Björn Ragnarsson framkvæmdastjóri Kynnisferða sagðist í Viðskiptablaðinu 28. desember furða sig á því að Sjúkratryggingar Íslands hafi samið við Gray Line um akstur með Covid-19 smitaða einstaklinga og ekki leitað eftir tilboðum frá öðrum en Gray Line.

Þetta var rangt hjá Birni. Sjúkratryggingar auglýstu eftir farþegaflutningsaðila í þessa akstursþjónustu í byrjun nóvember.

Bersýnilega skrifast þetta frumhlaup á að fylgjast ekki með í atvinnugreininni. Ummæli sem Björn lét falla um Gray Line sýna hins vegar tilgang þess að rjúka í blaðið.

Í viðtalinu sagði Björn að honum þætti „sérkennilegt að stjórnvöld hafi valið að semja við Gray Line en móðurfélagið Allrahanda GL var í greiðsluskjóli og héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í byrjun nóvember kröfu félagsins um staðfestingu á nauðsamningi. Beðið er eftir niðurstöðu Landsréttar í því máli.“

Ljóst er hvað vakir fyrir framkvæmdastjóranum - ekki að gagnrýna Sjúkratryggingar fyrir meintan einkasamning, heldur koma ómerkilegu höggi á keppinaut.

Gray Line Iceland ehf. er í fullum rekstri og uppfyllir kröfur Sjúkratrygginga, ella hefði ekki verið samið um þennan akstur næstu 6 mánuði. Móðurfélagið er í greiðsluskjóli vegna afleiðinga heimsfaraldursins og hefur sótt um heimild til nauðasamninga til að tryggja sinn rekstur og að kröfuhafar fái sitt á endanum. Fyrirtæki Björns og tengdra aðila hafa hins vegar barist gegn því fyrir dómstólum. Ummælin ber að skoða í því ljósi.

Ekki bætir úr skák fyrir framkvæmdastjóra Kynnisferða að hann telur í viðtalinu að Sjúkratryggingar hafi verið að „bæta Gray Line upp þar sem ákveðið var að semja við Kynnisferðir og Hópbíla um akstur á sóttkvíarhótel fyrr á árinu.“

Var sá akstur boðinn út? Ekki aldeilis. Sjúkratryggingar sömdu beint við fyrirtækin án útboðs. Gray Line mótmælti því ekki. Hafa má skilning á þeirri ákvörðun Sjúkratrygginga, enda nánast um neyðarástand að ræða á þeim tíma - þó svo sé varla lengur. Björn réttlætir þann samning hins vegar með því að Kynnisferðir og Hópbílar séu einu fyrirtækin með samning við Isavia sem gerir þeim kleift að taka við farþegum alveg upp við flugstöðina. Var Isavia aðili að þessum samningi við Sjúkratryggingar? Ef svo er, borga Hópbílar og Kynnisferðir 33% annars vegar og 42% hins vegar af tekjunum frá Sjúkratryggingum til Isavia fyrir aðstöðuna? Þessar röksemdir framkvæmdastjóra Kynnisferða halda ekki vatni. Það getur hver sem er tekið farþega við flugstöðina.

Mikill áhugi Kynnisferða á stöðu móðurfélags Gray Line skýrir ýmislegt. Að undanförnu höfum við hjá Gray Line heyrt frá erlendum viðskiptavinum sem segjast hafa fengið óumbeðnar upplýsingar frá aðilum í ferðaþjónustu á Íslandi um að fyrirtækið ætti í erfiðleikum og varasamt væri að halda áfram viðskiptum við það.

Hjá Gray Line höfum við haft það sem reglu að tala ávallt vel um keppinauta nema þeir séu staðnir að óheiðarleika og ómerkilegheitum. Hingað til höfum við talað vel um Kynnisferðir enda vinna þar mikið af hæfileikaríku fólki sem við höfum átt góð samskipti við þrátt fyrir kröftuga samkeppni.

Björn Ragnarsson væri maður að meiri að biðjast opinberlega afsökunar á þessu gönuhlaupi sínu.

Höfundur er stjórnarformaður Gray Line á Íslandi.