*

þriðjudagur, 28. september 2021
Leiðari
14. febrúar 2020 12:32

Ómenntahroki í bergmálshelli

Viðbótarkröfur Eflingar eru settar í gamalkunnugan búning. Talað er um „réttlæti“ og nauðsynlega „leiðréttingu“ launa.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Eyþór Árnason

Verkfall ófaglærðs starfsfólks á leikskólum hófst í síðustu viku með öllu því raski sem því tilheyrir enda bitnar verkfallið fyrst og síðast á foreldrum og forsjármönnum leikskólabarna, sem og þeirra vinnuveitendum. Þeir sem nú eru í verkfalli eru félagsmenn í Eflingu.

Efling er aðili að Starfsgreinasambandi Íslands (SGS), sem er fjölmennasta landssamband verkafólks á Íslandi og stærsta landssambandið innan Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Þó að Efling sé aðili að SGS hefur stéttarfélagið klofið sig frá sambandinu því í byrjun vikunnar sömdu 17 af 18 aðildarfélögum þess við Samband íslenskra sveitarfélaga á grundvelli Lífskjarasamninganna, sem gerðir voru á almenna vinnumarkaðinum í apríl á síðasta ári.

Forsvarsmenn Eflingar hafa allt aðrar hugmyndir en félagar þeirra í Starfsgreinasambandinu. Í samningaviðræðum sínum við Reykjavíkurborg hafa forsvarsmenn Eflingar gert kröfu um 90 þúsund króna hækkun, sem er í takt við Lífskjarasamningana og er það gott og blessað. Þessu til viðbótar vilja þeir 22 til 52 þúsund króna hækkun og þá gera þeir kröfu um 400 þúsund króna desemberuppbót. Þetta er ekki ritvilla, krafan er sú að desemberuppbótin hækki úr tæplega 100 þúsund í 400 þúsund.

Eru þessar viðbótarkröfur settar í gamalkunnugan búning. Talað er um „réttlæti“ og viðbótarkröfurnar matreiddar sem nauðsynleg „leiðrétting“ launa. Því miður hafa sumir fjölmiðlar gleypt við þessari framsetningu og gagnrýnislaust talað um þessa viðbótarhækkun sem Efling fer fram á sem leiðréttingu launa þegar staðreyndin er sú að verið er að fara fram á meiri hækkanir en aðrir hafa samið um. Við þurfum því miður ekki að fara langt aftur í tímann til að finna þetta gamalkunnuga stef. Eftir að kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum, sem kváðu á um 2,8% launahækkun, voru undirritaðir árið 2014 setti hið opinbera allt í háaloft með því að semja við lækna og kennara á allt öðrum forsendum nokkrum mánuðum síðar. Í staðinn fyrir að tala um að varðveita efnahagslegan stöðugleika, líkt og gert var á almenna vinnumarkaðinum, töluðu opinberu stéttirnar einmitt um „réttlæti“ og „leiðréttingu“.

Flestir muna hvernig þetta endaði. Þessu lauk með klassísku höfrungahlaupi þegar samið var um 30% launahækkun á almenna vinnumarkaðinum á vordögum 2015. Eins og ítrekað hefur verið fjallað um á þessum vettvangi þá er nákvæmlega engin innistæða fyrir sams konar höfrungahlaupi í dag. Ástæðan fyrir því að þetta slapp fyrir horn árið 2015 var að allir ytri þættir voru þjóðinni hagfelldir.

Auk þess að kljúfa sig frá öðru verkafólki innan Starfsgreinasambandsins er forysta Eflingar nú að viðurkenna eigin dómgreindarleysi. Kröfugerðin á hendur Reykjavíkurborg er ekki í neinum takti við Lífskjarasamningana, sem forystan undirritaði á almenna markaðinum þann 3. apríl í fyrra. Hvað ætlar forysta Eflingar að segja við starfsfólkið sem heyrir undir þá samninga? Er mögulegt að sá hópur verði ósáttur ef borgaryfirvöld láta undan og semja á öðrum forsendum en gert var í fyrra? Getur verið að hið klassíska höfrungahlaup blasi þá við enn á ný á íslenskum vinnumarkaði?

Nú þurfa fulltrúar Eflingar að gera það sem öllum er hollt. Setja sig í spor þess sem situr hinum megin við samningaborðið. Þeir þurfa að fara út úr bergmálshellinum og skoða hlutina í stóru samhengi. Hvað gerist í raun ef fallist verður á kröfur þeirra? Mun það hafa einhverjar afleiðingar í för með sér? Er hugsanlegt að verðbólgan fari af stað og tæti í sig launahækkanir sem engin innistæða er fyrir? Gagnrýnt hefur verið að verði gengið að kröfum Eflingar þá séu ófaglærðir starfsmenn leikskóla komnir með svipuð laun og hinir faglærðu sem eiga 3 til 5 ára háskólanám að baki. Þessi gagnrýni á rétt á sér.

Alveg eins og talað er um menntahroka hjá sumum langskólagengnum þá er einnig hægt að tala um ómenntahroka þeirra sem ekki gengu menntaveginn. Í báðum tilfellum byggir hrokinn á minnimáttarkennd þeirra sem í hlut eiga. Hefur ómenntahrokinn látið á sér kræla í orðræðu Eflingar og það er miður. Það er öllum hollt að mennta sig og eðlilegt að fólk sem hefur gengið menntaveginn vilji að það sé metið til launa.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.