Það eina sem er öruggt í þessu guðsvolaða lífi er skatturinn, dauðinn og að okkur verður öllum á. Ólíkt flestum okkar, þá geta stjórnmálamenn fastlega gert ráð fyrir að mistök þeirra verði gerð upp fyrir dómstóli götunnar, sem stígur glaðhlakkalegan hneykslunardans undir trommuslætti fjölmiðla og pólitískra andstæðinga.

Þegar dómstóll götunnar á í hlut er sérstaklega mikilvægt að verjast með strategískum hætti og ættu allir góðir stjórnmálamenn að vera undir það búnir. Dæmin sýna þó að jafnvel reyndustu stjórnmálamenn reynast ekki endilega góðir stjórnmálamenn þegar til kastanna kemur.

* * *

Ekki aðeins lét Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra rasísk ummæli út úr sér dögunum, heldur klúðraði hann viðbrögðum sínum í kjölfarið með svo ævintýralegum hætti að ætla mætti að þar færi eyrnablautur ungliði. Og þó, þótt opinberar afsökunarbeiðnir séu rannsakað fyrirbæri innan félagsvísindanna og ágætlega þekkt hvað virkar og hvað ekki, þá reynast flestar þeirra verri en engin.

Á vettvangi stjórnmálanna er það raunar svo að það að biðjast aldrei afsökunar getur verið skynsamleg leið. Viðurkenni stjórnmálamaður opinberlega mistök getur það verið túlkað sem veikleikamerki og gefið á honum betri höggstað en ef hann hefði ekki gefið þeim vægi.

Þannig geta líkur aukist á að mistökin verði notuð gegn honum á fjögurra ára fresti. Stundum er þó næsta óumflýjanlegt að biðjast afsökunar, en það versta sem hægt er að gera er að fara báðar leiðir, að byrja á afneitun og biðjast svo afsökunar, líkt og innviðaráðherra gerði.

En lengi getur vont versnað, því afsökunarbeiðnin var ofan á allt afspyrnuléleg. Rannsóknir hafa sýnt að mestar líkur eru á að afsökunarbeiðni falli í kram almennings komi hún snemma, orðum beint að þolanda og miska hans í upphafi hennar og henni lokað með einlægri eftirsjá og vilja til að bæta ráð sitt. Sjálfsmiðaðar afsökunarbeiðnir þar sem tilraun er gerð til að setja hlutina í eitthvert samhengi, á borð við þá sem ráðherra bauð upp á, virka nær aldrei.

* * *

Undanfarið hefur innviðaráðherra ekki aðeins opinberað fordóma og dómgreindarleysi, heldur líka að hann er ekkert sérlega lunkinn stjórnmálamaður.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .