*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Huginn og muninn
13. nóvember 2021 08:55

Öll dýrin í skóginum vinir… nema eitt

Ákvörðun bæjarfulltrúa á Akureyri um að banna lausagöngu katta hefur valdið miklu fjaðrafoki.

Þó að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi ekki tjáð sig um kattabannið hefur fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur Jón Gnarr gert það.
Haraldur Guðjónsson

Bæjarstjórn Akureyrar er einstök fyrir það leyti að í september í fyrra var tilkynnt að meirihluti Framsóknarflokks, Samfylkingar og L-lista hefði afsalað sér völdum. Vegna sérstakra aðstæðna í kjölfar heimsfaraldursins var ákveðið að allir bæjarfulltrúar stæðu saman að þeim verkefnum sem framundan væru. Öll dýrin í skóginum áttu að vera vinir… nema eitt. Meirihluti bæjarfulltrúa ákvað nefnilega í byrjun mánaðarins að frá ársbyrjun 2025 yrði lausaganga katta bönnuð.

Þessi ákvörðun, sem stendur hröfnunum mjög nærri, olli miklu fjaðrafoki. Kattavinir eru æfir en aðrir sýna þessu skilning. Kattavinurinn Logi Bergmann Eiðsson skrifaði pistil um málið í Morgunblaðið um síðustu helgi þar sem hann gerir Akureyringum tilboð. „Við Reykvíkingar skulum hafa þennan flugvöll sem þið viljið endilega hafa í miðbænum okkar, gegn því að þið leyfið köttum að hafa sína hentisemi.“

Málið er samt ekki svo einfalt því Reykvíkingar eru ekki allir sammála Loga Bergmanni. Þó að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi ekki tjáð sig um kattabannið hefur fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur Jón Gnarr gert það. Hann lýsti því yfir í viðtali á sjónvarpsstöðinni N4 í vikunni að hann hefði fullan skilning á þessu banni.

Hann sagði eðlilegt að einhverjar reglur giltu um kattarhald enda væru kettir gjarna til stórvandræða til dæmis gagnvart smáfuglum. Lýsti hann því hvernig svartþrastarpar hefði gert sér hreiður í klifurplöntu í garði hans vestur í bæ. Fljótlega hafi ungar verið komnir í hreiðrið en þá um leið hafi kettirnir verið farnir að veita því athygli. „Stórir og fallegir kettir með bjöllufargan um hálsinn en hvaða máli skiptir það ófleyga unga í hreiðri hvort kettir eru með bjöllur,“ sagði hann. „Á endanum var búið að steypa þessu hreiðri og tveir eða þrír ungar lausir í garðinum og ekkert sem ég gat gert til að bjarga þeim. Foreldrarnir voru búnir að láta sig hverfa. Mér finnst þetta svolítið sorglegt.“ 

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.