Eigendur Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar hyggjast skrá félagið í Kauphöll Íslands í júní. Það er mjög jákvætt fyrir íslenskan hlutabréfamarkað að sem flest félög séu skráð og almenningur hafi tækifæri til að taka þátt í rekstri fyrirtækja beint.

Kynningar fyrir fjárfesta hófust í byrjun síðustu viku. Að sögn kunnugra telja stjórnendur félagsins að verðmatið sé í kringum 25 milljarðar króna. Fyrir fáeinum dögum birtust upplýsingar um rekstur félagsins í fyrra. Í ársreikningi kemur fram að hagnaður félagsins hafi numið 1,7 milljörðum króna í fyrra samanborið við 728 milljónir árið 2020. EBITDA fyrirtækisins jókst úr 2,3 milljörðum í 3,3 milljarða á milli ára. Þetta er góð niðurstaða en fróðlegt verður að sjá kynninguna frá félaginu.

* * *

Mikil vonbrigði

Óðinn varð fyrir miklum vonbrigðum með stjórnendur Ölgerðarinnar þegar umræða um sölu áfengis stóð sem hæst árið 2014 þegar Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram frumvarp um afnám einkasölu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.

Rök Ölgerðarinnar, og Vífilfells, voru undarleg, að ekki væri hægt að hrófla við núverandi fyrirkomulagi án þess að heimila áfengisauglýsingar. Þessi sjónarmið turnanna tveggja á drykkjarvörumarkaðnum á Íslandi standast ekki. Þessi tvö félög eru í dag með þekktustu vörumerkin á markaðnum og því hljóta þau að hafa forskot.

En áhyggjur félaganna tveggja snerust auðvitað um að ódýrari vörur kæmu inn á markaðinn sem myndu kaffæra þeirra landsþekktu vörumerkjum þegar kemur að verðlagningu. Því sé núverandi kerfi þeim hagstæðara þar sem þau hafa mjög sterka stöðu í hillum ÁTVR en langan tíma getur tekið að fá nýja vöru í hillu ríkiseinokunarverslunarinnar.

* * *

Frábærlega!?

Í frétt á vb.is frá nóvember 2014 sagði Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, aðspurður:

Hver er almenn afstaða Ölgerðarinnar til frjálsrar sölu áfengis?

„Það er bara grundvallarviðhorf okkar til viðskipta að þau eigi að vera frjálsari,“ segir Andri.

Eruð þið ánægðir með núverandi sölufyrirkomulag?

„Við höfum átt mjög gott samstarf við ÁTVR sem hefur að mörgu leyti staðið sig frábærlega.“

Andri Þór er líklega eini „hægri“ maðurinn á landinu sem telur ÁTVR hafa staðið sig vel. Svona geta eigin hagsmunir borið skynsemina og hugsjónirnar ofurliði. Óðinn bíður átekta eftir umfjöllun í skráningarlýsingu um afleiðingar þess á fjárhag Ölgerðarinnar að einkaréttur ÁTVR verði afnuminn. Einnig hlýtur félagið að þurfa að útskýra hvaða áhrif það hefði ef netverslanir koma með ódýrari vörur inn á markaðinn í mun meira mæli en nú er. Sérstaklega bjór.

* * *

Röng lögskýring Arndals

Ívar J. Arndal, forstjóri til 17 ára og starfsmaður ríkiseinokunarverslunarinnar til 22 ára, skrifaði formála forstjóra í nýútkominni ársskýrslu ÁTVR. Þar kemur hann með illa ígrundaðan samanburð á áfengismarkaði á Íslandi við sjónarmið Johns D. Rockefeller um áfengismarkaðinn í Bandaríkjunum á fyrstu áratugum síðustu aldar. Óðinn mun fjalla um það síðar.

En það sem Óðinn telur brýnt að leiðrétta strax er lögskýring Arndals um hvað borgararnir mega og mega ekki. Arndal segir í skýrslunni:

Verslanirnar hafa fengið að starfa óáreittar þrátt fyrir að flestir séu sammála um að fyrir þeim sé ekki heimild í lögum og rekstur þeirra stangist á við einkaleyfi ÁTVR.

Almennir borgarar þurfa ekki heimild í lögum til að aðhafast. Þeim er heimilt að gera hvað sem þeim sýnist svo lengi sem lög banni það ekki með skýrum hætti. Þetta er því grundvallarmisskilningur hjá Arndal.

Sama gildir ekki um ríkisstofnanir. Þær mega ekkert gera nema heimild sé fyrir því í lögum. Ekkert. Og það væri óskandi að þeir sem fara með lýðræðislega kjörin völd og umboðsmaður myndu hafa raunverulegt eftirlit með því.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu 12. maí. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .