*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Kristrún Frostadóttir
27. nóvember 2013 10:39

Ópólitísk samstaða

Þrátt fyrir að íslenska landsliðið í knattspyrnu hafi ekki komist á HM þá getur liðið verið ánægt með árangurinn.

Síðastliðna viku hef ég verið ofboðslega mikill Íslendingur í mér. Ég neyddist til að horfa á landsleikina í fótbolta fjarri heimahögunum og þegar myndir frá vinum á Laugardalsvellinum eða í húspartýum víðsvegar um Ísland streymdu inn á samfélagsmiðlana gat ég ekki annað en óskað þess að vera heima þá stundina.

Ég hafði mikið fyrir því að finna stað sem sýndi leikina og bölvaði sænskum vini mínum í hljóði sem virtist lítinn áhuga hafa á að horfa á Portúgal- Svíþjóð leikinn sem krárnar ákváðu að sýna í stað leik Íslands og Króatíu. „Þvílík sóun á sjónvarpsplássi – þetta er aðalleikurinn!“ hugsaði sármóðgaða alþjóðasinnaða konan, sem fyrr í haust hafði hneykslast yfir athugasemdum forsætisráðherra um að Íslendingar eyddu ekki nægilega miklu púðri í að tala vel um land og þjóð.

Samstaðan hefur ef til vill ekki verið mikil á landinu síðastliðin ár og mórallinn oft í lélegra lagi, skiljanlega. Fjölmiðlar hafa enn af nógu af taka þegar kemur að fréttaflutningi um réttarhöld vegna fjársvika, vanskila fyrirtækja og gjaldþrota, svo ekki megi gleyma átökum á Alþingi um hvort lækka eigi skatta eða veita meira fjármagn inn í heilbrigðiskerfið. Í aðdraganda heimaleiksins gagnvart Króatíu virtist mér sem fjölmiðlum hefði einnig tekist að finna neikvæðu hliðina á sjálfum landsleiknum: „Spilling í miðasölu“. Já, erfitt virðist vera að komast hjá spillingunni á Íslandi þessa dagana.

Mér til mikillar ánægju snerist umræðan þó fljótt við. Staðreyndin er einfaldlega sú að þessa dagana erum við öll í sama flokki, þeim íslenska. Fólki getur greint á um mann leiksins en enginn dirfist að kveða upp neikvæðan dóm um frammistöðu íslenska liðsins, svo djúpt er stoltið.Sjálf fylltist ég kvíða þegar Ólafur Ingi fékk rauða spjaldið í fyrri leik liðanna. Ég var ekki reið eða svekkt, heldur hugsaði fyrst og fremst um hvort þetta hefði áhrif á liðsandann, og kveið því að fréttir að loknum leik myndu snúast um „mistök“ eða „illa ígrundaðar ákvarðanir“. Þvert á móti var liðsmanninum hampað af liðsfélögum, og íslensku þjóðinni, fyrir að koma í veg fyrir mark frá Króötum og „0-0 sigurinn“ sem fjallað var um í fjölmiðlum varð fljótlega öllum landsmönnum ljós.

Ótrúlega hefur mér þótt gaman að skoða mest lesnu fréttir fjölmiðla síðustu daga, sem hafa einkennst af gleði, stolti og samstöðu þjóðar. Auðvitað eigum við að geta glaðst yfir því þegar vel gengur og verið stolt af frábærri frammistöðu afreksmanna okkar Íslendinga þó svo að ekki verði farið á HM í þetta skiptið. Enda er nóg framundan af fréttaefni um hagræðingu og skuldaniðurfellingar sem mun reyna á samstöðuna.

Pistill Kristrúnar birtist í Viðskiptablaðinu 21. nóvember 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is