*

fimmtudagur, 22. október 2020
Óðinn
10. maí 2020 14:05

Opnun og útboð, ferðaþjónusta og fjöregg

Ríkisvaldið hefur langa og ljóta sögu í að henda góðum peningum á eftir slæmum, fyrir pólítískan þrýsting.

Aðsend mynd

Smátt og smátt eru ráðamenn um allan heim að átta sig á því að það er ekki hægt að fela sig heima fyrir veirunni að eilífu. Allt bendir til þess að veiran gefi víðast hvar verulega eftir í þessum mánuði og því gæti hugur ráðamanna heimsins verið mun opnari um opnanir þegar júní gengur í garð. En við skulum bíða og sjá.

                                                                     ***

Íslenskir ráðamenn eru, að minnsta kosti sumir, búnir að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að opna landið fyrir ferðamönnum. Fyrstu hugmyndir eru um að opna fyrir Norðurlandabúa. Það kann að vera skynsamlegt skref - Norðurlönd hafa sloppið tiltölulega vel - en næstu skref mega ekki vera of varfærin og þá heldur að taka skref aftur á bak, ef veiran fer aftur að láta á sér kræla.

                                                                     ***

En við þurfum vitaskuld samt að vera varfærin. Fram hafa t.d. komið hugmyndir um ónæmisvegabréf, en einnig mætti vel við koma skammtímasóttkví á Keflavíkurflugvelli, þar sem allir farþegar til landsins væru prófaðir og ekki hleypt inn í landið fyrr en neikvæð niðurstaða er fengin. Það eru óneitanlega verulegar hömlur, en þeim er vel við komandi.

Ósennilegt er að yfir landið ríði slík ferðamannabylgja næstu vikurnar, að þeim yrði ekki annað, en eins eru vonir um að senn komi skjótvirkari og áreiðanlegri próf. Og fyrir fjöregg ferðaþjónustunnar er það til langtímaávinnings ef Ísland verður þekkt sem öruggur áfangastaður.

                                                                     ***

Það er vissulega lítil von til þess að ferðaþjónustan rétti úr kútnum í bráð, því hvað sem líður öllum opnunum er ósennilegt að það verði mikill ferðahugur í fólki næstu misseri. Að því ógleymdu að fjölmargir í helsta ferðaþýði Íslands hafa orðið fyrir slíkum fjárhagslegum höggum, að þeir hafa annað þarfara við aurana að gera á næstunni en að spóka sig á dýrum og fjarlægum slóðum. Sem Ísland óneitanlega er. En það er samt sem áður mikilvægt að Ísland opnist sem fyrst, þó með nokkrum takmörkunum sé.

                                                                     ***

Útboð Icelandair

30 milljarða króna tap Icelandair kom líklega engum sérstaklega á óvart. Né heldur að félagið meti eigið fé sitt í kringum núll í nýju hlutafjárútboði.

                                                                     ***

Óðinn verður hins vegar að viðurkenna að tæplega 30 milljarða tap félagsins á þremur árum vegna framvirkra samninga um eldsneyti kom honum verulega á óvart. Ekki að um tap væri að ræða, því olíuverð hefur lækkað gríðarlega á þessu ári, heldur hversu tapið er ákaflega mikið.

                                                                     ***

Það ríkir mikil óvissa og að vissu leyti vantraust gagnvart stjórnendum Icelandair. Þar má að mörgu leyti segja að þeir séu fórnarlömb aðstæðna. En einmitt þess vegna er mikilvægt að upplýsingar frá félaginu séu ítarlegar og góðar og segi alla söguna.

Óðni þykir að það hafi nokkuð skort á að svo hafi verið. Það hefur raunar verið viðvarandi vandi undanfarin ár, eins og áður hefur verið rakið í þessum dálkum, en þrátt fyrir allar hremmingarnar áður en veiran lét á sér kræla virðist sem stjórnendur Icelandair séu enn hættulega naumir í upplýsingagjöf.

                                                                     ***

Í síðustu viku var til dæmis greint frá eins milljarðs króna kröfu á hendur félaginu vegna þess að starfsmaður Icelandair ók utan í einkaþotu. Vel má vera að ekki sé nokkur stoð fyrir þessari kröfu, en hvað eru margar sambærilegar fjárkröfur á hendur félaginu og hvernig eru þær metnar í bókum þess? Um það vitum við ekkert.

                                                                     ***

Forsvarsmenn fjárfesta, ekki síst lífeyrissjóða, hljóta að gera sömu ef ekki ríkari kröfur um upplýsingagjöf. Þeir vita manna best að ef þeir fjárfesta og illa fer, þá verður hið fyrsta sem eftiráskýrendurnir skoða upplýsingagjöfin í aðdraganda útboðsins.

                                                                     ***

Aðkoma ríkisins

Þegar útboðið fer fram er afar líklegt að aðkoma ríkisins að Icelandair verði orðin mönnum ljós. Ekki endilega öllum, en sumum.

                                                                     ***

Í tilkynningu sem félagið sendi frá sér vegna útboðsins segir að stjórnin ráði því hversu marga hluti þeir sem skrá sig fá, en reynt verði að láta núverandi hluthafa og starfsmenn fá alla þá hluti sem þeir skrá sig fyrir.

                                                                     ***

Þetta er í besta falli varasamt. Ef ekki vafasamt eða verra. Stuðningur ríkisins, í hvaða formi sem hann er, getur ráðið því hvort fjárfestar taki þátt. Hann minnkar áhættu fjárfestisins verulega og í raun meira en fjárhæðirnar segja til um, því ríkisvaldið hefur langa og ljóta sögu í að henda góðum peningum á eftir slæmum, fyrir pólitískan þrýsting, spuna um þjóðhagslega nauðsyn eða jafnvel þjóðarstolt.

Því er fráleitt annað en að jafnræði ríki meðal þeirra sem taka þátt í útboðinu og geðþóttaákvörðun stjórnar félagsins á ekki að koma til greina. Og ef menn hirða ekki um prinsippin í því, þá geta þeir einfaldlega rifjað upp hversu gæfulega hefur tekist til í stjórn fyrirtækisins undanfarin ár.

                                                                     ***

Leiðrétting

Í síðustu viku gerði Óðinn að umtalsefni Kastljósviðtal við Kristófer Oliversson, formanns félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu (FHG). Í framhaldinu sendi Kristófer Óðni skeyti. Þar segir hann svör sín um aðkomu ríkisins og sveitarfélaga hafa ekki verið nægjanlega nákvæm. Ekki hafi verið hugsunin að velta öllum kostnaðinum yfir á skattgreiðendur heldur ósk um að ríkisvaldið bregðist við.

                                                                     ***

Óðni þykir þetta afar virðingarvert af Kristófer að leiðrétta þetta. Það gera allir skyssur en fæstir leiðrétta þær. Óðni er ljúf skylda að vekja athygli á því og sjónarmiðum Kristófers, sem eru allrar athygli verð.

                                                                     ***

Kristófer bendir á að aðstæðurnar sem hótel og gistiheimili eru í séu óviðráðanlegar og ófyrirsjáanlegar og ekki sé hægt að rekja þær til fyrirtækjanna sjálfra. Viðar Már Matthíasson, fyrrverandi hæstaréttardómari, hefur unnið lögfræðiálit fyrir FHG. Þar segir hann að reynt geti m.a. á reglur samningaréttarins um brostnar forsendur, 36. gr. samningalaganna um ósanngjarna samninga og force majeure, sem taka til óviðráðanlegra og ófyrirsjáanlegra ytri atvika í samskiptum gistiheimila við leigusala og lánastofnanir.

                                                                     ***

Í niðurstöðum sínum segir Viðar Már:

Ríkar kröfur eru gerðar til hindrunar (efndahindrunar sem leysir aðila undan skaðabótaábyrgð og skyldu til að efna samning) , einkum þegar um peningakröfur er að ræða. Þær aðstæður sem nú eru uppi vegna heimsfaraldurs Covid - 19 sjúkdómsins og yfirvaldsákvarðanir um ferðatakmarkanir og samkomubann eru þess eðlis að rök eru til þess að telja þær hindrun í framangreindum skilningi. Slík hindrun veldur því að ekki kemur til skaðabótaskyldu eða greiðslu dráttarvaxta þegar ekki er efnt samkvæmt aðalefni samnings.

                                                                     ***

Það kæmi Óðni ekki á óvart ef að niðurstaða í dómsmáli væri sú sama og niðurstaða Viðars Más.

 

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.