Loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna, COP26, lauk í Glasgow um sl. helgi. Hann er framhald af Parísarsamkomulaginu sem náðist árið 2015 sem varð kveikjan að Loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar. Yfir 100 forstjórar og framkvæmdastjórar skrifuðu undir Loftslagsyfirlýsinguna í Höfða sama ár. Síðan þá hefur heimurinn breyst mikið, sjálfbærni og loftslagsmálin hafa færst nær okkur og í vaxandi mæli orðin hluti af kjarnastarfsemi, tilgangi og upplýsingagjöf fyrirtækja.

Hápunktur framfara?
Loftslagsfundur SÞ í Glasgow er hápunktur og samantekt af gríðarlega mikilli vinnu sem hefur átt sér stað um allan heim síðastliðin ár, á vettvangi SÞ, ríkja, fyrirtækja, fjármálastofnana, félagasamtaka, seðlabanka, vísindasamfélagsins og ýmissa alþjóðlegra stofnana.  Glasgow-fundurinn gekk fyrst og fremst út á að ríki kæmu með metnaðarfyllri markmið um að stuðla að því að hlýnun fari ekki yfir 1,5 gráður frá því sem var í byrjun iðnbyltingarinnar. Það náðist að vísu ekki, því miður. En þetta eru þó framfarir frá því áður en Parísarsamkomulagið kom til, því þá stefndi í um 4 gráðu hlýnun með tilheyrandi röskun á veðrakerfum jarðarinnar. Parísarsamkomulagið náði þessu niður í 3 gráður. Samanlögð markmið ríkja í Glasgow eru að stefna á 2,4 gráður. Og nú reynir á hvort efndir standist.

Í rétta átt, en alls ekki nóg
Þetta er þróun í rétta átt, en alls ekki nóg. Á Glasgow-fundinum steig einkageirinn mun sterkar inn en áður hefur verið á loftslagsfundum Sameinuðu þjóðanna til þessa. Það er flestum orðið ljóst að við náum aldrei settum markmiðum nema einkageirinn taki afgerandi afstöðu, hafi sýn á framtíðina og sjái samkeppnisforskotið í einmitt því. Margt jákvætt er í gerjun þar. Fyrirtæki og fjármálageirinn hafa nefnilega fullt frelsi til að ganga lengra en lægsti samnefnari valdamestu aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna segir til um og birtist í niðurstöðum Glasgow-fundarins.

Kerfislægar breytingar = kerfislæg nálgun
Loftslagsvandinn er aðkallandi og flókinn. Hann þekkir ekki landamæri og kallar á kerfislægar breytingar. Kerfislægar breytingar fela í sér grundvallarumskipti í hagkerfi jarðarinnar. Sem dæmi má nefna orkuskipti, breytingar á framleiðsluferlum frá línulegu hagkerfi yfir í hringrásarhagkerfi og endurhugsun á fæðukerfum og landnýtingu. Þetta þýðir þrennt.

• Í fyrsta lagi þurfum við að bregðast hratt við.

• Í öðru lagi þurfum við að vera vel að okkur hvað þróun mála í heiminum og vistkerfum jarðar varðar.

• Í þriðja lagi kalla kerfislægar breytingar (sem þegar eru hafnar) á kerfislæga nálgun.

Þetta felur í sér að við sleppum takinu á ferlum, skipulagi og verkfærum sem þjóna ekki þessu breytingarferli og vinnum að nýjum lausnum þvert á stofnanir, fyrirtæki og sérgreinar. Það er ekki í boði að vinna þessi verkefni í sílóum.

Er framtíðin þín?
Í stuttu máli, endurspegla hliðarafurðir, niðurstöður og eftirfylgni Glasgow-fundarins breyttan heim sem kallar á breytt hugarfar. Líkt og Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, komst að orði í Kastljósi nýlega, þá eru „tækifærin einungis fyrir þá sem sjá framtíðina fyrir sér og taka þau skref sem þarf að taka til að standa sig í þeirri framtíð.“

Bara það að Indland ætli sér að vera komið með helminginn af uppsettu afli úr endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2030 – eftir rúmlega átta ár – hlýtur að fela í sér gríðarlega stór viðskiptatækifæri til dæmis fyrir íslensk fyrirtæki sem markað hafa sér stöðu á þessu sviði.

Samkeppnisstaða Íslands er í húfi. En hver er þá okkar framtíðarsýn? Og hver eru næstu skref?

Framtíðarsýn og næstu skref
Á Loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar sem fram fer fyrir hádegi á föstudaginn næstkomandi leitum við svara við þessum lykilspurningum.

• Hvað er það helsta sem við tökum með í reikninginn eftir Loftslagsfund SÞ í Glasgow?

• Hvað þýðir breytt heimsmynd fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi, sem eru 99% af íslensku viðskiptahagkerfi?

• Hvaða breytingar eru í farvatninu þegar kemur að lögum og reglum og samkeppnisstöðu Íslands?

• Hver er staðan á þróun markaðar um kolefnisjöfnun á Íslandi?

• Hvaða áhrif hefur umbreytingin yfir í lágkolefnahagkerfi á fólkið í landinu og samfélagslegan jöfnuð?

• Hvernig í ósköpunum eigum við svo að miðla þessum upplýsingum svo þær raunverulega breyti hegðun og hugsun?

Loftslagsfundurinn verður öllum aðgengilegur á streymi á visir.is.

Opnum hliðin fyrir betri framtíð
Með einvalaliði ræðum við aðlögun að loftslagsbreytingum á Íslandi, hver okkar framtíðarsýn er og hvaða skref við þurfum að taka í dag, til þess að hún verði að veruleika á morgun. Við hlustum á sýn yngri kynslóðarinnar og fáum frá þeim endurgjöf á það sem fram fer á fundinum. Sem er hugsanlega það mikilvægasta, því ekki viljum við vera hliðarverðir (e. gatekeepers) sjálfbærrar framtíðar? Við viljum miklu frekar opna hliðin fyrir nýjar hugmyndir og sjónarmið þeirra sem framtíðina erfa.

Höfundur er framkvæmdastjóri Festu – miðstöðvar um sjálfbærni og samfélagsábyrgð.