*

þriðjudagur, 27. október 2020
Leiðari
10. janúar 2020 13:03

Ónýtur happdrættismiði

Ekki undir neinum kringumstæðum má endurtaka leikinn frá árunum 2014 og 2015.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, takast í hendur þegar lífskjarasamningarnir voru í höfn í apríl í fyrra.
Haraldur Guðjónsson

Umræða um mikilvægi hagvaxtar, sem hugtaks, í þjóðmálaumræðunni getur verið áhugaverð. Er því stundum kastað fram að fólk borði ekki hagvöxt, sem í bókstaflegri merkingu er auðvitað hárrétt. Þó að hagvöxtur eða verg landsframleiðsla sé ekki fullkominn mælikvarði þá er hann samt sá besti til að meta stöðu efnahagslífsins — að minnsta kosti hefur enginn annar mælikvarði náð að festa sig í sessi.

Í einföldu máli þá mælir hagvöxtur breytingu á vergri landsframleiðslu á milli ára. Landsframleiðsla er samanlagt markaðsvirði á vörum og þjónustu, sem framleidd er til endanlegra nota innan ákveðins svæðis á ákveðnu tímabili. Þó að ákveðnir gallar séu á þessum mælikvarða á ekki að gera lítið úr honum því verðmætasköpun hlýtur að vera mikilvæg í öllu tilliti.

Á hádegisfundi Samtaka atvinnulífsins í gær var hagvöxtur settur í einkar fróðlegt samhengi. Var þar varpað fram spurningunni hversu mörg ár það taki að að tvöfalda verðmætasköpun þjóðarinnar. Miðað við 1% hagvöxt tekur það nánast fulla mannsævi eða 70 ár. Miðað við 2% hagvöxt tekur það 35 ár og miðað við 3% hagvöxt tekur það 24 ár. Búi þjóð við 4% viðvarandi hagvöxt tekur 18 ár að tvöfalda verðmætasköpunina.

Í hruninu voru fáir, ef þá einhverjir, sem spáðu því að íslenskt efnahagslíf myndi standa á jafn styrkum stoðum og það gerir í dag. Grunnurinn að þeirri stöðu sem við búum við í dag er fordæmalaust hagvaxtarskeið frá árinu 2011 til og með 2018. Á síðasta ári fór að hægja á hagkerfinu en segja má að niðursveiflan sé líka fordæmalaus því í fyrsta skiptið eru Íslendingar að upplifa niðursveiflu í stöðugleika. Þó að hagvöxtur mælist nú nálægt núllinu þá hafa lífskjörin ekki gefið eftir og verðbólga er undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Þá eru stýrivextir bankans í sögulegu lágmarki. Í þessu tilliti verður afar fróðlegt að fylgjast með þróun efnahagslífsins á árinu sem var að hefjast.

Eins og svo oft áður þá eru það kjaramálin sem helst ógna stöðugleikanum. Fyrir ári var óvissa vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði en með undirritun lífskjarasamninganna síðastliðið vor var farsæl niðurstaða tryggð. Nú er það aftur á móti óvissa á opinbera vinnumarkaðnum sem skapar óvissu og furðu sætir að nú, níu mánuðum eftir að samningar losnuðu, sé enn ósamið. Opinberu skýringarnar hafa verið þær að afar flókið sé að útfæra breyttan vinnutíma, styttingu vinnuvikunnar. Það má vel vera flókið en það ætti samt ekki að taka tæpt ár að komast að niðurstöðu í þeim efnum.

Óhætt er að segja að sporin hræði þegar kemur að samningum á opinberum vinnumarkaði. Alltof oft hafa ríki og sveitarfélög samið á allt öðrum forsendum en gert hafði verið á almenna markaðnum og þannig leitt launaþróunina í landinu, sem er ótækt.

Í því ástandi sem nú ríkir, hægri niðursveiflu, þar sem fyrirtæki hafa þurft að segja upp fólki og hagræða í rekstri, ættu samningamenn á opinbera vinnumarkaðnum að vera í dauðafæri til að fylgja því sem lagt var upp með á almenna markaðnum eftir. Skapalónið er tilbúið og nefnist lífskjarasamningar.

Ekki undir neinum kringumstæðum má endurtaka leikinn frá árinu 2014 þegar forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins tókust í hendur um að varðveita stöðugleika í efnahagslífinu og sömdu um 2,8% launahækkun. Nokkrum mánuðum síðar setti hið opinbera allt í háaloft með því að semja við lækna og kennara á allt öðrum forsendum. Í staðinn fyrir að tala um að varðveita efnahagslegan stöðugleika var talað um réttlæti og leiðréttingu. Allir muna hvernig þetta endaði. Þessu lauk með klassísku höfrungahlaupi þegar samið var um 30% launahækkun á almenna vinnumarkaðnum á vordögum 2015. Fyrir einskæra heppni, þar sem allar ytri aðstæður voru þjóðinni hagfelldar, leiddi þetta sem betur fer ekki til kollsteypu. Happdrættismiðinn sem menn lögðu traust sitt á fyrir fimm árum mun ekki gefa aftur vinning núna.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.