsfriðnum sé stefnt í bráða hættu.

                                          ***

Íranir hafa um langt skeið aðhyllst einskonar heimsvaldastefnu í sínum heimshluta, einangraðir sem þeir eru, og hafa kynt undir ófriði og ólgu í velflestum löndum í kring, stutt bæði hryðjuverkasamtök, fallvaltar ríkisstjórnir og stjórnarandstæðinga, með það helst fyrir augum að styrkja stððu sína og grafa undan ríkjunum á Arabíuskaga, en ekki þó síst að velta Bandaríkjunum - Stóra Satan -  úr sessi sem helsta áhrifavaldi á þeim slóðum.

                                          ***

Þrátt fyrir fjölda árása og hryðjuverkjaaðgerða að undirlagi Írana undanfarin misseri hefur heimurinn að miklu leyti leitt þær hjá sér, en þar kom að að langlundargeð Bandaríkjanna í þeirra garð þraut. Þau komu Qasem Soleimani, helsta hershöfðingja íranska byltingarvarðarins, fyrir kattarnef hinn 3. janúar, en Íranir svöruðu fyrir sig með árás á bandarískar herstöðvar í Írak hinn 7. janúar.

                                          ***

Óvissan við slíkar kringumstæður er auðvitað mikil, bæði um árangur og afleiðingar. Það var þó sennilega hrein tilviljun, sem mestu kann að ráða um framhaldið, því ekki löngu eftir hefndarárásir Íraka, skutu þeir einnig niður úkraínska farþegaþotu skömmu eftir flugtak frá Teheran svo allir um borð létu lífið.

Fyrst í stað var því harðneitað að nokkuð hefði grandað flugvélinni og því haldið fram að um flugslys hafi verið að ræða. Vísbendingar um annað hrönnuðust þó upp og fjórum dögum síðar játuðu írönsk yfirvöld að hafa skotið hana niður og sögðu hana hafa vikið af markaðri flugleið. Síðar kom annað í ljós, en flestir telja nú að það hafi gerst fyrir mistök eða að íranski byltingarvörðurinn hafi verið of taugaveiklaður og gikkfljótur.

                                          ***

Enginn sá hins vegar fyrir þá gríðarlegu reiði, sem braust út meðal íransks almennings, að hluta til vegna ódæðisins og að hluta vegna lygimálanna sem á eftir fylgdu, en hitt skiptir þó sjálfsagt ekki minna máli að velflestir Íranir eru fyrir löngu búnir að fá sig fullsadda af blóði drifinni harðstjórn klerka og byltingarvarða ofan á endalaus efnahagsvandræði þessa annars auðuga lands.

Ómögulegt er að segja til um hvernig því lyktar, til þessa hafa stjórnvöld verið óhrædd við að beita sömu aðferðum og svo oft áður, að berja niður allt andóf af fylllstu hörku. En hitt er ekki ómögulegt heldur, að alþýða manna geri árangursríka byltingu, eða að eilítið hófsamari öfl innan stjórnar ríkisins komi böndum á byltingarvörðinn og lini tökin eitthvað. Þá eygja menn jafnframt von um að Íransstjórn falli loks frá kjarnorkuvopnaáætlun sinni og taki upp friðsamlegri sambúð við umheiminn.

                                          ***

Valdatafl við Persaflóa

Árás Írana á bandarísku herstöðvarnar var þegar upp var staðið fremur hófstillt hefndaraðgerð, sem mörgum virtist aðallega til þess fallin að bjarga andliti eftir að Suleimani var veginn. Þar var þó ekki alveg allt sem sýndist, því þeir notuðu ekki aðeins hefðbundnar flaugar til þess að ráðast á bandarísku herstöðina, þar voru notaðar meðaldrægar flaugar og nákvæmar stýriflaugar, sem eru orðnar harla fullkomnar og sýna vel að þrátt fyrir að Íran sé á efnahagslegri heljarþröm, þá er það herveldi sem um munar. Umfram allt þá náði klerkaveldið í Teheran að gera Bandaríkjunum og öðrum ríkjum það ljóst, að það teldi sig eiga ríkra hagsmuna að gæta og að það myndi ekki skirrast við að verja þá.

                                          ***

Íranir hafa mjög fært sig upp á skaftið undanfarin misseri, en síðan í fyrra hafa þeir gengist fyrir sjóránum og skemmdarverkum á skipum frá ríkjum Atlantshafsbandalagsins (NATO), þeir grönduðu bandarískum dróna (mögulega fyrir mistök) í júní síðastliðnum og í september gerðu þeir samhæfða og þaulskipulagða drónaárás á olíuhreinsunarstöðvar í Abqaiq og Khurais í Sádi-Arabíu.

                                          ***

Fyrir aðeins áratug hefðu þessar árásir óhjákvæmilega leitt til hernaðaríhlutunar Bandaríkjanna og Breta, mögulega fleiri NATO-ríkja, að ógleymdri SádiArabíu. En núna er ekkert slíkt á döfinni, þó menn steyti hnefa. Hvað hefur breyst á þessum áratug? Jú, ríkisstjórn Barack Obama breytti um stefnu á sínum tíma og vildi varla fyrir nokkurn mun leggja bandaríska hermenn í hættu (en notaði hins vegar dróna mjög óspart, sér að áhættulausu). Það dró mjög úr fælingarmætti varnarsamninga Bandaríkjanna við ríkin austan Persaflóa og Íranir gengu fyrirsjáanlega á lagið.

                                          ***

Það sem þó hefur meiru breytt er vökvabrot (e. Fracking) til hagnýtingar jarðefnaeldsneytis, en sú nýjung hefur á örfáaum árum breytt Bandaríkjunum í olíuútflytjanda eftir margra áratuga hlé. Bandaríkin eru nú ekki aðeins sjálfum sér nóg um jarðefnaeldsneyti, þannig að þjóðaröryggi liggur ekki lengur við ef ókyrrast fer við Persaflóa, heldur finna þau ekki heldur fyrir efnahagslegum óróa þar með sama hætti. Ef olíuverð snarhækkar, vegna styrjaldarótta við Persaflóa eða skakkafalla í olíuvinnslu þar, þá þyngist pyngja bandarískra gas- og olíuframleiðenda ekki síður en annarra, meira ef eitthvað er.

                                          ***

En eru menn ekki einfaldlega friðsamlegri nú en þá? Er það máske arfleifð Obama, eins og sumir hafa gert skóna? Það verður að teljast ósennilegt, hagsmunirnir eru einfaldlega aðrir. Fyrir áratug hefði árás á sádi-arabískar olíuhreinsunarstöðvar valdið hruni í framboði á olíumörkuðum með tilheyrandi verðhækkun á heimsmarkaði, sem stefnt hefði efnahag heimsins í hættu og þannig hefðu vestræn ríki verið tilneydd til aðgerða. Þau kjósa vissulega ekki óstöðugleika við Persaflóa nú frekar en þá, en hann skiptir þau og heimsbyggðina minna máli en undanfarna hálfa öld eða meira.

                                          ***

Það sverð er þó tvíeggjað. Þannig reyndu Íranir á þolinmæði George W. Bush Bandaríkjaforseta á sínum tíma (fyrrnefndur Soleimani er talinn hafa borið ábyrgð á um sjöttungi mannfalls Bandaríkjamanna í Írak þá, en hann lét vera að svara í sömu mynt, einmitt til þess að styggja ekki olíumarkaði frekar). Af sama leiðir að Donald Trump Bandaríkjaforseti þarf ekki auðsýna sömu tillitssemi og getur gripið til aðgerða sem þessara án þess að þurfa að óttast hnattrænar afleiðingar. Sem rekja má til framfara í vökvabroti en nokkurs annars.

                                          ***

Friðarsinninn Trump

Nú hafa menn til þessa talið Trump - ólíkindatól sem hann er -  þess lítt fýsandi að leggjast í hernaðaraðgerðir. Hann lítur á hernað sem sóun og hefur hvað eftir annað bent á að Bandaríkin hafi lítið upp úr slíku krafsi nema meiri vandræði. Sumir telja að vísu að hann sé til í sverðaglamur nú þegar líður að forsetakosningum vestra, mögulega til þess að draga athyglina frá þingkæru og öðrum vanda heima fyrir, en að hann vilji ekki fyrir nokkurn mun festast í enn einu stríðinu, hans eina markmið sé að fara inn í kosningabaráttuna með efnahagslífið í góðum gír.

                                          ***

Hann átti hins vegar erfitt með að líta hjá ögrunum Írana, sem hafa færst mjög í aukana á síðustu mánuðum, fyrir nú utan framlag þeirra til óstöðugleika, hryðjuverka eða hernaðar í svo að segja öllum nágrannaríkjum, þar sem þeir hafa lítt hirt um að hylja slóðina.

Síðustu tvo mánuði liðins árs gerðu Íranir 11 staðfestar árásir á bandarískar herstöðvar í Írak, annað eins á græna svæðinu svonefnda, en ein þeirra olli mannfalli, og loks báru þeir ábyrgð á óvenju ósvífinni árás á sendiráð Bandaríkjanna í Bagdad á gamlársdag, þar sem engu munaði að það yrði jafnað við jörðu og sendiráðsfólkið allt drepið eða tekið í gíslingu. Að því leyti má segja að Íranir hafi brýnt hið deiga járn í Hvíta húsinu svo það loksins biti.

                                          ***

Við blasir að Bandaríkjastjórn, burtséð frá því hver situr í Hvíta húsinu, getur ekki leitt slíkar árásir hjá sér. Af þeirri ástæðu litu flest vestræn ríki svo á að vígið á Soleimani væri réttmætt og létu vera að mótmæla því, þó mörg þeirra hvettu til stillingar á báða bóga. Tilgangurinn með því var þó ekki aðeins að hefna fyrir skærurnar í aðdragandanum heldur til þess að endurreisa fælingarmátt Bandaríkjanna á svæðinu, sem mjög hafði dregið úr undanfarinn áratug. Það var svo sjálfsagt sérstakur bónus að losna við Soleimani, sem hefur verið lykilmaður í herskáasta armi klerkaveldisins.

                                          ***

Eftir sem áður er mörgum á huldu hvert er erindi Bandaríkjamanna í Miðausturlöndum. Þeir hafa haft sig í frammi í Írak, við Persaflóa, Sýrlandi og víðar, en árangurinn hefur ekki verið upp á marga fiska, svo vægt sé til orða tekið. Þá líta menn að vísu hjá hinu, hvernig ástandið væri þar ef þeir hefðu ekki skorist í leikinn, en rétt er að hafa í huga að þeir drógu sig mjög í hlé um 2011 en sneru aftur 2014 eftir að tómarúmið orsakaði uppgang ISIS, þjóðarmorð og ólýsanlegan yfirgang, sem ógnaði ekki aðeins þeim heimshluta. Eins er alls óvíst að óöldin í Sýrlandi hefði nokkru sinni orðið ef Bandaríkjamenn hefðu ekki haft sig á brott og þannig með óbeinum hætti hleypt Írönum inn í Sýrland.

                                          ***

Ef svo fer að valdahlutföll í ríkisstjórn Írans riðlist mikið, nú eða að klerkaveldið falli loksins, 41 ári eftir að Khomeini erkiklerkur steypti keisaranum, þá er ólíklegt að áhrif Bandaríkjamanna við Persaflóa minnki. Eða margvíslegur vandi, sem af þeim hljótast. Þá mun ekki síður reyna á stjórnlist Bandaríkjaforseta, sem nú er við það að semja frið við Kína, en er líklegur til þess að hvessa sig frekar við Evrópu. Aukin áhrif Bandaríkjanna við Persaflóa munu ekki gera þau samskipti auðveldari, en á hinn bóginn kann sambúðin við orkuveldi Rússa að skipta meira máli. Áhugaverðir tímar.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.