*

miðvikudagur, 14. apríl 2021
Leiðari
28. september 2018 10:01

Olíuverð í íslensku samhengi

Ísland flytur inn og notar meiri olíu en flest önnur Evrópuríki miðað við höfðatölu.

Haraldur Guðjónsson

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur ekki verið hærra í fjögur ár. Verð á olíutunnu (Brent) er nú komið yfir 81 dollara, sem er svipað og það var í lok árs 2014. Á síðustu fjórum árum hefur verðið lægst farið í tæplega 28 dollara en það gerðist í janúar árið 2016. Á ríflega tveimur og hálfu ári hækkaði olíuverð um 190%.

Þegar þróun olíuverðs frá árinu 2004 er skoðuð er áhugavert að á tveimur og hálfu ári, eða frá janúar 2006 til ágústmánaðar 2008, var hækkunin ekki ósvipuð og hún hefur verið síðustu tvö og hálft ár. Í janúar 2006 var verðið í kringum 60 dollara en sumarið 2008 fór verðið í 146 dollara. Á þessum tíma hækkaði verðið sem sagt um tæplega 150%.

Ýmsar ástæður geta verið fyrir hækkun á olíuverði. Nú er hins vegar augljóst að þær má rekja til viðskiptaþvingana og refsiaðgerða Bandaríkjaforseta, sem og tregðu OPECríkjanna og Rússa til að auka framboð.

Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr er olía, enn í dag, sú orka sem að stórum hluta drífur hagkerfi heimsins áfram. Hækkun á olíuverði hefur því gríðarlega víðtæk áhrif.

Ísland flytur inn og notar meiri olíu en flest önnur Evrópuríki miðað við höfðatölu. Ástæðan fyrir því er hlutfallslega stór flutningageiri, stærsti bílafloti heims miðað við höfðatölu og sjávarútvegurinn, en stærstu notendur olíu á Íslandi eru flugfélög í millilandaflugi, bifreiðar og fiskiskip.

Áhrif hækkunar olíuverðs á flugfélögin hafa komið vel í ljós síðustu vikur. Það gefur augaleið að þegar verð á olíu hækkar um 190% á ríflega tveimur og hálfu ári hefur það mikil áhrif á rekstur flugfélaga, sérstaklega þeirra sem ekki hafa varið sig fyrir hækkun með framvirkum samningum.

Fyrir almenna neytendur eru augljósustu áhrifin hækkun eldsneytisverðs. Í dag er algengt lítraverð á bensíni að nálgast 230 krónur og verð á dísilolíu slagar hátt í 225 krónur. Vörur eru fluttar til landsins með skipum og flugvélum og innanlands eru þær mestmegnis fluttar á milli landshluta með flutningabifreiðum. Dýrari flutningar munu á endanum leiða til hækkunar á vörum. Þessi þróun hækkar verðlag og stuðlar þannig að hækkun verðbólgu með tilheyrandi áhrifum á verðtryggð lán heimilanna.

Hækkun olíuverðs nú er einnig áhugaverð í öðru samhengi. Um áramótin losna samningar á almennum vinnumarkaði. Hægt er að færa rök fyrir því að þróun olíuverðs á heimsvísu geti haft töluverð bein áhrif á forsendur kjarasamninga á Íslandi.

Síðast þegar samningar á almenna markaðnum voru lausir var samið um 30% launahækkun. Þetta var á vormánuðum ársins 2015. Ein af forsendum þeirra samninga var að verðbólga héldist í skefjum og kaupmáttur launa ykist.

Óhætt er að fullyrða að enginn mannlegur máttur á Íslandi hafi getað stjórnað þessu með fullkomnum hætti. Ein af þeim breytum sem skiptu hvað mestu máli í því að þessi forsenda brast ekki var gríðarleg verðlækkun á olíu. Lækkun olíuverðs leiddi til lækkunar bensínverðs, sem skilaði sér í vasa launafólks. Lækkun olíuverðs hafði einnig áhrif til lækkunar á ýmsum vörum og þjónustu og þannig jákvæð áhrif á verðbólguþróunina á samningstímanum.

Stikkorð: olía kjaramál
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.