*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Leiðari
4. október 2019 11:02

Óljósar horfur

Verði samið um meiri kjarabætur á opinbera vinnumarkaðnum en gert var í tengslum við lífskjarasamningana þá gæti allt farið úr böndunum.

Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Gígja Einars

Næðingur leikur um íslenskt atvinnulíf. Fyrir viku var ríflega 130 manns í fjármálageiranum sagt upp störfum. Hundrað manns var sagt upp hjá Arion banka og 12 hjá dótturfélaginu Valitor. Þá var 20 manns sagt upp hjá Íslandsbanka. Daginn áður en tilkynnt var um þessar uppsagnir hafði Icelandair sagt upp 87 flugmönnum.

Eðlilegt er að svona uppsagnahrina valdi titringi. Það er samt ágætt að hafa í huga að hvað Arion banka varðar þá lá alltaf fyrir að stjórnendur þar á bæ myndu fara í umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir. Það kom samt á óvart að 12% starfsmanna bankans hefði verið sagt upp á einu bretti. Mikil ókyrrð hefur verið í kringum Icelandair og því komu uppsagnirnar þar í sjálfu sér ekki á óvart. Reyndar fylgdu þeim fyrirheit um mögulegar endurráðningar með vorinu.

Síðustu mánuði hefur ríkt ákveðin stöðnun í hagkerfinu, sem miðað við svörtustu spár eftir fall Wow air síðasta vor, verður að teljast jákvætt. Eftir gjaldþrot Wow var gert ráð fyrir því að landsframleiðsla myndi dragast saman um allt að 1,9%. Sú spá hefur sem betur fer ekki raungerst því að á 2. ársfjórðungi var 2,7% hagvöxtur.

Seðlabankinn lækkaði í gær stýrivexti um 25 punkta, sem þýðir að stýrivextir eru nú 3,25% og hafa ekki verið lægri síðan verðbólgumarkmið var tekið upp með lögum árið 2001. Skilaboðin frá bankanum voru samt svolítið óljós.

„Samkvæmt bráðabirgðatölum þjóðhagsreikninga hélt áfram að hægja á hagvexti á fyrri hluta þessa árs þótt hann hafi verið heldur meiri en gert var ráð fyrir í ágústhefti Peningamála,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar. „Meiri vöxtur skýrist einkum af hagstæðara framlagi utanríkisviðskipta þar sem eftirspurn beinist í meira mæli að innlendri framleiðslu og vegur það upp á móti samdrætti í útflutningi.“

Enn fremur segir í yfirlýsingunni að leiðandi vísbendingar bendi „til þess að áfram muni hægja á vexti efnahagsumsvifa en sjá má merki þess að þjóðarbúið sé mögulega að ná viðspyrnu".

Í yfirlýsingunni segir jafnframt að nýleg þróun bendi til þess að efnahagsumsvif hafi verið þróttmeiri en gert hafi verið ráð fyrir. „Hins vegar eru horfur framundan óvissar, sérstaklega í alþjóðlegum efnahagsmálum. Því gæti dregið hraðar úr innlendum hagvexti en nú er búist við.“

Þarna er talað um að merki séu um mögulega viðspyrnu þjóðarbúsins en einnig um óvissu. Raunar er sérstaklega tekið fram að horfur séu óvissar í alþjóðlegum efnahagsmálum. Þegar öllu er á botninn hvolft þá vitum við ekki hvernig efnahagsmálin munu þróast næstu mánuði.

Óvissan einskorðast reyndar alls ekki sérstaklega við alþjóðleg efnahagsmál því hérlendis ríkir fullkomin óvissa í kjaraviðræðum opinberra starfsmanna. Verði samið um meiri kjarabætur þar en gert var í tengslum við lífskjarasamningana síðasta vor þá gæti allt farið úr böndunum. Við skulum vona að forystumenn opinberu stéttarfélaganna sýni skynsemi og að samningamenn sveitarfélaga og ríkisins standi í fæturna. Í lífskjarasamningunum var lögð áhersla á að bæta hag þeirra tekjulægstu og um það verður líka að ríkja sátt á opinbera markaðnum ellegar hefst hið klassíska höfrungahlaup. Það er ágætt að hafa í huga að það er ekki síst vegna skynsamlegrar lendingar í kjaraviðræðum á almenna vinnumarkaðnum síðastliðið vor sem niðursveiflan hefur ekki orðið dýpri en raun ber vitni.

Viðskiptablaðið tekur undir orð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, sem í nýju tímariti Frjálsrar verslunar segist vonast til „að lífskjarasamningarnir verði núna ákveðið leiðarljós í því hvernig við högum okkar vinnumarkaðsmálum“.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.