*

mánudagur, 3. ágúst 2020
Leiðari
13. desember 2019 18:05

Opinberir starfsmenn og áfengi

Endurskoða þarf lög um opinbera starfsmenn til þess að samræma leikreglur á vinnumarkaði.

Haraldur Guðjónsson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur ekki setið auðum höndum í embætti dómsmálaráðherra þótt hún hafi einungis gegnt því í rúma þrjá mánuði. Nánast á sama tíma og hún tók við sem ráðherra komust deilur á milli ríkislögreglustjóra og lögregluembættanna í landinu í hámæli. Það hafði reyndar verið ágreiningur á milli þessara aðila í töluverðan tíma en í byrjun september náði hann nýjum hæðum þegar hvert lögregluembættið á fætur öðru lýsti vantrausti á ríkislögreglustjóra og formaður Lögreglustjórafélags Reykjavíkur krafðist afsagnar hans.

Áslaug Arna tilkynnti fyrir nokkrum dögum að skorið hefði verið á hnútinn með því að gera starfslokasamning við ríkislögreglustjóra. Sá samningur er reyndar gagnrýniverður því hann kostar ríkissjóð tæplega 57 milljónir króna og eru þá laun og launatengd gjöld tekin saman. Staðan var hins vegar mjög flókin því ekki gengur að vantraust ríki á milli ríkislögreglustjóra og lögregluembætta. Áslaug Arna stóð frammi fyrir þeirri staðreynd að ríkislögreglustjóri átti tæp fjögur ár eftir af skipunartíma sínum. Á þeim tíma hefðu laun og launatengd gjöld vegna starfs ríkislögreglustjóra numið tæpum 105 milljónum króna. Þá verður líka að líta til þess að embættismenn njóta ríkrar réttarverndar. Þannig má ekki víkja embættismanni úr starfi nema mjög ríkar ástæður séu fyrir hendi og hafði ríkislögreglustjóri ekki brotið af sér með neinum þeim hætti að heimilt væri að víkja honum úr starfi.

Starfslokasamningur endurspeglar gríðarlega sterka stöðu opinberra starfsmanna á vinnumarkaði í samanburði við fólk á almennum vinnumarkaði. Það er eitthvað sem löggjafarvaldið þarf að skoða gaumgæfilega. Áslaug Arna kemur inn á þetta atriði í viðtali í Viðskiptablaðinu í dag. Segir hún tímabært að skoða lög um opinbera starfsmenn enda sé staða þeirra allt önnur í dag en hún hafi verið þegar lögin voru sett.

Í gegnum tíðina hafa lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna verið meiri en hjá fólki á almenna markaðnum. Þetta þekkja allir. Síðan verður að geta þess að víða hjá hinu opinbera, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, eru yfirmenn í þröngri stöðu og sitja jafnvel uppi með starfsfólk sem spilar á kerfið. Hendur yfirmannanna eru hins vegar bundnar vegna óeðlilega ríkrar réttindastöðu starfsmannanna. Hér er ekki verið að leggja það til að hægt verði að segja fólki upp án fyrirvara. Það hlýtur hins vegar að vera hægt að fara einhvern milliveg. Jafna þarf stöðuna niður á við, þ.e. sömu leikreglur eiga að gilda á milli opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Það er líka grunnurinn að því að hægt sé að jafna launamuninn.

Að öðru. Í gegnum árin hafa verið lögð fram fjölmörg frumvörp sem lúta að því að afnema einokunarverslun ÁTVR með áfengi. Flest þessara frumvarpa hafa falið í sér heimild til smásölu áfengis í hefðbundnum verslunum. Í stað þess að stíga skrefið til fulls hefur Áslaug Arna nú lagt fram frumvarp þess efnis að leyfa verslunum á netinu að selja áfengi.

„Íslenskir framleiðendur hafa þurft að flytja áfengi til útlanda og síðan aftur til landsins til að mega selja Íslendingum það á netinu. Þetta er auðvitað óboðlegt kerfi,“ segir hún í viðtalinu. Þessi staðreynd er auðvitað með hreinum ólíkindum. Fyrir þá sem leggjast gegn því að íslenskar netverslanir fái að selja áfengi er ágætt að benda á að Íslendingar hafa um árabil getað keypt áfengi af erlendum netverslunum og fengið það sent heim að dyrum með DHL.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.